Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

december 28, 2003
 
Þá er maður aftur kominn í Danmörkina!

Eftir 8 tíma ferðalag í bíl, flugvél, lest og strætó þá var ég aftur komin í litlu íbúðina mína í Odense. Jólin eru núna búin og í fyrramálið hefst próflestur, enda kominn tími til þar sem fyrsta prófið er farið að nálgast ansi mikið. Ég er búin að sofa alveg síðan ég kom til Odense og hef aðeins tekið jólagjafirnar og matvöruna uppúr töskunum. Ég fékk fullt af fínum gjöfum, þ.e. hlý föt, náttföt, bækur, snyrtivörur og svo líka geisladiskabrennara fyrir ferðatölvuna mína. Ég var ekki send matarlaus til Odense og kom því með fulla tösku af skyri, flatkökum, skonsum og hangikjöti og auðvitað heimabökuðum smákökum, mmmm!!!

Íslandsferðinni sem ég hafði hlakkað svo mikið til er núna lokið. Tíminn leið allltof hratt og ég sé það núna að það er of lítið að skreppa í viku yfir jólin. Ég náði samt að gera margt skemmtilegt á þessum stutta tíma, þ.e. fara í eina jólainnkaupaferð í Kringluna, eitt djamm í Reykjavík, bíóferð á Hringadróttinssögu og halda jól í faðmi fjölskyldunnar.

Ég held að ég fari bara fljótlega að sofa aftur svo ég verði klár í próflestur í fyrramálið.

december 24, 2003
 
GLEÐILEG JÓL

Ég vona að þið hafið það öllsömul gott yfir jólin eins og ég mun hafa það hérna hjá fjölskyldunni í Reykjavík. Það er yndislegt að vera komin heim.

december 20, 2003
 
Alveg að koma heim...

Lagt verður af stað frá Odense í fyrramálið og eftir ferðalag um Kastrup og Keflavík verð ég komin heim í Sörlaskjólið seinni part dags.

Það er spáð snjóstormi hér í Danmörku á morgun svo það verður væntanlega allt vitlaust í umferðinni og seinkun í lestarkerfinu, enda fer yfirleitt allt í klessu hjá Dönunum þegar kemur smá snjóföl. Það eru líka allir fjölmiðlar að keyra þetta upp og tala um hið komandi "ofsaveður" og svo er mælt með að fólk sé ekki á ferðinni aðfararnótt mánudags. Hmm, það er bara von á smá snjó og pínu roki - ég skil ekki öll lætin!

En við ferðalangarnir, þ.e. ég og Elli bróðir, ættum að sleppa í veðursældina á Íslandi áður en "ofsaveðrið" skellur á!

december 17, 2003
 
Ísinn brotinn...

Já, þetta hefur bara verið alveg ágætis dagur! Ég vaknaði ekki fyrr en klukkan níu og fór þá upp í skóla að læra. Ég var í Studiezonen, þar sem eru rosalega fínir lessalir sem allir eru frekar litlir og því ekki mikil truflun. Ég lærði alveg fram til klukkan sex í kvöld, með nokkrum góðum pásum þó, m.a. einni langri Morgunblaðspásu á bókaafninu með kaffibolla, mmmm!
Það sem hins vegar gerði daginn svona góðan var nokkuð sem gerðist þegar ég var á leiðinni heim eða nánar tiltekið á leiðinni út úr Studiezonen. Já, ég gekk fram á ákveðinn mann sem einnig var á leið heim. Þessi ákveðni maður er margumtalaður hér á þessu bloggi og hefur hingað til bara verið kallaður “sæti strákurinn” en ég ætla héðan í frá að kalla hann C, sem einmitt er upphafsstafurinn í nafninu hans. Eins og ég hef áður sagt frá þá þekkjumst við ágætlega en tölum aldrei saman nema þegar við hittumst á djamminu. Frá því ég rakst á hann á síðasta djammi hefur hins vegar verið eitthvað undarlegt og feimnislegt andrúmsloft á milli okkar, líklega vegna þess að hann veit að mér líst nokkuð vel á hann eða af einhverri allt annarri ástæðu (ég hef ekki hugmynd). Á föstudaginn síðasta var ég svo að koma labbandi eftir einum af hinum mörgu göngum skólans þegar hann gekk þvert yfir og sagði mjög spontant “hej” en ég hins vegar náði ekki að heilsa á móti því þetta gerðist allt svo hratt og hann var kominn fram hjá mér næstum um leið og því asnalegt að fara að heilsa svona löngu seinna. Þetta virkaði kannski bara eins og ég vildi ekki heilsa, sem væri nú ekkert óeðlilegt þar sem okkar síðustu samskipti voru frekar misheppnuð (á áðunefndu djammi) og við höfum ekki heilsast lengi.
En nú gekk ég sem sagt fram á hann í dag og sagði auðvitað bara “hej” og fékk þetta líka fallega bros og “hej” frá honum. Við vorum bæði á leið út úr Studiezonen svo við vorum bara samferða eftir ganginum og byrjum að spjalla. Hann hafði greinilega parkerað hjólinu sínu við inngang A svo þegar við náðum þangað stoppuðum við og spjölluðum í smá stund áður en hann fór út og ég hélt áfram göngu minni að inngangi B, þar sem minnn fákur var. Það sem við spjölluðum um í þessar örfáu mínútúr, sem að mínu mati hefðu mátt vera fleiri, var ósköp sakleysislegt eða bara verkefnið sem við skiluðum á föstudaginn en hann er jú með mér í þeim kúrs og svo spjölluðum við um prófin og að missa af áramótunum vegna þeirra. Aðalatriðið er hins vegar að við spjölluðum !!! Nú held ég bara að málið sé að spila kortunum rétt og sjá hvað tíminn leiðir af sér !!! Þolinmæði, þolinmæði !!!

Danir eru ólíkir Íselndingum að því leyti að það tekur langan tíma að kynnast þeim en þegar þeir eru orðnir vinir manns þá eru þeir líka góðir og traustir vinir á meðan Íslendingar eru meira yfirborðskenndir. Það gæti því tekið mig langan tíma að finna út úr C og komast að því hvort það sé einhver áhugi hjá honum. Sem sagt bara eitt að gera...

...vera þolinmóð!

december 16, 2003
 
Þá er það komið...!

Já, ég er búin að kaupa lestarferðirnar til og frá Austurríki eftir prófin í janúar. Ég hringdi í þjónustusíma DB (þýska lestakerfið) og keypti miðana þar og með því sparaði ég mér u.þ.b. 600-800 dkr. Þetta getur nú ekki talist annað en gífurlegur sparnaður þegar litið er á verð miðanna, en með því að kaupa þá beint frá Þýskalandi og ekki í gegnum DSB (danska lestarkerfið) fékk ég þá á 80,50 Evrur, þ.e. 600 dkr í stað eins og áður segir um 1200-1400 dkr. Já, það borgaði sig að geta skilið heimasíðu DB og geta talað þýsku í símann!!!
Ég fer sem sagt þann 22. janúar með lestinni héðan frá Odense kl. 20.24 og verð komin til München, úthvíld og hress (ég pantaði Liegewagen), kl. 9.03 næsta morgun. Svo tek ég bara næstu lest til Simbach am Inn, en það fer ein kl. 9.12, sem ég er þó ekki alveg viss um að ég geti náð, en þá bíð ég bara í rólegheitunum eftir næstu ferð. Heimferðin þann 1. febrúar verður aðeins lengri því ég verð komin til Graz þegar þar að kemur. Þá mun það taka mig um 6 tíma að komast frá Graz til München og svo fer ég frá München kl. 19.01 og verð komin til Odense kl. 8.20 næsta morgun. Ef ég ætla að vera 100% örugg á að ná lestinni minni í München mun ég líklega þurfa að taka lestina kl. 10.42 í Graz, svo þetta verður allt í allt um 21 og hálfs tíma ferðalag!...

...gaman, gaman! Ég hef bara með mér góðar bækur (kannski jólabækurnar, sem ég mun örugglega ekki hafa haft tíma til að lesa hvort eð er) og svo get ég keypt mér einhver skemmtileg austurrísk eða þýsk tímarit.


Jólahjól…

Jólin eru að koma
íklædd fannarfeldi.
Stjörnur sindra á himnum
norðurljósin glitra.
Hér heima alltaf er
svo fallegt trúðu mér.
Á sjálfum jólunum
á sjálfum hátíðar jólunum.
Og fjölskyldan öll
samankomin er.
...
Ég hlakka til
ég hlakka svo til
ég hlakka svo mikið til þess.

Ég er komin í alveg ótrúlegt jólaskap og þar sem ég er aðeins með einn jólageisladisk, þá er ég búin að hlusta á hann aftur og aftur.... . Það er samt svolítið erfitt að koma sér í jólaskap, því þegar litið er út um gluggann hér í Odense SØ er grasið ennþá grænt, þó að vísu sé orðið ansi kalt. Að auki þá er ekki alveg nógu dimmt til að það séu að koma jól!
En það er samt staðreynd að jólin eru alveg að koma og það eru meira að segja komnir fimm íslenskir jólasveinar til byggða (ekki hingað til Odense samt) en þetta eru: Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir og Pottaskefill.

Ég get bara ekki beðið eftir sunnudeginum 21. desember, því þann dag í kringum 14 að staðartíma lendi ég á Klakanum!!! Það eru ekki nema 5 sólarhringir þar til þessi stund rennur upp!

december 13, 2003
 
Loksins komin helgi!

Þar sem ég hef ekki haft nokkurn tíma til að blogga að undanförnu er frá svo mörgu að segja að ég hreinlega veit ekki hvar ég á að byrja.

Ég skilaði lífefnafræði ritgerðinni í gær sem ég og tvær danskar stelpur höfum verið að skrifa síðustu þrjár vikurnar. Ritgerðin ber titilinn,; “Seglcelleanæmi, Polymerisering og påvisning af HbS molekyler”. Við erum búnar að leggja mikla vinnu í þessa ritgerð, sérstaklega síðustu dagana, aðallega þó í fyrradag, þar sem við unnum í 13 tíma en það var samt vegna þess að við vorum að klára. Það var mikill léttir að skila í gær, því nú getur maður loksins farið að gera sér grein fyrir að jólin eru að koma.

Já, talandi um að jólin séu að koma! Það eru svei mér þá komnir tveir íslenskir jólasveinar til byggða. Í dag kom hann giljagaur:

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
Hann skreið ofan úr gili
og skaust í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

(úr: Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum)

Annars þá skellti ég mér í Fredagsbarinn í gær þar sem þar var hinn árlegi og jólalegi Pulebar. Þar var bæði drukkið blålys og rødhætte (jólabjórarnir frá Albani) og gløgg með möndlum og rúsínum. Nammi namm!!! Í gærkvöldi fór ég svo á tónleika með Kashmir, sem voru hreinlega frábærir og upphitunarbandið Mew var líka mjög gott. Eftir tónleikana skellti ég mér aðeins í bæinn með Elínu norsku, en þar sem við vorum þreyttar eftir lítinn svefn nóttina áður útaf ritgerðinni, þá vorum við bara stutt í bænum.

Jæja, nú er víst ekki tími til að skrifa meira! Skylduverkin kalla!

december 06, 2003
 
Mikið er maður duglegur!

Ég byrjaði daginn á að skella í tvær þvottavélar. Síðan fór ég í Bilka og keypti alveg helling af bæði nauðsynjavöru og ónauðsynlegu drasli. Þegar ég kom heim náði ég svo í þvottinn og hengdi hann upp og þar sem þetta var nú orðinn algjör þvottadagur þá þvoði ég aðeins í höndunum líka. Þegar öllu þessu þvottaveseni lauk gerði ég mér lítið fyrir og eldaði dýrindis mexíkanskan mat, en svona ykkur að segja þá heyrir það til undantekninga að ég eldi. Eftir að ég var orðin mett og glöð var ég tilbúin að takast á við verkefni dagsins en það var að skrifa einn kafla í lífefnafræðiritgerðinni okkar stelpnanna sem á að skila á næstkomandi föstudag. Ég gerði mér lítið fyrir og skrifaði eina og hálfa blaðsíðu í einum hvelli og svo er ég búin að vera að dúlla mér við að teikna skýringarmynd of.l. skemmtilegt.

Það er gott þegar maður hefur náð að gera það sem maður ætlaði sér yfir daginn og getur farið að horfa á sjónvarpið með góðri samvisku.

december 04, 2003
 
Brákaður putti!...

Já, mér tókst að bráka á mér vísifingur vinstri handar á æfingu í kvöld. Þetta er sami putti og ég braut um árið, þegar ég var í körfunni í KR, og því er hann auðvitað veikur fyrir. Ég var sem sagt á boxæfingu að gera einhverja voða sniðuga “reaktionsøvelse”, þar sem maður hoppar upp í loftið og kastar sér svo á magann, auðvitað með hendurnar fyrst. Ég kom eitthvað skakkt niður með puttann þannig að allur þunginn lenti framan á honum. Hann dofnaði samt upp um leið svo ég gat klárað æfinguna, enda þýðir ekkert að láta einhvern smáskaða hafa áhrif á sig. Ég kældi hann svo bara áður en ég fór í sturtu og ég held að þetta verði allt í lagi, enda stórefast ég um að hann sé brotinn. Síðast þegar hann brotnaði var ég reyndar ekkert að hafa fyrir að gera neitt í því fyrr en daginn eftir, þegar ég mætti í skólann með þrefaldan, bláan og grænan putta og vinkonur mínar hreinlega ráku mig upp á slysó, þar sem kom í ljós að hann var brotinn inni í liðnum. Ég fékk síðan einhverja risaspelku á puttan sem ég þurfti að ganga með í nokkrar vikur.

Það er þó lán í óláni að þetta er vísifingur vinstri handar og ekki hægri (reyndar jafnslæmt þegar maður er að skrifa á tölvu, nokkuð sem ég geri mikið af þessa dagana).

december 03, 2003
 
Mikið að gera...

Það er búið að vera svo mikið að gera undanfarið að ég hef ekki haft neinn tíma til að blogga. Ég er mikið að vinna að lífefnafræðiverkefninu sem á að skila eftir rúma viku, en það gegnur allt saman mjög vel. Stelpurnar sem ég er að vinna með eru báðar danskar og þær eru rosalega ánægðar með það sem ég hef skrifað og segja að það sé ekki hægt að sjá að þetta sé ekki skrifað af Dana.
Fyrir utan lífefnafræðiverkefnið er nóg að gera í verklegri efnafræði, þar sem þarf að skrifa skýrslur ofl. svo ég er eiginlega alls ekki byrjuð að hugsa mikið um jólin. Jú, ég keypti mér "skrab og vind" jóladagatal, þ.e. svona skafmiðadagatal svo ef ég er heppin þá gæti ég unnið einhvern pening.

Ég skrifaði einhvern tímann hér á bloggið að ég væri að breytast í Dana og sú kenning styrkist óðum, þar sem ég meira að segja er farin að fletta upp í dansk-íslenskri orðabók þegar ég er að skrifa mail á íslensku. Hmm...hjælp!