Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

september 29, 2003
 
Það lítur ekki vel út með...

...ástarmálin þetta árið. Ég fattaði í dag að öll sambönd sem ég hef verið í hafa hafist í ágúst og meira að segja í seinni hlutanum af ágúst. Endingartími þessara sambanda hefur síðan verið misjafn, allt frá 6 vikum upp í 2,5 ár, en það er önnur saga. Málið er hins vegar að nú er ágúst liðinn þetta árið svo ég get líklega gert ráð fyrir að verða laus og liðug næstu 11 mánuði! Hvað er málið, eru ferómónarnir bara virkir í tvær vikur á ári?
Ég er hins vegar á þeirri skoðun að allt geti gerst þegar maður á minnst von á því. Svo, hver veit, nema að skyndilega gerist eitthvað óvænt og undantekningin sanni regluna ;-)

Søren Brandt...

...heitir nýji nágranninn minn. Ég hef að vísu ekki séð hann enn, en hann hringdi í dag! Hann flytur ekki inn fyrr en 10. október en vildi koma á næstunni og kíkja á herbergið mitt og mæla fyrir gardínum o.fl., þar sem hann ekki getur skoðað sitt eigið af því að fyrrverandi leigjandi er fluttur út (skil samt ekki af hverju það er ekki ólæst þar sem það er hvort eð er tómt!)
Ég er eiginlega fegin að nýi nágranninn minn er strákur en ekki stelpa, því við deilum baðherbergi. Ég get ekki hugsað mér að komast ekki inn á bað á morgnana af því að granninn er að blása á sér hárið eða eitthvað álíka. Maður hefur nú ekki svo mikinn tíma á morgnana, þar sem reglan er að fara ekki framúr fyrr en á síðustu stundu.
Hvað sem öðru líður, þá verður spennandi að hitta nýja grannann!


september 28, 2003
 
Róleg helgi!

Þetta var fyrsta helgin án djamms síðan ég kom frá Egyptalandi (fyrir um mánuði) svo ég gerði ekkert nema að læra, æfa og horfa á sjónvarpið. Jú og svo bakaði ég brauð í dag!
Ég nenni ekki að skrifa meira núna, þar sem ekki er frá neinu að segja...

september 26, 2003
 
Færeyska...

Ég er núna stödd í skólanum og þar sem ég er í frítíma þá ákvað ég að fara á bókasafnið að lesa Moggann. Mogginn frá því í gær var því miður ekki kominn, svo eftir að hafa kíkt í Fasteignablaðið (bara af forvitni!) þá skellti ég mér á Dimmalætting, þ.e.a.s. færeyskt dagblað! Færeyska er svo lík íslensku að maður getur vel lesið og skilið það sem skrifað er, en það getur líka verið alveg óendanlega fyndið :-). Ég rakst á eina ansi skemmtilega grein...

Stúdentaskúlnæmingar: Hóttar við morð og bumbum
Næmingaráðið á stúdentaskúlanum í Hoydølum fekk fyri stuttum eitt bræv sendandi við posti úr Onglandi. Í brævbjálvanum var grein um grindadráp við morð- og bumbuhóttanum skrivað á.


Fyrir neðan var svo mynd af þremur skólastelpum með bréfið frá Englandi. Mér fannst fyrirsögnin vægast sagt fyndin enda má hún skiljast á marga vegu, s.s. að stelpugreyunum væri hótað morði og bumbum. Hmmm, á þá að annað hvort að drepa þær eða gera þær óléttar? Nei, nei auðvitað ekki! Bumbutalið er hótun um að sprengja Færeyinga fyrir veiðar á gridarhvölum.

Svo er það jú veðrið...

Útsynningurvestan. Fyrst 10-15 m/s, seinni gul upp í strúk í vindi, 8-13 m/s. Skýggjað og regn ella ælingur. Hitinn um 10 stig
Ekki hljómar hann vel þesi ælingur! Hvernig veður skyldi það vera?

september 25, 2003
 
OB - Rauða Stjarnan : 2 - 2

Ég fór á völlinn í gær á UEFA leik milli OB, þ.e. Odense Boldklub og Rauðu Stjörnunnar frá Beograd í Serbíu. Ég fór með Angeliku, Markusi, Aikhiko og Adam sem öll eru Erasmus skiptinemar hér í Odense, en ég er einmitt mentorinn hennar Angeliku. Miðann minn fékk ég að vísu í afmælisgjöf frá Þjóðverjunum Angeliku og Markusi.
Skemmst er frá því að segja að leikurinn var frábær og mjög dramatískur, bæði innan vallar sem utan!!! Strax á 3. mínútu kveiktu Serbarnir, sem allir voru í sömu stúkunni bak við annað markið, á blysum og köstuðu inn á völlinn, svo markið varla sást fyrir reyk. Þeir héldu svo áfram allan leikinn að kveikja á blysum og kasta inn á völlinn, svo bæði verðirinir og löggan höfðu í nógu að snúast og voru hreinlega búnir að raða sér allt í kringum stúkuna og blanda sér inn í mannfjöldann. Öðru hverju sá maður samt að allt var að sjóða yfir og Serbarnir farnir að slást við lögguna, svo löggan þurfti að handtaka þá. Fólk í öðrum stúkum var farið að standa upp og hrópa; "houligans!". Svo allt í einu í miðjum seinni hálfleik kemur einhver gaur hlaupandi inn á völlinn (að vísu ekki nakinn!) en einn vörðurinn gerði sér nú lítið fyrir og kastaði sér yfir hann og þá var auðvitað fagnað okkar megin í stúkunni :-) Ég heyrði síðan í fréttunum í morgun að 8 manns hafi verið handteknir!

Eftir leikinn fórum við síðan öll á Kollegið, þar sem Markus býr og fengum okkar nokkra þýska, Oktoberfest bjóra, svo ég var ekki komin heim fyrr en eftir miðnætti, sem er ástæðan fyrir því að ég ekki mætti í lífefnafræðifyrirlestur í morgun, heldur svaf til tíu :-)

Jæja, ég ætla að drífa mig á bókasafnið til að lesa moggann áður en ég fer i tíma!

september 23, 2003
 
Ósköp venjulegur dagur!

Já, það er svosem ekki frá mörgu að segja...
...ég vaknaði, borðaði morgunmat á meðan ég sá "Go´morgen Danmark" og hjólaði svo í skólann. Ég fór í einn tíma og hafði svo tvo frítíma, sem ég ætlaði að nota til að blogga en fyrri tíminn fór í að spjalla við Rasmus vin minn og sá seinni í að lesa moggann.
Síðan fór ég í einn tíma og þar á eftir á Aiesec kynningu, en Aiesec eru samtök sem hjálpa háskólanemum að komast í vinnu úti í heimi, sem sagt í 2-18 mánuði. Mín væri jú til í að vinna svosem eins og eitt sumar einhvers staðar í Asíu, Afríku eða bara hvar sem er ef maður fengi spennandi vinnu við hæfi :-) Þetta verður samt að bíða betri tíma, því maður verður að vera kominn með Bs gráðu til að geta farið, semsagt sumarið 2005 gæti ég farið!

Eftir skóla fór ég svo í Bilka og verslaði alveg helling, sem svo þurfti að hjóla með heim (gott að hafa körfu á hjólinu!) Eftir að ég kom heim fór ég svo með fulla þvottakörfu niður í þvottahús og fyllti tvær vélar. Það var ekki gaman að bera allan þennan þvott upp aftur!

Ég ætlaði síðan að vera voða dugleg að læra og byrjaði á að kíkja á eðlisefnafræðidæmin sem á að skila á föstudaginn, en skyndilega varð ég svo rosalega þreytt að ég bara varð að leggja mig hjá Jon Dahl (tígrisdýrinu mínu) í smástund!

Ég svaf nú ekkert lengi, því ég fór svo í spinning! Þegar ég kom heim aftur borðaði ég á meðan ég horfði á Friends, svo reiknaði ég þessi dæmi, sem ég nennti ekki að reikna í dag og nú er ég að blogga...

...semsagt ósköp venjulegur dagur! ;-)

september 22, 2003
 
Pælingar

Maður er orðinn hættulega mikið danskur þegar maður...

...hjólar allt sem maður fer, líka á djammið!
...hefur alltaf ljós á hjólinu sínu þegar dimmt er (jæja, það gleymist reyndar stundum)
...hefur alltaf buxnaklemmu þegar maður hjólar (svo buxurnar verði ekki skítugar!)
...hefur ekkert á móti því að hafa körfu á hjólinu sínu
...hefur alltaf bjór í ísskápnum (ef það skyldu koma gestir)
...syngur hástöfum með þegar spilaðir eru danskir smellir í partýum, s.s. “De smukke unge mennesker”, “Himmelhunden”, ofl.
....getur sagt hvað allir leikmennirnir í danska landsliðinu í fótbolta heita
...veit hvaða lið eru í dönsku Superligunni og hver er að vinna hvern
...kann textann í danska þjóðsöngnum
...talar það góða dönsku að Danir halda að maður sé Dani

Sem sagt, ég er að breytast í Dana !


Nú er ég búin að bæta "shotout" og gestabók inná bloggsíðuna mína ;-) svo þetta er allt að koma!

Ég sótti pakka frá mömmu á pósthúsið í Rosengårdcenterinu í morgun (alltaf gaman að fá pakka!). Ég labbaði síðan framhjá H&M og gat ekki stillt mig um að kíkja inn og auðvitað endaði það með því að ég keypti mér bæði pils og skyrtu :-)

Jæja, ég hef ekki tíma til að skrifa meira núna, því ég þarf að drífa mig á æfingu!


september 21, 2003
 
Frábær dagur !!!

Já, gærdagurinn var alveg meiriháttar! Ég byrjaði á að vakna snemma og hjóla upp á Rask til Bryndísar (um 30 mín ferð) og svo fórum við ásamt Söru og Maju að horfa á og hvetja Odense-strákana í Klakamótinu. Fyrir ykkur sem ekki búa hér í DK þá er Klakamótið fótboltamót milli Íslendingafélaganna í Danmörku (að vísu fékk eitt lið frá Gautaborg að vera með líka).
Um kvöldið fór ég síðan fyrst í afmæli hjá Kasper, dönskum vini mínum úr skólanum, og um miðnætti fór ég upp í Íslendingafélagshús, þar sem saman voru komnir fótboltagarparnir af mótinu og fullt af íslenskum Odensebúum. Það var rosa stemming á staðnum og live-band að spila Stuðmenn, Sólstrandagæja ofl. íslenska smelli. Fljótlega var svo farið í bæinn og lá leiðin á Arkaden, sem er n.k. yfirbyggt húsasund þar sem fullt af mismunandi skemmtistöðum liggja saman. Skemmst er frá því að segja að ég kom ekki heim fyrr en um sjöleytið í morgun og var þá búin að dansa helling og kynnast nokkrum skemmtilegum íslenskum strákum frá Køben og Sønderborg sem ég endaði með á McDonalds.

Sem sagt frábært kvöld !!! Ég hef ekki skemmt mér svona vel í langan tíma og til að kóróna þetta allt saman þá er ég ekki með vott af þynnku (er bara pínu þreytt!)

Í dag er ég nú bara búin að taka lífinu með ró. Reyndi að lesa aðeins áðan í erfðafræðibókinni en augun byrjuðu bara að síga svo það endaði með að ég lagði mig aðeins. Að vísu þá ákvað ég að vera dugleg og búa til alvöru kvöldmat (nokkuð sem heyrir til undantekninga hjá mér!) og bjó ég til þennan fína kjúklinga-pastarétt í nýja ofninum mínum, og bragðaðist þetta bara mjög vel.

Þar sem ég er rétt nýbyrjuð að blogga, þá er síðan mín ansi lítilfjörleg ennþá en ég lofa að með tímanum muni ég bæta inn á hana myndum o.fl skemmtilegu ;-)

september 19, 2003
 
Jæja, þá er maður byrjaður að blogga :-) enda kominn tími til, þar sem maður hefur nú búið í útlandinu í yfir tvö ár!

Síðastliðin tvö ár hefur fólk alltaf verið að hvetja mig til að byrja að blogga en einhvern veginn hafði ég engan áhuga á því enda fannst mér óþarfi að vera að birta mitt líf á netinu. Hinar íslensku stelpurnar sem eru hérna í námi eru hins vegar bráðduglegar við að blogga og þar sem ég er alltaf að lesa síðurnar þeirra þá finnst mér alveg að ég geti sjálf byrjað á þessu.

Ég skal reyna að vera dugleg við að skrifa um það sem er að gerast hverju sinni svo þið getið fylgst með því sem er í gangi hérna í Odense ;-)

Ég er núna í skólanum svo ég held að það sé best að fara að fá sér eitthvað að borða eða bara einn kaffibolla áður en eðlisefnafræðifyrirlesturinn byrjar!