Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

april 26, 2004
 
Ég er enn á lífi...

Það var bara gaman að þessu! Það var ekkert erfitt að hjóla og maður hætti alveg að finna fyrir hungri, þegar maður var kominn af stað. Ég og Sanne, sem var með mér í hóp, tókum vel á því og hjóluðum á mun hærri púls en ætlast var til, nenntum bara ekki að vera að dúllast eitthvað, án þess þó að vera að hamast á hjólinu. Fengum líklega bara ágætis æfingu út úr þessu, enda svitnuðum við ágætlega, sem er bara fínt þar sem ég komst ekki í ræktina í dag.
Tilraunin var ekki búin fyrr en klukkan sex og þá gat ég fengið mér eina brauðsneið áður en ég hjólaði í Bilka að versla og svo heim. Það var fínt að koma heim og get fengið sér almennilega að borða, en ég fann að ég var orðin hálfþreytt og komin með hausverk, enda hafði ég ekkert borðað nema 1 dl havregryn fyrir átta í morgun.

Núna er ég fersk á ný og hlakka til að geta fengið mér kaffi þegar ég vakna í fyrramálið! Ég er bara með bláa putta eftir að hafa verið stungin með nál í allan dag!

 
Ég er svöng!...

Ég borðaði einn dl af haframjöli með mjólk í morgun klukkan 7.50 og núna er klukkan orðin 13.15! Ég má samt ekki fá mér að borða, heldur á ég að fara að hjóla í tvo tíma núna klukkan 14.00. Það verða teknar blóðprufur á 30 mín. fresti á meðan á hjólatúrnum stendur og svo að auki einn tíma eftir að honum lýkur. Þetta þýðir því að ég fæ ekki neitt að borða fyrr en í fyrsta lagi klukkan 17.00!!! Þar sem ég er ekki með neitt nesti með mér ætla ég bara að drífa mig beint í kantínuna og fá mér eitthvað gott á slaginu klukkan fimm.
Ástæða þessara sjálfspíninga liggur í að ég er í verklegri lífefnafræði þessa dagana, þar sem við erum sjálf tilraunadýrin í okkar eigin tilraunum, sem snúast um efnaskipti. Það eru þrír hópar; einn sem fastar yfir nóttina og fær svo að borða þegar tilraunin hefst, annar sem borðar þennan ákveðna morgunmat (1dl havregryn) og hjólar í tvo tíma og svo þriðji hópurinn, sem borðar sama morgunmat og drekkur svo kalt rótsterkt kaffi í upphafi tilraunar. Það verða teknar blóðprufur af öllum hópunum á 30 mín fresti og svo mælt sykur- og fitusýruinnihald blóðsins.

Það að fá ekkert að borða er ekki það versta, heldur er ég alveg eyðilögð yfir því að geta ekki fengið mér kaffi! Ég er búin að vera hérna í skólanum síðan klukkan átta í morgun án þess að fá mér svo mikið sem einn kaffibolla og það er kvöl!

april 25, 2004
 
He he !!!

Ég var sjálf númer 1000 !

april 22, 2004
 
Hver verður númer 1000?

Þúsundasti lesandinn verður endilega að skrifa í gestbókina!!!

april 20, 2004
 
Nei, það var ekki ég...

...sem lenti í ræningjunum og sýndi hinn mikla hetjuskap að plata þá og stinga af. Ég er samt búin að komast að því hver þetta var, en ég þekki hann ekkert.

Það eru hins vegar margir íslenskir námsmenn hér í Odense sem á síðustu dögum hafa verið spurðir hvort þeir séu maðurinn. En ég verð að segja að mér hefði líklega ekki dottið í hug að hlaupa, enda hefði ég örugglega ekki verið í hlaupaskónum á leiðinni heim af djamminu! Ég hefði því orðið að láta þá hafa það sem ég hefði verið með og sem betur fer er ég alveg týpískur Íslendingur að því leyti að ég er nánast aldrei með peninga á mér, bara kort og þau hefðu þeir alls ekki fengið. Frekar hefði ég látið berja mig!

Já, þannig er nú Odense í dag!

april 17, 2004
 
Hver er maðurinn?

Af mbl.is:

Slapp með skrekkinn í Óðinsvéum

Rúmlega tvítugur íslenskur námsmaður í Óðinsvéum í Danmörku slapp með skrekkinn þegar hann mætti tveimur ræningjum í miðbænum snemma í gærmorgun.
Sagt er frá því í Fyens Stiftstidende í dag að Íslendingurinn hafi verið að skemmta sér um nóttina en var á leið heim fótgangandi og ætlaði að fara gegnum Kóngsgarðinn í átt að járnbrautarstöðinni. Þá mætti hann tveimur karlmönnum um tvítugt og sá að annar þeirra hafði hafnaboltakylfu í hendinni og hinn huldi andlit sitt með úlpuhettunni. Þeir gengu beint að Íslendingnum og sögðu: Láttu okkur fá peningana þína og hófu um leið kylfuna á loft.

Íslendingurinn svaraði á ensku og sagðist ekki skilja þá. Við þetta brá ræningjunum og þeir reyndu að endurtaka skipunina á lélegri ensku en Íslendingurinn nýtti sér fátið sem kom á tvímenningana og tók til fótanna. Honum tókst að stinga ræningjana af og hringja í lögreglu.

Blaðið segir að ekki hafi enn tekist að handtaka mennina þótt íslenski námsmaðurinn hafi getað gefið góða lýsingu á öðrum þeirra.

Hver skyldi þetta nú hafa verið???

april 16, 2004
 
Sumar og sól !!!

Það er búið að vera svo gott veður síðustu dagana að það á íslensku gæti kallast hitabylgja, en á dönsku heitir það samt vor! Sólin skín bara alla daga og hitinn er meira að segja skriðinn upp í 18 gráður. Ég er núna loksins komin í helgarfrí og ætla því að drífa mig út í sólina...

...góða helgi!

april 12, 2004
 
Páskafríinu lokið

Já, þá er bara endaspretturinn á þessari önn eftir og svo kemur sumarið með ferð til Egyptalands, flutningum og fleiru skemmtilegu.
Ég var stærsta hlutann af fríinu í Esbjerg eða allt þar til í gær, þegar ég tók sardínutransportinn til Odense, en það kallast ferðin með DSB á sunnudögum þegar aldrei er hægt að fá sæti og það situr og stendur hver um annan þveran á ganginum.
Í Esbjerg upplifði ég ýmislegt skemmtilegt en á skírdag var þar “mótorhjólatræf”, þ.e.a.s það voru samankomin mörg hundruð mótorhjól og margfalt fleira fólk í bænum. Ég og bróðir minn og restin af Virago MC Club Esbjerg var auðvitað líka á svæðinu, en við söfnuðumst fyrst saman í klúbhúsinu og fengum svo lögreglufylgd á mótorhjólunum niður í bæ. Löggurnar höfðu í nógu að snúast við að loka gatnamótunum til að við gætum brunað alla leið án þess an stoppa nokkuð á rauðu.
Klukkan þrjú keyrðu síðan öll mótorhjólin, sem voru samankomin í bænum, í einni halarófu um bæinn. Það var frekar geggjað því alls staðar þar sem við keyrðum stóð fjöldi fólks báðum megin við götuna að horfa á og vinka, í allt mörg hundruð manns, svo manni leið eins og maður væri eitthvað voða frægur. Gaman að því! Um kvöldið var svo partý í klúbhúsinu og mikið stuð. Í byrjun keypti ég sjálf mína bjóra og smirnoff ice, en þegar líða fór á kvöldið var ástandið þannig að það var alltaf verið að gefa mér drykki, svo ég náði aldrei að eiga ekkert að drekka, því alltaf var mér gefin ný flaska áður en sú sem ég var með tæmdist. Það var nú einungis hið gangstæða kyn sem sá um að gefa, en samt ekki alltaf sami gaurinn. Ég held svei mér þá að það hafi verið einhver keppni í gangi! Fólk var orðið misskrautlegt þegar pantaðir voru leigubílar og fólk byrjaði að tínast heim. Ég dröslaðist heim með bróður mínum, þó að ég hafi mest verið til í að halda áfram, enda ákveðnir aðilar búnir að bjóða mér að koma með í bæinn, en ég held að brósa hafi ekki litist allt of vel á það, svo ég vildi ekki fara.
Þegar ég og bróðir minn komum heim var ég ekkert á því að fara að sofa og skellti spólunni sem mamma sendi okkur með spaugstofunni í tækið og hló mig máttlausa af fyrsta þættinum. Það er samt skrítið að þegar ég hins vegar horfði á hina þættina næsta dag fannst mér þeir ekki nærri jafnskemmtilegir!!!
Eins og gefur að skilja er föstudagurinn langi varla í frásögur færandi, enda heilsan ekki alveg með því sem gerist best. Á laugardaginn fór ég svo í grill hjá vinkonu minni, sem ég var að vinna með árið sem ég bjó í Esbbjerg og á sunnudaginn fór ég svo heim til Odense í sardínudósinni.

april 07, 2004
 
Nýtt hjól!!!

Ég var rétt í þessu að kaupa mér nýtt hjól og er rosalega ánægð með það. Mig er löngu farið að vanta nýtt hjól, því gamli garmurinn er orðinn svolítið þreyttur. Ég var svona búin að skoða hjólin við háskólann og þannig gera mér í hugarlund hvernig hjól mig langaði í og því búin að hugsa mér eitt blátt centurion hjól. Ég var í Rosengård í gær og kíkti aðeins í hjólabúðina, ætlaði svona rétt að kíkja á verðið á hjólum og sjá hvað væri boði, en þá stendur þar eitt blátt centurion alveg eins og ég var búin að ímynda mér, á tilboðsverði. Það var slegið 1000 dkr af verðinu af því að þetta var sýningarhjól, þ.e. það var búið að standa í búðinni í einhvern smá tíma. Þetta hjól kallaði alvega svakalega á mig og mig dauðlangaði strax í það. Ég keypti það samt ekki í gær, því ég vildi hugsa mig aðeins um en varð bara meira og meira ákveðin og fór því í dag og keypti það.

Nú á ég því nýtt og fínt hjól og eitt auka hjól, sem getur komið sér vel ef það er sprungið á hjólinu og ég er á leiðinni í próf (gerðist í janúar!). Þar að auki er gott að hafa auka hjól þegar mamma kemur í heimsókn á sumrin, því þá get ég sýnt henni Odense eins og ég þekki það best, á hjóli!

april 06, 2004
 
Esbjerg er Danmerkurmeistari í íshokkí 2004

Ég hélt með Esbjerg í úrslitarimmunni á móti Aalborg, þar sem Esbjerg er nú minn gamli heimabær hér í Danmörku og það voru einmitt þeir sem slógu Odense út í undanúrslitum. Úrslitakeppnin er þannig að það er spilað þar til annað liðið hefur unnið fjóra leiki. Í kvöld var sjöundi leikurinn í keppninni á milli Esbjerg og Aalborg og því hreinn úrslitaleikur og Esbjerg á heimavelli. Ég sá ekki fyrsta þriðjunginn í kvöld, því ég var á æfingu, en þegar ég kveikti á tækinu í fyrstu pásunni var staðan var 0 – 0. Fljótlega í öðrum þriðjungi skoraði Aalborg tvö mörk og mér var hætt að lítast á blikuna. Staðan var enn 0 - 2 þegar þriðji þriðjungur hófst og ég hætti hálfpartinn að fylgjast með því ég var að tala við mömmu í símann, en ég fylgdist þó með leiknum með öðru auganu og það borgaði sig því Esbjerg minnkaði muninn og jafnaði svo þegar 4 sekúndur voru eftir af leiknum. Ég talaði síðan við bróðir minn sem býr í Esbjerg og hann skipaði mér að slökkva á tækinu, því að allt gengi illa hjá Esbjerg á meðan ég væri að fylgjast með, en áður en ég byrjaði að horfa og á meðan ég var upptekin við að tala við mömmu gekk allt vel. Ég vildi nú ekki trúa því að ég væri einhver óhappagrís fyrir Esbjerg og horfði á restina af leiknum en þó með bróðir minn í símanum, því hann vildi ekk sleppa mér, hræddur um að þá myndi Aalborg skora og þar með vinna leikinn . Það kannski bara borgaði sig, því Esbjerg skoraði “Golden goal” þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiktímanum og allar líkur á að leikurinn færi í vítakeppni.

En annars þá er ég á leiðinni til Esbjerg á morgun!

april 01, 2004
 
Páskaeggin eru komin!

Um ellefuleytið í morgun, þegar ég var nýkomin heim úr ræktinni og var alveg að fara að leggja af stað í skólann, var bankað á hurðina hjá mér. Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta gætu verið sjónvarpskallarnir og þar sem ég var með kveikt á sjónvarpinu flýtti ég mér að slökkva á því og breiða yfir það líka, áður em ég opnaði dyrnar. Viti menn, svo var það bara pósturinn með pakka handa mér! Í pakkanum voru tvö Nóa páskaegg, sem sagt eitt til mín og eitt til Ella bróður og svo vorui líka nokkrar spólur og bréf frá mömmu. Þessu var öllusaman svo vel pakkað inn að páskaeggin voru bæði alveg heil, já ekki skráma á þeim, þrátt fyrir að þau séu búin að vera á ferð og flugi milli Íslands og Danmerkur undanfarna daga.