Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

marts 29, 2004
 
Smá mistök...

Ég vaknaði í morgun klukkan sjö eins og ég er vön á mánudagsmorgnum, enda á ég að mæta í tíma klukkan korter yfir átta í háskólanum. Ég hafði góðan tíma og fór því í sturtu og lagaði kaffi og var bara alls ekkert að flýta mér. Þegar ég síðan ætlaði að fara að fá mér að borða, kveikti ég á morgunsjónvarpinu, Go´morgen Danmark, og mér varð litið á klukkuna sem er í vinstra horninu á skerminum meðan þátturinn er í gangi. Þá rann upp fyrir mér að ég hafði “godt nok” flýtt úrinu mínu og klukkunni í gemsanum um einn tíma í gær, eins og lög segja til um hér í Mörkinni, en ég hafði ekki breytt græjuklukkunni og vekjaraklukkunni minni og þetta eru einmitt þær klukkur sem sjá til þess að ég komist framúr á morgnana og nú var klukkan því hálfníu og ekki hálfátta eins og ég hafði haldið hálfri mínútu fyrr. Nú var því lítið annað að gera en að láta vaskinn hafa kaffið og leggja af stað í skólann.

p.s. Síða hárið mitt fauk í dag, ekki út í veður og vind, heldur á gólfið á rakarastofunni í Rosengård! Já, ég er komin með stutt hár á ný og fyrir þá sem muna þá er það nokkurn veginn eins og það var á Benidorm um árið!

 
Vestjylland…

Ég var að koma heim frá Esbjerg, þar sem ég er búin að vera um helgina að heimsækja bróðir minn. Megnið af helginni fór í að vera á fritidsmesse, þar sem mótorhjólaklúbburinn sem bróðir minn er í var búinn að stilla upp níu hjólum og var með kynningu á klúbbnum. Ég er að vísu líka meðlimur af þessum klúbb, þó að ég sé bara “bagpassager”, en hver veit nema að ég taki einhvern tímann mótorhjólapróf og fái mér hjól! Þegar ég fyrst hitti fólkið í klúbbnum og kynnti mig, þá var þar ein sem sagði að eftir tvo bjóra gæti hún ekki munað þetta nafn lengur svo héðan í frá yrði ég bara kölluð “Søs” og þannig er það enn og ég kann bara vel við það.

Lestirnar sem fara frá Esbjerg til Køben á sunnudögum eru alltaf troðfullar og var enginn undantekning frá því í kvöld. Ég er aldrei búin að kaupa mér “pladsbillet” fyrirfram því ég er ekkert alltaf viss um hvaða lest ég ætla að taka, því þær fara á tveggja tíma fresti, þ.e. þessar sem fara án þess að stoppa í öllum krummaskuðunum á leiðinni. Þegar ég keypti miðann minn 5 mínútum áður en lestin fór af stað spurði ég hvort það væru einhver laus sæti og fékk að vita að það væri bara laust í reykingavagninum. Ég hugsaði með mér að það væri nú svo sem betra en að sitja á ganginum, sem ég hef gert oft áður og tók því sæti í reykingavagninum. Ég held ég hefði nú betur sleppt því og frekar setið í kremju á ganginum, því það var algjör viðbjóður að sitja þarna innan um keðjureykjandi lið í einn og hálfan tíma. Gaurinn sem sat við hliðina á reykti fjórar sígarettu á leiðinni frá Esbjerg til Odense og svo var annar gaur á móti honum sem reykti tvær og stelpur hinum megin við ganginn sem voru lítið betri. Ég var orðin vel græn í framan þegar ég kom til Odense og var alveg að fara að æla framan í gaurinn við hliðina á mér og svo lyktaði ég og allt sem ég var með af þessum viðbjóði. Ég fatta ekki afhverju þarf að leggja helminginn af lestinni undir þetta, sérstaklega þegar það eru svona fáir vagnar og langt frá nóg af sætum. Það væri nóg að leyfa reykingar á göngunum við dyrnar, þannig að fólk gæti bara staðið upp og farið fram ef það þarf að reykja. Nú eða þá bara banna þetta alveg, sem væri auðvitað langbest, en líklega ekki framkvæmanlegt, því það yrði allt vitlaust í þjóðfélaginu og fólk myndi væla og veina og kalla það “diskrimination” gagnvart reykingafólki.

Jysk...

Það var svolítið fyndið að hlusta á gaurana sem sátu hjá mér í lestinni í kvöld, ekki þó af því að samræðurnar hafi verið áhugaverðar heldur af því að danskan þeirra var bara frábær, enda ekta sønderjysk. Bókstafir eins og t.d. “g” voru bornir fram sem “ch”, svo sem í uge (“uch”) og tilbage (“tilbach”) og svo sögðu þeir ekki bukser heldur “bávs”. Það eru ekki allir Danir sem geta skilið þetta, en ég átti ekki í vandræðum enda hef ég nú umgengist bæði Sønderjyder og Vestjyder, en mér fannst þetta ósköp krúttulegt.

Klukkan...

...er núna einum tíma meira en hún ætti að vera, þ.e.a.s helgin var einum tíma styttri en venjulega og það er aftur tveggja tíma mismunur á Íslandi og Danmörku.

marts 21, 2004
 
Fredagsbar

Ég var barþjónn í fredagsbarnum í gær, þ.e.a.s. ég var að afgreiða af því að CFO (Cellebiologisk Forening Odense) hélt barinn, en ég er einmitt meðlimur af CFO. Það var heilmikið stuð, enda tími til að fá sér bjór á milli þess sem maður afgreiddi. Ég hjólaði síðan af stað frá skólanum rétt fyrir sex í grenjandi rigningu af því að mér var boðið í mat til vinkonu minnar klukkan sex og ég átti eftir að koma við heima hjá mér. Ég var síðan á leiðinni til vinkonu minnar, rennandi blaut og orðin alltof sein þegar keðjan á hjólinu mínu ákvað að detta af. Hmm, það var nú ekki um neitt annað að ræða en að skella keðjunni á aftur og halda svo áfram. Ég kom síðan til vinkonu minnar rennandi, já alveg gegnblaut með drulluskítugar hendur eftir keðjuævintýrið en samt í góðum fíling, enda ekki enn runnið af mér síðan í fredagsbarnum.

Egyptaland...

Já, nú er það komið á hreint að ég og Elli bróðir förum til Egyptalands að kafa í sumar!!! Við förum nokkrum dögum eftir síðasta prófið í júní og verðum í viku. Get varla beðið...!!!

marts 16, 2004
 
Vorið er komið...

Já, það bara allt í einu komið vor og hitastigið um og yfir 10 gráðurnar og svei mér þá kominn tími til! Hitastigið hefur nú samt ekki stigið tilsvarandi í mínum ástarmálum, hefur heldur kólnað á þeim bæ, enda var ég að komast að því að gaurinn sem ég hef haft auga á undanfarið býr með stelpu og er því líklega bara voða happy. Sem sagt kominn tími til að fara að svipast um eftir nýjum karlpeningi!...


...er ekki vorið annars tími ástarinnar?

marts 13, 2004
 
Godt igang fest...

Já, það er djamm á dagskrá kvöldsins. Það er ball úti í skóla og partý hjá mér fyrir ballið, en við erum semsagt nokkur sem ætlum að hittast hérna og fá okkur í glas áður en við förum á ballið. Ég keypti lime, frosin jarðarber, appelsínu-, ananas- og trönuberjasafa og svo ætlar vinkona mín að koma með vodka og malibu og ég á auki eina passoaflösku. Ég held að við ættum að geta blandað okkur eitthvað gott og þá sérstaklega í ljósi þess að ég á fullt af kokteiluppskriftabókum, sem ég er búin að vera að stúdera undanfarna daga.

Jæja, það er bara að vona að þetta verði gott kvöld !!!

marts 10, 2004
 
Allt í einu hringdi síminn...

Ég vaknaði snemma í morgun því ég átti von á símaviðgerðarkallinum á milli 7.30 og 12 (típískir danskir iðnaðarmenn segjast koma einhvern tímann á svona 4 til 8 klst. tímabili). Um níuleytið var kallinn enn ekki kominn og ég bara í rólegheitunum að gera statistik skilaverkefni, þegar síminn skyndilega hringir. Hmm, ekkert óeðlilegt við það nema að hann var jú bilaður! Mér auðvitað dauðbrá en ég svaraði samt og hver haldiði ekki að hafi verið á hinum enda línunnar, jú símaviðgerðarkallinn!!! Þegar hann hafði heilsað og sagt hver hann væri, þá sagði hann “Nu virker din telefon igen” ansi gott að segja mér það þegar ég stend og er að tala í símann. Ég gat því ekki annað en hlegið þegar ég svaraði honum “Ja, det kan jeg høre!” En kallinn sem sagt búinn að gera við símalínuna og ég get aftur komist á netið.

marts 09, 2004
 
Símalínan mín er dauð...

Ég komst að því í gær þegar ég ætlaði á netið að símalínan heima hjá mér er biluð, þ.e.a.s það er enginn sónn og ég get því hvorki talað í símann né komist á netið. En ég hef nú samt gemsa og er því ekki alveg úr sambandi við umheiminn, a.m.k. alveg þar til í gærkvöldi þegar gemsinn brást mér líka. Það var samt ekki gemsinn sjálfur sem var að klikka heldur tengingin, þ.e.a.s. ég gat ekki hringt úr honum og á honum stóð bara "ingen adgang". Hann er samt kominn í lag núna og því aftur mögulegt að ná sambandi við mig. Á miðvikudaginn fæ ég svo heimsókn frá TDC viðgerðarmanni, sem vonandi tekst að kippa heimasímanum í lag aftur svo ég geti komist á netið heima hjá mér.

...Hvað gerði fólk áður en síminn og netið kom til sögunnar???

marts 05, 2004
 
Sjónvarpið...

...er komið á gólfið undir haug af fötum. Ég fékk nefnilega bréf frá danska ríkissjónvarpinu (DR) um að það sé ólöglegt að vera “sortseer” (sem ég jú vissi alveg!) og þar sem ég sé ekki með skráð sjónvarp þá geti ég átt von á heimsókn á næstunni. Ef ég verði tekin með óskráð sjónvarp muni ég þurfa að borga sekt í viðbót við sjónvarpsgjaldið sem er rúmar 2000 dkr. á ári (um 24000 ikr.). Þar sem ég er bara nískur námsmaður hef ég ekkert í hyggju að láta taka mig með tækið í gangi og er því búin að koma því í felur. En gallinn er hins vegar sá að þó að ég horfi frekar lítið á sjónvarp þá get ég ekki verið alveg án þess og þarf nú að sitja á gólfinu og hafa það lágt stillt. En ég ætti samt að hafa möguleika á að slökkva á því og breiða yfir það ef sjónvarpskallarnir skyldu birtast.

marts 03, 2004
 
Herjólfur og Gunnhildur

Ég rakst á þessa þjóðsögu á netinu og fannst ansi gaman að komast að því að til er bæði dalur og á með nafninu mínu einhversstaðar á Íslandi.

Svo er mælt að fyrrum hafi tvö systkin verið; hét pilturinn Herjólfur og er Herjólfsvík við hann kennd, en stúlkan hét Gunnhildur og er Gunnhildardalur við hana kenndur. Þau áttu kafla úr Húsavíkurlandi, það er að segja allan Gunnhildardal ofan í á og alla Herjólfsvík.
Eitt sinn töluðu þau það með sér að þau skyldu fara að búa og kom þeim ásamt um að skipta milli sín því er þau áttu saman; hlaut hann þá Herjólfsvíkina, en hún dalinn.

Fjölgaði fé þeirra óðum og gekk fé hennar á land hans; mislíkaði honum það mjög og beiddi systur sína að gæta fjár síns betur og kvaðst hann ekki vilja mæta ágangi af fé hennar. En Gunnhildur svaraði illu um og sagði að hann skyldi gæta síns eigin fjár betur svo það gjörði sér ekki ágang.

Heittist hann þá við systur sína, en hún kvaðst ekki mundi hræðast stóryrði hans; en hana grunaði hvað hann ætlaði sér og flutti því þegar allt úr bæ sínum um kvöldið ofan undir hól einn sem er niður með Gunnhildará og er hann nú kallaður Hlífarhóll.

Um nóttina hleypti Herjólfur skriðu ofan úr fjallinu og á bæ hennar og sést enn hlaupið fyrir neðan Gunnhildará. En hún lét sér ekki bilt við verða, heldur hleypti á hann skriðu úr fjallinu sem er fyrir ofan Herjólfsvík og liggur hann þar undir með allt sitt. En hún flutti ofan á Gunnhildarsel og bjó þar til elli.

marts 02, 2004
 
Norðurlandabúar...

...geta miskilið hver annan! Það er alveg ótrúlegt hvað tungumál Norðurlandanna eru lík en þó stundum ólík, þ.e. merking sumra orða hefur alveg snúist við. Við Íslendingar þekkjum nú vel hvernig þetta er með íslensku og færeysku, en málið er að þetta er líka svona með norsku, sænsku og dönsku.
Norska, sænska og danska eru svo lík tungumál að kunni maður eitt þeirra getur maður skilið hin, a.m.k að mestu leyti. En sum orð ber þó að varast því merkingin hefur snúist upp í andstæðu sína. T.d. orðið “rolig” sem á dönsku þýðir rólegur. Ef Svíi er með einhver læti og Dani biður hann að vera rólegan; “Ka` du så vær` rolig!” þá er ólíklegt að Svíinn róist eitthvað og frekar líkur á að hann fari að reyna að vera fyndinn, því “rolig” þýðir fyndið á sænsku! Annað dæmi er orðið “grine” sem á dönsku þýðir að hlægja. Dani myndi verða frekar ringlaður ef Norðmaður segði við hann; “Jeg begyndte at grine, fordi det var så tragisk!”, en grine þýðir víst að gráta á norsku.

Margur Daninn hefur líka hlegið þegar ég hef prófað að segja frá því að á Íslandi leggjumst við í geiminn (rummet), ofan á sængina (dynen) og drögum svo rúmið (sengen) yfir okkur. Stundum þegar ég hef verið á leiðinni heim á kvöldin í kulda og myrkri og hlakkað mikið til að skríða undir sængina, þá hef ég verið alveg við það að mismæla mig og segja; “Jeg glæder mig til at komme hjem og kravle ind under sengen!” sem er víst ekki alveg það sama og að segja; “...kravle ind under dynen”

Gaman að þessu!!!