Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

november 30, 2003
 
Snyd…

Ég ætla að skreppa til Austurríkis í janúar eftir prófin og er að spá í að taka bara næturlest frá Odense til München, því ég er svo heppin að það fer ein lest alla leiðina og ég get því bara sofið róleg án þess að þurfa að skipta á miðri leið. Lestin fer héðan kl 20.24 og er komin til München kl. 9.03. Ég tæki svo bara næstu lest til Braunau og yrði komin rétt fyrir hádegið, úthvíld og hress. Í gær var ég á brautarstöðinni hér í Odense og notaði því tækifærið og athugaði með verðið á svona ferð og fékk að vita að ég gæti fengið þetta á 1159.- danskar. Ég athugaði síðan á heimasíðu Deutsche Bahn hvað Þjóðverjarnir eru að taka fyrir nákvæmlega sömu ferð, þ.e.a.s. með sömu lestinni, sem jú er þýsk, og komst að því að með því að kaupa miðann í Þýskalandi í gegnum netið fæ ég hann á hálfvirði eða 78.- evrur, sem er um 585.- danskar. Mér finnst nú ansi lélegt af DSB að taka svona mikið aukalega fyrir afgreiðsluna á miðunum og ekki ætla ég að styðja þá í þetta skiptið!!!

november 24, 2003
 
Hjemlig duft!

Það var ekki laust við að ég fengi smá heimþrá í verklegri efnafræði í morgun þegar ég fann þessa fínu hveralykt upp úr tilraunaglasinu mínu. Ég fór beint yfir til Bryndísar, þ.e.a.s. hinnar íslensku stelpunnar í kúrsinum, og hún fann líka strax að þetta var hveralykt. Kennaranum mínum fannst alveg ótrúlega fyndið að mér þætti brennisteinslyktin góð og að hún minnti mig á mínar heimaslóðir. Eiginlega þá minnti þessi lykt mig bara á uppvaxtarárin í Hveragerði en í þá daga var maður nú alveg samdauna hveralyktinni, enda lyktar meira og minna allur bærinn af brennistein og svo voru þær nú ófáar ferðirnar sem maður hjólaði í gegnum hverasvæðið í miðjum bænum.

Já, það var gaman að vera minntur á heimaslóðirnar á mánudagsmorgni í verklegri efnafræði inni á Kemisk Institut í SDU í Odense.

november 23, 2003
 
Bara fjórar vikur þangað til ég kem á Klakann!!!

Já, eftir nákvæmlega fjórar vikur verð ég komin heim í Sörlaskjólið til kisunnar minnar þar sem ég verð án efa dekruð í bak og fyrir af gamla settinu! Það verður æðislegt að koma heim og geta slappað af í heila viku áður en próflesturinn hérna úti byrjar. Ég reikna nú samt ekki með að sitja mikið og slappa af enda er alveg hellingur sem þarf að gera þegar maður kemur heim og stoppar bara í viku. Jú, og svo er alltaf nóg að gera um jólin!

Annars þá er bara svo mikið að gera í skólanum núna að ég bara get ekki beðið eftir að önninni ljúki og ég fái smá rými til að anda. Eins og er þá er ég að skrifa lífefnafræðiverkefni ásamt tveimur öðrum stelpum en við vorum einmitt uppi í skóla frá níu í morgun og alveg til klukkan þrjú að vinna að þessu. Svo náði ég rétt að skjótast heim með bækurnar og ná í æfingafötin mín og var svo komin í spinning klukkan fjögur.

Það er alltaf nóg að gera hjá mér og ég hef hreinlega aldrei tíma til að láta mér leiðast, en það er jú það sem fær tímann til að líða og um leið styttist í að ég komi heim.

november 19, 2003
 
Kashmir

Ég er að fara á tónleika með dönsku hljómsveitinni Kashmir þann 12. desember en ég var einmitt að kaupa miðana núna rétt áðan á netinu. Elli bróðir ætlar að koma með mér sem einmitt er vel við hæfi þar sem það var hann sem á sínum tíma kynnti mig fyrir þessari hljómsveit með því að vera með diskinn þeirra í bílnum sínum. Mér fannst þeir strax mjög góðir og yfirleitt þegar ég var ein á ferðinni á bílnum, þ.e. þegar ég bjó í Esbjerg, þá setti ég þá í spilarann.

Jæja, ég er orðin svo þreytt núna að ég bara hef ekki orku í að skrifa meira. Ég var í skólanum frá 8-18 og svo er ég búin að vera að skrifa skýrslu síðan ég kom heim.

Bless í bili!

november 16, 2003
 
Tónleikar

Ég fór á tónleika í gærkvöldi hjá bandi sem heitir Killerqueen og spilar Queen lög. Þetta voru alveg frábærir tónleikar og troðfullt af fólki. Toppurinn var án efa þegar þeir spiluðu “We are the Champions” og vinir mínir lyftu mér upp á axlirnar á sér, þá var ég alveg að fíla mig í botn!

Eftir tónleikana var svo farið á ölstofu nokkra í miðbænum. Hver haldiði að hafi svo ekki birtst þar??? Jú, einmitt umræddur sætur strákur (sjá 10. nóvember). Hverjar eru líkurnar !?!? Nú, við auðvitað heilsuðumst og spjölluðum aðeins og samt höfum við ekki talað saman síðan við sáumst síðast á djamminu, þrátt fyrir að vera næstum daglega í tímum saman. Það gerðist hins vegar ekkert fleira fréttnæmt þetta kvöldið enda var maðurinn umvafinn gelgjum alla nóttina og engin ástæða til að vera að hætta sér inn á þeirra umráðasvæði!!!

Ég hitti strák í gær sem sagði: “Augun þín eru falleg” Hann er danskur en sagði þetta á íslensku þegar ég sagði honum að ég væri frá Íslandi. Hann sagði að einhver Íslendingur sem hann kynntist á kolleginu sem hann býr á í Kaupmannahöfn hafi kennt sér þetta og lofað að þetta myndi virka vel á íslenskar stelpur. Ég er bara fegin að þessi Íslendingur hafði ekkert verið að stríða stráknum með að kenna honum að segja eitthvað ljótt og láta hann halda að það sé eitthvað annað.

november 11, 2003
 
Til hamingju, Helga og Daði !!!

Vinir mínir, Helga og Daði, eru nú í dag búin að vera saman í 5 ár!!! Frábært hjá þeim! Ég man svo vel þegar þau voru að byrja saman, á árshátíðinni í MR haustið "98. Ég þekkti Daða vel í þá daga en átti reyndar eftir að kynnast Helgu, sem í dag er ein minna bestu vinkvenna.
Ég verð nú að viðurkenna að ég gat alls ekki ímyndað mér að þau skötuhjúin myndu hanga svona lengi saman og ég held að óhætt sé að fullyrða að flestir hafi talið að samband mitt og Garðars myndi endast lengur en samband þeirra. Skemmst er þó frá því að segja að sambandi okkar Garðars lauk fyrir tæpum þremur árum. En svona eru nú hlutirnir óútreiknanlegir!!!

Ég óska ykkur alls hins besta og lengi lifi sambandið!!! Hmm, hvenær á svo að fara að stækka fjölskylduna ;-)

november 10, 2003
 
Skammdegisþunglyndi og sætur strákur !!!

Já, skammdegisþunglyndið er farið að gera vart við sig enda orðið dimmt og kalt, brrrr! Ég finn hvernig það verður erfiðara og erfiðara að fara á fætur á morgnana og það er aðeins tilhugsunin um yndislegan kaffibolla sem kemur mér framúr, jú og svo tilhugsunin um að vera að fara í ákveðna tíma...

...því að sumir tímar eru betri en aðrir!!! Ekki af því að þeir séu svona miklu skemmtilegri heldur af því að ég hef ágætis útsýni í þessum tímum. Útsýnið mitt er svona líka sætur strákur sem er með mér í þessum tímum. Hann var að vísu með mér í fyrirlestrum í fyrra líka og ég var svosem alveg búin að taka eftir honum en var ekkert að spá í hann fyrr en ég óvart endaði með honum og vini hans á djamminu þegar allir hinir sem höfðu verið með okkur fóru heim. Upp frá því hef ég verið að taka meira og meira eftir honum og finnst hann bara stöðugt verða sætari. Eins undarlegt og það nú er þá töluðum við ekkert saman í langan tíma eftir þetta ákveðna djamm, heilsuðumst ekki einu sinni, fyrr en ég allt í í einu í haust rakst á hann á djamminu niðri í bæ. Að vísu var það hann sem tók eftir mér, þegar ég áttti leið hjá, og heilsaði mér með svona líka hressu “Heeejjj!” eins og við værum gamlir kunningjar sem ekki hefðu sést lengi. Ég auðvitað heilsaði á móti, jafnhressri röddu, og við byrjuðum að spjalla m.a. um hvað það væri fyndið að við hefðum ekkert talað saman síðan á djamminu síðast, þó að við værum þónokkuð oft í tímum saman. En þá segir hann alltí einu....

...heyrðu má ég ekki kynna þig fyrir kærustunni minni ???? (hmm, ég man samt ekkert hvað hún heitir!). Og skyndilega rann upp fyrir mér að ég var orðin of sein, dam´n afhverju fattaði ég ekki fyrr að mér líst svona vel á þennan gaur!?! (Kannski voru þau ekki einu sinni saman í vor þegar við vorum á fyrra djamminu! Spurning um að nýta sénsana þegar þeir gefast!)

En allavegana þá voru norsku vinkonur mínar, Anne og Elin, allt í einu að uppgötva hann! Þær fóru að tala um sæta strákinn sem er með okkur í tímum og ég sagði nú bara; “hmm, tell me about him!!!”
En annars þá held ég að einbeitingu minni hafi hrakað snarlega í þessum ákveðnu tímum undanfarið!!! Hvernig fer maðurinn að því að verða bara sætari og sætari með hverjum deginum sem líður, eða ér ég bara að verða ruglaðari og ruglaðari??? Kannski er maður alltaf að leitast eftir því sem maður getur ekki fengið, hann er jú á föstu!!!

Hvað er málið með alla þessu stráka sem manni líst vel á, ýmist eiga þeir kærustu eða eru í sárum eftir fyrrverandi kærustu! Já, þetta er flókið líf!

november 07, 2003
 
J - dag !!!

Sne-baj`re kommer vrimlende, henover barer trimlende !!!

Tuborg Julebryg, þ.e. jólabjórinn kemur í kvöld klukkan 20.59

Nammi, namm

november 05, 2003
 
Teljari...

Það er kominn teljari á síðuna, svo nú get ég séð hve margir eru að fylgjast með og hvort það sé yfirhöfuð einhver sem les þessa síðu.

Það er spurning hvort maður reyni ekki að vera duglegri framvegis við að skrifa á síðuna svo einhver nenni að kíkja á hana! Hmm, ég byrja fljótlega að skrifa meira (þetta er svona eins og hjá fólki sem reykir, það ætlar alltaf að hætta á morgun eða eftir helgi).

november 03, 2003
 
Úr dagbók lögreglunnar...

Sat fastur í glugga í 45 mínútur

Lögreglan í Reykjavík fékk aðfaranótt laugardags tilkynningu um mann sem var fastur í glugga á annarri hæð í húsi í austurborginni. Lögreglumenn losuðu manninn úr glugganum en 3½ metri var frá glugganum til jarðar. Lögreglan segir að maðurinn hafi verið búinn að vera þarna í 45 mínútur og orðinn nokkuð þrekaður. Ekki fylgir sögunni hvernig hann komst í þessar aðstæður en hann býr í húsinu.

Mér þætti gaman að vita ástæðuna fyrir því að maðurinn komst í þessar aðstæður! Ef einhver veit eitthvað meira um þetta mál, þá endilega lát heyra!!!

Alveg ótrúlegt

Á laugardagskvöld varð ökumaður fyrir því óhappi að snúa kveikjuláslykli aðeins of langt þegar hann ætlaði að kveikja á útvarpinu, svo bifreið hans hökti af stað og lenti á hurðaropi bónstöðvar.

Tilkynnt var um mann á föstudag sem ráfaði á milli húsa í efri byggðum borgarinnar og drægi á eftir sér stóran poka. Lögreglan segir að ekki hafi jólasveinninn verið þar á ferð heldur maður í annarlegu ástandi sem fékk að gista fangageymslu lögreglunnar.

Þá hringdi maður á lögreglustöðina og sagðist hafa týnt seðlaveski. Hann var að setja vörur í bifreið sína, setti veskið upp á þak bílsins og sá það ekki meir. Seinna sama dag hringdi maður sem fundið hafði veskið og kom því til eiganda.

Á föstudagskvöld tilkynnti starfsmaður kaffihúss í austurborginni að gestur hafi gleymt veski á staðnum. Reynt var að hafa upp á eiganda en í ljós kom að í veskinu voru nokkur greiðslukort með mismunandi nöfnum. Hringt var í handhafa eins kortsins en þá kom í ljós að kortið var stolið. Líklegt þykir að önnur kort í veskinu hafi einnig verið illa fengin.

Rétt fyrir miðnætti var óskað aðstoðar lögreglu vegna pilts sem var til vandræða á vídeóleigu í vesturborginni. Pilturinn sagðist aðspurður vera orðinn 18 ára og mætti þar af leiðandi nota spilakassa á staðnum. Hann tapaði fjárhæðinni sem hann lagði undir og krafði tilkynnanda þá um endurgreiðslu þar sem hann væri í raun ekki orðinn 18 ára. Lögregla ók piltinum heim en hann snéri aftur stuttu seinna og braut rúðu í vídeóleigunni með því að kasta spýtu gegnum hana.

Best að leggja sig bara...

Tilkynnt var um sofandi mann við Grafarvogslaug. Maðurinn hafði setið á hitarist og var að hlýja sér fyrir næst áfanga heimleiðarinnar. Hann gekk sína leið.

Snemma á sunnudagsmorgunn var tilkynnt um tvo menn sem brotist höfðu inn í anddyri húss í vesturborginni og svæfu þar ölvunarsvefni. Þegar lögregla kom á staðinn fannst þar sofandi maður. Hann mun hafa kveikt smá eld inni í anddyrinu til að ylja sér og voru smávægilegar skemmdir á mottu eftir eldinn. Manninum var vísað út.

Þá var tilkynnt um tvo sofandi menn á veitingastað í miðborginni. Gleymst hafði að læsa veitingastaðnum og höfðu tveir erlendir menn sem ekki áttu í nein hús að venda farið þar inn og lagt sig á gólfið. Mönnunum var ekið að húsnæði Hjálpræðishersins þar sem þeir ætluðu að fá gistingu.

Já, svona er nú Ísland í dag!!!