Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

januar 26, 2004
 
Graz

Nú er ég komin til Graz að heimsækja Helgu og Daða og komst í tölvu, sem ég gat "installerað" íslensku lyklaborði á. Það er samt eins gott að ég kann fingrasteninguna utanað því stafirnir á þýska lyklaborðinu eru auðvitað á allt öðrum stöðum.

Ég vaknaði snemma í morgun og tók lestina frá Braunau og eftir að hafa skipt um lest í Straßwalchen, Salzburg og Bischofshofen, þ.e. eftir 6 tíma ferðalag í gengum snjóþakta Alpana þá var ég komin til Graz. Ég skrapp síðan með skötuhjúunum Helgu og Daða á kaffihús þar sem við hittum vinkonur hennar Helgu, sem voru steinhissa á að vinkona Helgu frá Íslandi gæti talað við þær á þýsku, meira að segja með austurrískri mállýsku. Á eftir ætlum við síðan að kíkja aðeins í miðbæinn og skoða það sem er þekkt héðan úr Graz, sem jú er heimaborg hins mikla Arnie ríkisstjóra.

Ég verð að viðurkenna að ég er frekar mikið lurkum lamin í dag, en ástæðan er að ég var á snjóbretti í gær. Þótt þetta hafi verið mitt fyrsta sinn á ævinni á snjóbretti þá var barnabrekkan ekkert látin duga heldur farið beint í alvöru austurrískar Alpabrekkur. Mér var sagt að ég hafi staðið mig feikivel en ég verð samt að viðurkenna að ég var alveg uppgefin eftir daginn, enda tekur þetta ekkert smá á, sérstaklega þegar maður er alltaf að detta og þarf því að vera að standa upp, sem einmitt er frekar mikið mál þegar báðir fætur eru pinnfastir við brettið. En þetta var samt brjálað gaman og ég er mjög líklega að fara aftur á laugardaginn, en þá er ég nú að hugsa um að taka skíðin með!!!

januar 23, 2004
 
Komin til Austurríkis !

Ferdin í naeturlestinni var frábaer. Ég lenti í klefa med dönskum hjónum, syni teirra og tengdadóttur sem öll voru á leid á skídi. Tau voru med fullt af raudvíni og bjór og budu mér audvitad med. Eftir midnaetti breyttum vid klefanum í svefnklefa og fórum ad sofa, en tá vorum vid rétt fyrir utan Hamburg. Vid sváfum sídan alveg til tar vid vorum ad verda komin til München. Ég skrapp svo adeins í midbaeinn í München ádur en ég tók lestina til Braunau.

Tid verdid ad afsaka ad ég skrifa ekki med íslenskum stöfum, en ég er ad skrifa á tölvu med týsku lyklabordi

januar 22, 2004
 
13

Ég var að fá einkunnina mína í eðlisefnafræði og ég fékk 13, sem er hæsta mögulega einkunnin og jafngildir 10 á íslenska einkunnaskalanum! Ég er ekkert smá ánægð, enda voru bara tveir aðrir með 13 af 91 sem tóku prófið og líka vegna þess að meðaleinkunnin í prófinu var 8 og ég því langt yfir meðaltali.

Núna er ég hins vegar á fullu við að pakka fyrir Austurríkisferðina enda ekki nema nokkrir tímar í að ég fari af stað...

...auf Wiedersehen !

 
Þá er önninni loksins lokið...

Ég var í síðasta prófinu í morgun, sem sagt munnlegu lífefnafræðiprófi, sem gekk nú bara ágætlega þó að ég hafi verið óheppin og fengið algjörar vibba spurningar. Efnið til prófsins var mörg hundruð blaðsíður í bók sem fer mjög mikið í smáatriði og við vorum þrjár, sem höfðum skrifað verkefni saman, í prófinu í einu. Á hálftíma átti að spyrja okkur allar þrjár um verkefnið og annað efni sem var til prófs. Við vorum síðan bara mjög óhepnar og spurningarnar fyrir utan verkefnið voru allar rosalega smáatriðalegar og úr kafla sem var kenndur alveg fyrst í haust og enginn hefði getað ímyndað sér að væri mikilvægur. Sem sagt, frekar óheppnar, en okkur tókst að bjarga okkur ágætlega út úr því og fengum fínar einkunnir allar þrjár.

Hversu óheppinn getur maður verið? Fyrir utan að fá ömurlegar spurningar í prófinu, lenti ég í því í morgun þegar ég var að fara af stað í prófið að það var sprungið á hjólinu mínu. Nú lágu Danir í’ðí! Ég hafði ekkert sérstaklega mikinn tíma, svo það var vonlaust að ætla að labba og algjört rugl að fara að bíða eftir strætó og því bara eitt að gera – hjóla á helv.... hjólinu þó að það væri sprungið.

En nú er önninni sem sagt lokið og ég á leið til Austurríkis á morgun !!! Tschüß !!!

januar 18, 2004
 
Bla bla! ...

Það er svo lítið um að vera þessa dagana, enda er ég enn í prófum og geri því lítið annað en að lesa og horfa á imbann. Ég er að vísu búin að reyna að vera dugleg og fara á nokkrar æfingar enda nauðsynlegt til að halda geðheilsunni þegar sjónvarpið er orðið besti vinur manns. Sjónvarpsræfillinn er nú samt ekkert svo slæmur og mun skemmtilegri vinur en lífefnafræðibókin.

Ég er nú samt með háar hugmyndir fyrir morgundaginn, en þá ætla ég að fara út að hlaupa og jafnvel gerast so djörf að hlaupa upp í skóla og athuga hvort einkunnin mín úr fyrsta prófinu sé komin (ekki eins og það sé eitthvað brjálað langt, en samt!). Á þriðjudaginn er ég svo að fara að hjóla yfir í hinn enda bæjarins til að hitta stelpurnar sem ég skrifaði lífefnafræðiverkefni með í desember, en við erum einmitt að fara í munnlegt próf í því fagi á miðvikudaginn þar sem við verðum spurðar út um verkefnið.

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími til að kveikja á imbanum og horfa á fréttirnar...

januar 14, 2004
 
Próf!

Þá er bara eitt próf eftir af fjórum!!! Ég var í prófi í dag sem gekk bara rosalega vel, en reyndar er mér búið að ganga mjög vel í öllum prófunum sem ég hef verið í núna í janúar. Næsta próf verður munnlegt og því mjög ólíkt þeim sem ég hef verið í að undanförnu. Fyrir næsta próf, þ.e. lífefnafræði, þarf ég að lesa mikið og það er mikið sem þarf að læra utanað og muna, en síðustu tvö próf hjá mér hafa aðallega snúist um að reikna. Þetta verður því ágætis tilbreyting.

Ég ætla nú ekki að gleyma að minnast á að hann pabbi gamli er sextugur í dag ! Sendi innilegar hamingjuóskir héðan frá Odense ! Það er nú hálfleiðinlegt að geta ekki verið heima þegar svona stendur á, en eins og Elli bróðir segir alltaf við mig, þá valdi ég þetta sjálf og því þýðir ekkert að vera að væla.

januar 08, 2004
 
Arabi...eða kannski arapi

Það hringdi einhver gaur hérna áðan og talaði bara arabísku í símann. Ég skildi auðvitað ekki orð af því sem hann var að segja en hann var greinilega að spyrja um eitthvað því hann þagnaði inn á milli eins og hann væri að bíða eftir svari frá mér. Ég sagði auðvitað bara; “jeg forstår ikke hvad du siger” en hann hélt alltaf bara áfram á arabísku eins og hann ætti erfitt með að skilja að ég væri ekki að skilja hann. Að lokum sagði ég svo bara “Kan du ikke tale dansk?” og þá skellti hann á. Það hefur verið hringt svona í mig áður, bæði karlar og kerlingar, meira að segja einu sinni eldsnemma á laugardagsmorgni. Svo virðist þetta lið ekki skilja að ég tala ekki arabísku og hringir aftur og aftur og bablar og bablar, sama hvað ég tala mikla dönsku og reyni með því að segja þeim að ég skilji ekki hvað það er að segja.

Ég skil ekki hvað málið er með að fólk heldur að nafnið mitt sé arabískt! Á póstkassanum mínum stendur G.A Traustadottir og það virðast vera einhverjir sem halda að það sé típískt arabískt nafn. Einu sinni hringdi hjá mér dyrasíminn og þar sem ég var inni á baði þá stakk ég bara hausnum út um gluggann til að sjá hver væri fyrir utan. Um leið og gaurinn kom auga á mig byrjaði hann að romsa upp úr sér einhverju voðalega miklu á arabísku en ég svaraði bara á dönsku og spurði hverjum þeir væru að leita að. Þá kom í ljós að þetta voru Danir sem sögðust vera að læra arabísku og gengu um til að reyna að finna Araba sem þeir gætu spjallað við og æft sig. Þeim hafði semsagt fundist nafnið mitt virka arabískt og héldu því að ég væri einn slíkur. Ég sagði þeim nú bara að ég væri íslensk og benti þeim á að fara upp í Vollsmose (gettóið í Odense!).
Til að kóróna allt saman fékk ég síðan fyrir ekki svo löngu einhvern bækling á arabísku í póstkassann minn og það þýðir ekki að spyrja mig hvað stóð í honum.

januar 07, 2004
 
Snjórinn farinn

Já, það tók því að minnast á að það væri kominn snjór, því hann er allur farinn núna. Það var samt lífshættulegt að hjóla á æfingu í gær, því það hafði verið n.k. slydda og jörðin enn frosin svo allar gangstéttar, hjólagötur og umferðargötur urðu eins og skautasvell. Ég komst samt lifandi á æfingu og datt bara einu sinni!

Það er svo lítið að gerast hjá mér núna (annað en próflestur) að ég get ekki annað en talað um veðrið.

januar 06, 2004
 
Snjór !!!

Það er farið að snjóa í Odense og allt orðið hvítt og fallegt. Það breytir að vísu litlu fyrir mig hvernig er utan dyra, því ég er mest í því að læra núna, enda á fullu í prófum en það er samt alltaf gaman að hafa smá snjó á veturna. Að vísu vona ég að það sé búið að skafa og salta göturnar og þá sérstaklega hjólagöturnar því ég fer á æfingu í kvöld og það er hörmung að hjóla í miklum snjó.

januar 02, 2004
 
Gleðilegt nýtt ár

Ég ætlaði að skrifa í gær og segja frá áramótunum en það var eitthvað vesen með netið, svo ég komst ekki inn á blogger síðuna. Ég er núna í skólanum og var að skoða tölvupóstinn minn og komst að því að ég hef verið að fá fullt af undarlegum póstum. Ef einhver fær tölvupóst frá mér með skrýtnu nafni, þá er vissara að sleppa því að kíkja á viðhengið, því það gæti verið vírus !!!

Áramótin voru frábær og ég, ásamt norsku vinkonunum mínum, Anne og Elin, borðaði á mig gat. Við hittumst allar heima hjá Anne, sem býr í íbúð á 3. hæð í miðbænum. Við borðuðum dýrindis mat, sem Anne hafði eldað, drukkum smá rauðvín og norskan bjór og gæddum okkur svo á íslensku og norsku sælgæti. Ég hafði tekið eitt sett, stjörnurúllur, tromp, nóa kropp, lakkrís og möndlur til að gefa þeim að smakka. Á miðnætti stóðum við svo á svölunum hjá Anne og horfðum á flugeldana, sem ég verð nú að viðurkenna að voru afar lítilfjörlegir í samanburði við sprengingarnar í Reykjavík um áramót. Þetta var þó líklega vegna þess að fólk var búið að skjóta upp allan daginn og reyndar í marga daga fyrir áramót, meira að segja í björtu. Ég fór síðan bara snemma heim, enda orðin dauðþreytt.

Ég var að koma úr fyrsta prófinu mínu þetta árið og gekk bara vel. Prófið var úr faginu "Grundstoffernes kemi" og þurfti að kunna rosalega mikið utanað. Nú ætla ég bara að slappa af það sem eftir er dagsins, eða þegar ég er búin að versla, fara á pósthúsið, taka upp úr töskunum (hef ekki gert það enn frá því ég kom frá Íslandi), þvo og skreppa í æfingastöðina. Hmm, ætli ég nái ekki að slappa af í nokkra tíma í kvöld.