Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

oktober 31, 2003
 
Það hefur lítið heyrst frá mér að undanförnu!

Það hefur verið alveg nóg að gera í skólanum og svo hef ég bara ekki haft frá neinu sérstöku að segja, enda er ekkert merkilegt að gerast þessa dagana. Ég er reyndar búin að ná mér í einhverja leiðindapest og var með smá hita í gær, en þar sem ég leggst ekki fyrir fyrr en ég hreinlega dett niður þá er ég mætt í skólann núna.

Jæja, ég held ég bíði með að skrifa meira þangað til ég hef frá einhverju að segja...

...þið vitið þá allavegana að ég er hérna ennþá, þó ekki heyrist mikið frá mér!

oktober 27, 2003
 
Godkendt...

Ég skilaði skýrslu á föstudaginn í Fysisk Kemi (þ.e. eðlisefnafræði). Þetta var mjög erfið skýrsla og voru allir í heilmiklum vandræðum með hana. Það var búið að segja okkur að venjulega þyrftu um 90% að skila aftur og 75% þyrftu svo að skila enn aftur, þ.e. skila sömu skýrslunni þrisvar.
Ég var að fá skýrsluna tilbaka núna rétt áðan og þarf ekki að skila aftur, he he! Ég fékk meira að segja að vita að þetta væri besta skýrslan sem hann fór yfir ;-)

Góð byrjun á vikunni !!!

oktober 26, 2003
 
Vetrartími...

Nú er búið að breyta klukkunni hér í Danmörku, svo það er ekki nema eins tíma munur á Íslandi og Danmörku. Klukkunni var semsagt snúið einn hring tilbaka í nótt og nóttin var því einum tíma lengri en venjulega. Þetta kom sér ágætlega fyrir mig þar sem ég var á djamminu!
Það verður gaman að sjá í skólanum í fyrramálið hverjir hafa gleymt að breyta klukkunni og mæta því einum tíma fyrr.

oktober 20, 2003
 
Mynd af mér!

Ég er búin að setja mynd af mér á síðuna, en hún var tekin af ljósmyndara stuðningsmannaklúbbsins Áfram Ísland á leiknum í Hamborg um daginn. Það er hægt að skoða myndir frá upphitun fyrir leik, leiknum sjálfum og partýinu efir leikinn á síðunni þeirra. Einnig er hægt að skoða myndir frá öðrum leikjum Íslands í Undankeppni Evrópumótsins, s.s. frá leiknum við Færeyjar í Færeyjum. Ég og Ellert bróðir skemmtum okkur vel við að skoða myndirnar frá Færeyjum, enda er alltaf hægt að skemmta sér yfir færeyska tungumálinu.
Nokkur dæmi:

Røyking bannað = Reykingar bannaðar
Bert starvsfólkaatgongd = Aðeins fyrir starfsfólk
Rúsdrekkasølan = Ríkið
Opið er soleiðis = Opnunartími

Það er gaman að færeyskunni!

p.s. Ég segi alltaf við Danina, jú og Færeyingana líka, að það hafi einungis verið allra sterkustu Víkingarnir sem náðu til Íslands, hinir sjóveiku voru settir úr í Færeyjum!

oktober 18, 2003
 
København…

Ég fór í gær með Angeliku, þýsku, og systur hennar til Kaupmannahafnar. Við fórum með lestinni eldsnemma að morgni og vorum ekki komnar aftur til Odense fyrr en rétt fyrir miðnætti. Þetta var því langur dagur í höfuðborg Danaveldis, en jafnframt alveg frábær. Við byrjuðum á því að labba Strøget, fengum okkur kaffi til að hlaða batteríin og löbbuðum svo að Amalienborg til að heilsa aðeins upp á drottninguna. Hún var þó ekkert var að hafa fyrir því að koma út á svalirnar til að vinka okkur svo við skelltum okkur bara til Christianiu þar sem nóg var um að vera.
Að auki skruppum við í bátsferð og kíktum í búðir og að lokum settumst við inn á ágætis bar í Scala og fengum okkur øl áður en lagt var af stað út á Hovedbanegården.

Það var fullt af fólki í Køben í gær og ótrúlega margir Íslendingar á ferðinni. Það var sama hvar á Strøget maður var staddur, alls staðar heyrðist íslenska, en kannski var það bara af því að margir þeirra töluðu alveg eistaklega hátt, enda héldu þeir kannski að enginn skildi þá.

oktober 16, 2003
 
Danir kunna ekki...

...að keyra í gegnum tvöföld hringtorg!!! Þeir keyra í gegnum þau eins og þau væru einföld, þ.e.a.s. þeir fara allir inn í þau á hægri og þaðan inn í innri hring og beygja svo útaf á hægri. Hringtorgið gæti því alveg eins verið einfalt, því það kemst ekki nema einn bíll í einu og tvöföldunin nýtist engan veginn. Til að toppa þetta alveg þá fara þeir helst ekki inn í hringtorgið nema að það sé tómt og helst aðreinarnar að því líka, þess vegna myndast alltaf langar raðir við hringtorgin.

Ég skrapp áðan niður í bæ á bíl bróður míns og fór þá í gegnum eitt tvöfalt hringtorg. Rétt áður en ég kom að hringtorginu var einhver macho-gaur á eftir mér, sem keyrði alveg í afturendanum á mér jafnvel þó að ég væri yfir löglegum hraða. Ég fór svo yfir á vinstri til að fara í innri hring og þá gefur hann í á hægri og brunar framhjá með voða macho-stælum. Hann þurfti svo auðvitað að bíða í röð á hægri til að komast inn í hringtorgið en það var enginn á vinstri nema ég. Þegar ég fór inn í torgið við hlið annars bíls var ekki laust við mikinn vandræðagang og hik í þeim bíl (hvernig hefði verið að slappa af og halda sig bara á ytri!). Ég fór síðan bara útúr torginu á vinstri og djö.. varð gaurinn í bílnum við hliðina hissa þegar ég fór út við hliðina á honum (hehe!). Macho-gaurinn kom síðan löngu seinna í gegnum torgið, skipti beint yfir á vinstri og brunaði upp að afturendanum á mér aftur (það var brjálað fyndið að sjá svipinn á honum þá!)

Það er alveg merkilegt að Danir skuli ekki kunna að nota tvöföld hringtorg. Bróðir minn hefur oft lent í svipuðum uppákomum, þ.e. þegar hann kemur á vinstri og fer í innri hring þá klossbremsar liðið og panikkar algjörlega í stað þess að halda sig bara á ytri hring, þegar það nú einu sinni fór inn í torgið á hægri akrein.

Getiði ímyndað ykkur hvernig umferðin við stóra hrintorgið við Háskólann væri ef það væri notað eins og einfalt? Á álagstímum næði röðin áreiðanlega alla leið upp í Breiðholt!
Hvernig yrði ástandið í íslensku tvöföldu hringtorgi ef einhver Dani kæmi og keyrði eins og hann er vanur heim hjá sér? Hann yrði keyrður niður um leið!

oktober 14, 2003
 
Esbjerg

Ég er núna í heimsókn hjá bróður mínum í Esbjerg, þar sem það er frí í skólanum alla þessa viku. Ég kom með lestinni í gær og það var pakkað eins og venjulega á milli Odense og Kolding, svo ég kom mér bara strax vel fyrir á ganginum í stað þess að vera að reyna finna mér sæti og eiga svo á hættu að verða rekin úr því. Þeir sem ekki voru eins sniðugir og ég lentu síðan auðvitað í því að þurfa að standa á miðjum ganginum alla leiðina, he he!

Á brautarstöðinni í Odense, þegar ég var að kaupa miða í sjálfsalanum, kom ung kona sem virkaði svolítið stressuð og virtist vera að flýta sér og spurði mig hvort annar sjálfsali, sem var þarna við hliðina á þeim sem ég var að nota, virkaði á sama hátt. Ég sagði henni að hann væri bara fyrir klink en sá sem ég var að nota væri hins vegar bara fyrir kort, og þar sem ég var að verða búin beið hún bara eftir mér. Ég fór síðan að kaupa mér kaffi og þá var þessi kona komin í röð á eftir mér og á meðan hún stendur þar kemur önnur ung kona hlaupandi og spyr hvort hún vilji gefa sér eiginhandaráritun sem hún svo gerir. Þessi kona er þá greinilega eitthvað þekkt en ég bara kannaðist engan veginn við hana og þó að ég gerði það þá væri mér svosem líka alveg sama, enda erum við Íslendingar ekkert að kippa okkur upp við það að einhver "frægur" sé nálægt okkur.

oktober 12, 2003
 
Frábær ferð!...

Ferðin á landsleikinn í gær í Hamborg var alveg geggjuð jafnvel þó að við höfum tapað 3-0!!! Við lögðum af stað frá Odense klukkan átta um morguninn, stoppuðum á landamærunum til að versla ódýrt áfengi og vorum svo komin til Hamborgar eftir hádegið. Reyndar seinkaði okkur svolítið því við ætluðum að fylgja Horsens rútunni frá landamærunum, en einhver í þeirri rútu hafði gleymt miðanum sínum á leikinn og þurfti því einhver sem hann þekkir að koma keyrandi með miðann til landamæranna.
Við hittum síðan fullt af öðrum vel stemmdum Íslendingum á skeiðvelli rétt við völlinn, þaðan sem síðan var gengið í skrúðgöngu á leikinn. Það var gífurleg stemming og nánast allir í íslenskum landsliðstreyjum með íslenska fána, hatta, trefla og fleira í fánalitunum.
Þegar komið var á völlinn var stemming engu lík, enda um 55.000 manns samankomnir og þó að við Íslendingarnir værum í miklum minnihluta þá reyndum við að láta heyrast vel í okkur. Það þarf nú varla að hafa mörg orð um leikinn, þar sem langflestir sáu hann en eftir fínan fyrri hálfleik og góðar upphafsmínútur í þeim seinni var sárt að fá markið okkar dæmt af og að Þjóðverjarnir skyldu síðan skora strax á eftir var jafnvel enn sárara. Það var roslega gaman að sjá boltann lenda í markinu hjá Oliver Kahn og við fögnuðum gífurlega, en það var því miður stutt gaman. Stemmingin stúkunni var frekar þrungin eftir að Þjóðverjarnir skoruðu þriðja markið, en þegar leikurinn var flautaður af klöppuðum við strákunum okkar lof í lófa fyrir góða baráttu og fína frammistöðu sem þó ekki dugði til að komast á EM. Mér finnst við alveg geta verið stolt enda höfum við sýnt að stórþjóðirnar geta ekki bara reiknað með vísum stigum á móti okkur og að það er farið að styttast í að við komumst í úrslitakeppni á stórmóti!

Þegar við vorum á leið frá vellinum var mikið af Þjóðverjum í kringum okkur og svo voru einhverjir þýskir strákar að reyna að bögga okkur með því að syngja á þýsku; "Ísland komst ekki á EM" Ég sneri mér bara að þeim og sagði rólega við þá á þýsku að við værum samt stolt af strákunum okkar og að þeir hefðu staðið sig vel og við séum í reynd ekkert fúl yfir að hafa ekki komist á EM, því það hefði bara verið mikill bónus fyrir svona litla þjóð eins og okkur að ná því!

Ég frétti að ég hefði komið í sjónvarpinu í eftir að þjóðsöngurinn var spilaður! Gaman að því!

Kíkið endilega á myndirnar frá upphituninni og leiknum á: www.aframisland.is

oktober 10, 2003
 
Áfram Ísland !!!

Ég er á leið til Hamborgar á morgun að sjá leikinn Þýskaland - Ísland !
Við förum um 25 manns með rútu héðan frá Odense klukkan 8 í fyrramálið og tökum þátt í skipulagðri dagskrá fyrir Íslendingana fyrir leikinn. Svo verður jú stoppað á landamærunum og verslað ódýrt!

Ég hlakka alveg geggjað til enda verður án efa góð stemming!

ÁFRAM ÍSLAND !!!!!!!!!!!!

oktober 09, 2003
 
Úr fréttablaðinu....

Körfuknattleikssamband Íslands hefur ákveðið að frá og með áramótum verði öllum félögum í Intersport-deildinni skylt að hafa lukkudýr á sínum snærum!!!

Api úr Hveragerði
Hamar úr Hveragerði er tilbúið
með lukkudýrið sitt. Það er api
sem kenndur er við Eden.

Tja, Bragi í Eden er nú illa liðinn af einhverjum í Húrigúri !! En fyrr má nú rota en ...... !

oktober 08, 2003
 
Frede og Mary loksins trúlofuð!

Já, þá er það orðið opinbert að Friðrik krónprins ætlar að giftast Mary Donaldson frá Tasmaníu og mun brúðkaupið eiga sér stað í Vor Frue Kirke í Kaupmannahöfn þann 14. maí 2004.
Það hefur ekki verið talað um annað í dag og er hver einasti fjölmiðill hér í Danmörku er gjörsamlega gegnsýrður af þessu máli. Það var varla hægt að horfa á fréttirnar í kvöld, því alls staðar var bara talað um þetta og turtildúfurnar sýndar aftur og aftur gerandi og segjandi nákvæmlega það sama. Það er nú meira hvað hægt er að tala mikið um þetta og til dæmis þá byrjaði TV2 klukkan 9 í morgun og er búið að vera að alveg síðan, þó að það einasta sem sést hafi til parsins hafi verið um hádegisleytið þegar þau vinkuðu frá svölunum á Amalienborg og svo í hálftíma fjölmiðlavitali seinnipartinn í dag.
Margrét Danadrottning var að vísu búin að láta frá sér fyrir um tveimur vikum að í dag yrði trúlofunin gerð opinber, svo fjölmiðlarnir og aðrir gátu undirbúið sig fyrir stóra daginn.
Svo var það stóra spurningin sem brann á allra vörum og mikið var búið að pæla og rökræða um; “Kan Mary tale dansk?” Jú, það gat hún! Að vísu var það ekki mikið sem hún gat sagt á dönsku og talaði mest ensku, en þetta var þó ágætis byrjun hún er allavegana búin að slá verðandi tengdapabba sínum við, sem eftir áratuga búsetu í Danmörku varla getur talað dönsku, a.m.k talar hann ekki góða dönsku. En allir eru voða ánægðir með þessi örfáu orð sem hún sagði og svo eru fjölmiðlarnir einmitt búnir að vera velta sér voða mikið uppúr því hvað danska er erfitt mál, meira að segja “heimsins erfiðasta mál” lét einhver fréttasnápurinn hafa eftir sér. Tja, ég verð nú bara að valda þessum manni vonbrigðum með því að segja að danska sé alls ekkert erfitt mál og það er nú varla merkilegt að Mary geti talað smá dönsku, þar sem hún er búin að vera með Frikka í rúm 3 ár og hefur búið hér í Danmörku í um 2 ár að því er ég best veit. Ég skil ekki allt þetta fjaðrafok!

Nú mun aldeilis ekki verða talað um annað en þessa trúlofun og komandi brúðkaup í dönskum fjölmiðlum alveg fram á vor og þegar brúðkaupið er yfirstaðið verður strax farið að einbeita sér að maganum á Mary, því allir vilja verða fyrstir með fréttina um að barn sé á leiðinni.

oktober 07, 2003
 
Þorrablótsnefnd...

Það var hringt í mig áðan og ég beðin um að vera með í þorrablótsnefnd Íslendingafélagsins hér í Odense og ég hreinlega bara sló til “med det samme!”, enda örugglega heilmikið fjör að vera í þessari nefnd og gaman að fá að vera með í ráðum. Við munum síðan keppast við að gera þetta að skemmtilegu þorrablóti með tilheyrandi hrútspungum og íslensku brennivíni, að ógleymdri íslenskri tónlist!

En nú yfir í annað...

Það eru þrír þættir í sjónvarpinu sem ég bara má ekki missa af, þó að ég annars horfi ekki mikið á sjónvarp! Þetta eru Robinson expeditionen, Sex and the City og Nikolaj og Julie.
Fyrir þá sem ekki vita, þá er Robinson expeditionen á svipuðum nótum og Survivor (sem ég að vísu hef aldrei séð!) en Robinson er hins vegar frumútgáfan, þ.e.a.s. Robinson byrjaði á undan Survivor. Þetta eru alveg rosalega vinsælir þættir hérna í Danmörku, sem má best sjá af því að í fyrra þegar stóð til að hætta og haldið var; “Robinson, det endelige opgør!” þar sem sigurvegarar undangenginna ára voru þáttakendur, þá varð allt vitlaust svo framleiðendurnir hreinlega sáu sig tilneydda til að halda áfram. Gárungar eru því farnir að kalla þetta; “Robinson, det uendelige opgør!”
Sex and the City þarf nú varla að kynna fyrir fólki, enda hafa þessir þættir verið í gangi lengi, bæði hér í Danmörku og á Íslandi. Mér finnst þær vinkonurnar Carrie, Samantha, Miranda og Charlotte alveg frábærar og svo eru þær svo ólíkar þó að þær séu nánast í sömu aðstöðunni, þ.e.a.s komnar vel á fertugsaldurinn og gengur illa í samböndum. Vona bara að manni sjálfum eigi eftir að ganga betur í ástum en þeim!
Þættirnir um Nikolaj og Julie njóta þvílíkra vinsælda hér í Danmörku að leikkonan Sofie Gråbøl, sem leikur Julie er oft ávörpuð sem Julie þegar hún er að versla. Ég held að þessir þættir séu svona vinsælir af því að þeir lýsa lífi og hversdagslegum erfiðleikum venjulegs fólks, þó að sumar persónurnar lendi nú samt í ansi miklu. Ég vona bara að Nikolaj og Julie finni saman aftur!


p.s. Kíkið hér: www.killerqueen.dk, veljið svo Galleri og síðan Magasinet 16. november 2002
Þar ættuð þið að sjá mig á efstu myndinni til vinstri, en ég er í rauðum bol og sit á öxlunum á tveimur vinum mínum.
Myndirnar eru frá tónleikum þessa bands hér í Odense í fyrra, en ég er að fara á tónleika með þeim aftur nú í nóvember.

oktober 05, 2003
 
Hvítvín...

...já, og svo meira hvítvín!!! Ég fékk semsagt nóg af hvítvíni á föstudagskvöldið, en það er nú oft þannig þegar flaskan stendur opin fyrir framan mann og maður getur fengið sér eins mikið og maður vill, því um leið og hún tæmist er bara komið með nýja!

Við borðuðum á veitingastað niðri í bæ og þó að ég væri í síðum hvítum kjól og háhæluðum skóm þá tók ég strætó á veitingastaðinn. Þetta þykir mjög eðlilegt hér, þó að þetta væri óhugsandi heima á Íslandi. Það fór hins vegar ekkert á milli mála að það var eitthvað að gerast í Odense þetta kvöld því á meðan ég var í strætó sá ég fjöldan allan af fínt klæddu fólki á hjólum, á leið út í Háskóla, þar sem einnig var hægt að borða fyrir ballið. Hvaða Íslendingur myndi hjóla á árshátíð???

Eftir matinn lá svo leiðin á ballið í skólanum, þar sem ótrúlegur fjöldi fólks var samankominn. Mér tókst að týna öllum þeim sem ég var með og finna aftur oftar en einu sinni. Eftir að hljómsveitirnar hættu að spila var síðan haldið áfram að djamma á hinum ýmsu deildum skólans og fór ég með Angeliku, þýska skiptinemanum mínum á líffræðideildina, þar sem var mikið fjör. Við enduðum svo kvöldið á Huset, sem er lokalbarinn við H.C. Ørsted kollegiet, en ég hefði nú betur látið ógert að fara þangað, því ég stoppaði bara stutt og það eina sem ég fékk út úr því var sígarettuglóð á kjólinn minn og þar með gat :-(

Dagurinn í gær fór síðan bara í að liggja í rúminu! Ég var með eihverja þá verstu þynnku sem sögur fara af og var ég ekkert smá fegin að eiga sunnudaginn eftir áður en að ég þarf að mæta í skólann.

oktober 02, 2003
 
Árshátíð!!!

Annað kvöld er árshátíð í skólanum mínum. Hún er haldin í skólanum, enda er hann mjög stór og tekur alveg við þeim 8.000-10.000 manns sem mæta. Fyrir ballið fer ég út að borða með hópnum mínum frá því í fyrra á veitingahúsi niðri í bæ, þar sem verður serverað vín og øl ad libitum, sem sagt við borgum ákveðið verð og fáum eins mikið vín og bjór og við þurfum (eins gott að fara varlega!)

Núna er ég búin að vera að strauja kjólinn minn og svo er ég á leið í klippingu í fyrramálið, en það er nú vissara að gera sig fína því hver veit nema riddarinn á þeim hvíta leynist þarna einhvers staðar ;-)