Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

maj 27, 2004
 
Linkar!

Ég fór allt í einu að pæla í því að ég er ekki enn búin setja linka á aðrar bloggsíður inn á bloggsíðuna mína, þó að það hafi alltaf verið ætlunin. Þetta er náttúrlega algjör aumingjaskapur og ég lofa bót og betrun! Ég get þó afsakað mig með því að þegar ég fer á netið hérna heima hjá mér þá borga ég fyrir hverja mínútu sem ég er online og er því ekkert að hanga of lengi í einu. En þegar ég flyt í nýju fínu íbúðina mína í sumar þá fæ ég frítt internet og get gefið mér góðan tíma í að laga og bæta síðuna mína. Það munu því koma linkar á síðurnar ykkar, en samt varla fyrr en eftir prófin.

Apropos nýja íbúðin! Ég átti erindi í miðbæinn um daginn og var þess vegna í nágrenni nýju íbúðarinnar. Datt mér því í hug að athuga hvort gaurinn sem býr þar núna væri heima svo ég gæti skoðað íbúðina að innan. Því miður var hann nú ekki heima svo ég mátti láta mér nægja að kíkja aðeins á gluggann. Gluggagægjir!!!

maj 26, 2004
 
Próflestur....ekki alveg byrjaður!

Næstu tveir dagar eru síðustu kennsludagar annarinnar og svo hefjast prófin. Ég byrja sem sagt officielt í próflestrarfríi á laugardaginn og þá er nákvæmlega heill mánuður þar til síðasta prófið er yfirstaðið.
Vonandi fer veðrið að verða aðeins sumarlegra svo ég geti setið úti að lesa og orðið svolítið brún áður en ég fer til Egyptalands strax eftir prófin. Annars er hætta á að maður brenni bara til ösku þegar maður kemur í Afríkusólina!

Jæja, það er víst ekki meira að frétta í bili!

maj 22, 2004
 
Skyr

Ég er ein af þessum Íslendingum sem bara get ekki fengið nóg af skyri. Þar sem ég get ekki látið senda mér skyr, eins og ég læt stundum senda mér harðfisk og íslenskt nammi, má ég sætta mig við að geta aðeins fengið skyr í þessar fáu vikur sem ég skrepp heim á ári. Jú, svo tek ég yfirleitt með mér nokkrar dollur þegar ég fer út aftur, en þær eru fljótar að klárast.
Ég hef oft óskað þess að Danskurinn myndi uppgötva skyrið og fara að selja það, en hingað til hefur mér ekki orðið að ósk minni eða þar til í gær. Ég var að versla í Bilka og eins og venjan er á föstudögum stóð þar kona í bás að kynna einhverja matvöru. Þar sem ég var bæði svöng og forvitin stillti ég mér upp fyrir framan básinn og ákvað að smakka það sem hún var að kynna, en það var eitthvert grískt jógúrt, sem ég veit að hefur verið til í mjólkurkælinum lengi en ég hef bara aldrei haft áhuga á að kaupa það. Það vildi nú ekki betur til en svo að þetta gríska jógúrt, sem fékkst í nokkrum tegundum; 0,1%, 2% og 10%, bragðaðist alveg eins og hið gamla góða hvíta skyr frá MS. Það var einkum 0,1% tegundin sem var alveg eins og hvítt íslenskt skyr, nammmm!!!

Ég skellti mér að sjálfsögðu á nokkrar dollur og er núna búin að háma í mig hvítt “skyr” og því södd og sæl. Ég hvet aðra Íslendinga búsetta hér í Mörkinni til að prófa, en þetta heitir Total 0,1%, den originale græske yoghurt.

maj 20, 2004
 
Ha ha ha !!!

Hver skyldi hafa trúað þessu!

Endilega að dusta rykið af dönskukunnáttunni og lesa þessa stuttu grein. Maður kemst allavegana ekki hjá því að brosa!

p.s. Þakkir til Söru fyrir að hafa fundið þetta ;-)

maj 17, 2004
 
Ja, hérna hér!

Það ríkti nú ekki mikil ánægja hjá okkur vinkonunum, mér og Anne, yfir stigagjöfinni í Júróvision á laugardaginn. Okkur leist alls ekkert á blikuna, þegar bæði Noregur og Ísland voru enn með núll stig. Danir gerðu sér nú lítið fyrir og gáfu Íslandi aumingjaleg tvö stig, líklega af því að Íslendingar hafa verið duglegir að hringja inn, en Norðmenn máttu sætta sig við að fá ekkert stig af Dönum. Enn verra fannst mér nú að við, Íslendingar, vildum ekki heldur gefa Norðmönnum nein stig, en þeir greyin gáfu okkur þó tvö.
Annars var þetta nú meiri vitleysan, þessi keppni. Það var eins og aðalkeppnin hafi verið á meðal kvenkynskeppenda og gekk sú keppni út á að vera sem minnst klædd!
Mér fannst Jónsi okkar standa sig mjög vel og hann hefði átt miklu meira skilið en þessi 16 stig, en þannig er nú það!

maj 15, 2004
 
Mikið voru þau sæt

Já, þau voru ósköp krúttuleg, Frede og Mary, þegar þau voru gefin saman í gær. Hann var algjör dúlla, sérstaklega þegar hann táraðist í kirkjunni meðan hann beið eftir að dyrnar opnuðust og hans heittelskaða kæmi gangandi inn kirkjugólfið. En hún var líka alveg stórglæsileg og mikið var nú brúðarkjóllinn flottur!
Ræðan hans Frederiks var mjög góð og það kom skýrt fram að hann er alveg yfir sig ástfanginn af henni Mary sinni og ætlar að hugsa vel um hana og vernda hana. Svo var nú brúðarvalsinn ósköp rómantískur. (Sjá allt um brúðkaupið hér)
Ég ætlaði ekkert að horfa á þetta blessaða brúðkaup, jú kannski aðeins að kíkja, en ég límdist bara alveg við skjáinn og eyddi stærstum hluta dagsins í að glápa á þetta. En nú er þetta yfirstaðið og hið nýgifta par farið í brúðkaupsferð, og hin harða keppni um að finna þau er hafin.


Ha ha ha, íslensk skólabókardanska!

Ég var að lesa í B.T. um danska konu, sem fór í ferð til Íslands og var búin að biðja um danskan, eða a.m.k. dansktalandi guide, því hún talar og skilur ekkert annað tungumál en dönsku og henni var lofað því. Þegar hún kom til landsins, fékk hún hins vegar guide sem hvorki var danskur né talaði dönsku og var hún mjög ósátt, enda fékk hún ekki það útúr ferðinni sem hún vildi. Kerlingin sagði að í stað dönsku hefði hann talað eitthvert blandað skandinavískt tungumál, líklega helst norsku og hún því ekki skilið neitt og nú vildi hún fá endurgreddan hluta ferðarinnar og fékk það.
Það er alveg öruggt að þessi guide hefur verið Íslendingur, með stúdentspróf í dönsku og viss um að hann væri fullfær um að tala tungumálið. Vandamálið er hins vegar að margir Íslendingar eiga voðalega erfitt með að tala dönsku, þannig að Danir skilji þá og stúdentspróf í dönsku er engin trygging fyrir því að fólk geti talað við Dani. Sumir geta það ekki einu sinni þó að þeir hafi búið í Danmörku í lengri tíma.

Júróvision

Jæja, þá er aftur komið júró-kvöld! Mér er boðið í mat hjá Anne vinkonu minni, sem er frá Noregi, og við ætlum svo að horfa á keppnina. Við urðum voða glaðar í fyrra, þegar þjóðirnar okkar kunnu að meta framlag hvorrar annarrar og skiptust á 12 stigum. Nú er bara að sjá hvort leikurinn endurtaki sig...

...Áfram Jónsi!

maj 14, 2004
 
Bryllup!

Þá er sjálfur brúðkaupsdagurinn runninn upp og flestir Danir sitja límdir við sjónvarpsskjáinn frá því þeir vakna og alveg þar til þeir fara að sofa aftur. Sjónvarpsstöðvarnar keppast um að sýna sem mest og TV2 byrjaði meira að segja kl. 6.30 í morgun og ætla að sýna frá brúðkaupi í allan dag og fram yfir miðnætti! Það eru meira að segja margir búnir að aflýsa tímum sem þeir áttu hjá læknum og jafnvel fólk sem hefur beðið eftir að komast í aðgerð í marga mánuði neitar að mæta í dag af því að það ætlar að sjá þetta brúðkaupshalløj. Já, ég er ekki hissa á að gárungarnir kalli þetta globryllup!!!
Fyrir þá sem alls ekki nenna að fylgjast með þessu veseni, er nú samt ýmislegt í boði. Ég er t.d. vön að fara í spinning á föstudögum kl. 16, en sá tími fellur niður í dag af því að þjálfarinn ætlar að sjá brúðkaupið. Kærastinn hennar, sem einnig er spinningþjálfari, ætlar hins vegar að hafa tíma frá 16.30 - 17.30 og kallar hann; "ikke-et-ord-om-bryllup-spinning"!!! Ég var mikið að spá í að fara og yrði þá pottþétt eina stelpan í hópnum, því það eru víst aðallega karlarnir sem ekki nenna að sitja yfir þessu globryllupi. En einhvern veginn þarf maður nú samt að sjá þetta, því maður þarf að geta verið með í umræðunni, t.d. um kjólinn, karetturen og dansinn! Já, ég held ég verði að kíkja aðeins með, en bara með öðru auganu!

Ég lofa ykkur að um leið og brúðkaupið og eltingaleikurinn í brúðkaupsferðinni er yfirstaðinn, þá byrja vikublöðin að fylgjast vel með maganum á aumingja Mary og keppast um að verða fyrst með fréttina um að hún sé ólétt.

Já, svona er nú Danmörk í dag!

maj 12, 2004
 
Og það er allt að verða vitlaust!

Já, ég held að Danskurinn sé alveg að fara yfirum á þessu brúðkaupi! Það er ekki talað um að annað og sjónvarpsstöðvarnar keppast um að sýna sem mest frá undibúningnum. Nú er meira að segja búið að aflýsa Sex and the city þættinum sem átti að vera annað kvöld á TV3 eins öll önnur fimmtudagskvöld í vetur. TV2 er líka búið að koma upp brúðkaupsstúdíói í Tivoli, þaðan sem er sjónvarpað beint á hverju kvöldi. Mikið rætt og skrafað um brúðkaup aldarinnar, eins og Danirnir kalla það.
Aumingja Frederik og Mary eiga örugglega eftir að vera dauðþreytt á sjálfan brúðkaupsdaginn, því þau hafa haft mikið að gera undanfarið, má þar nefna Rock'n'Royal, kapsejlads í höfninni, pönnukökuát í ráðhúsinu með tilheyrandi vinki á svölunum, ofl.

Og svo það sem allir eru að spá í...
...veðrið á föstudaginn! Stóra spurningin er nefnilega, hvort karetturen verði í opinni karet eða í lokaðri guldkaret? Ég held að veðurguðirnir hafi ákveðið að stríða Dönunum aðeins, því það er víst allt últit fyrir skúraveður seinni part föstudags og þess vegna erfitt að ákveða hvort það verði opin eða lokuð karet.

maj 09, 2004
 
Jibbí, ég komst á netið heima hjá mér!

Það er eitthvað undarlegt með þessa símalínu hérna hjá mér, stundum get ég hringt og komist á netið og stundum ekki. Ég bjóst ekkert við að geta komist á netið núna og hef satt að segja ekkert prófað alla helgina, en nú ákvað ég sem sagt að prófa og viti menn það tókst.

En það er frá mörgu að segja þó svo að ég hafi skrifað í gær. Ég ætla að byrja á að segja frá...

...Nýju íbúðinni minni

Ég var að fá íbúðartilboð á Pjentedamskollegíinu, sem fyrir þá sem ekki þekkja til er í miðbæ Odense, rétt hjá brautarstöðinni. Þetta er voða sætt kollegí, með rosa fínum íbúðum með eldhúsi, baði og svefnherbergi. Ég er rosa ánægð með að hafa fengið þetta tilboð og ætla að taka því strax á morgun og segja upp litla herberginu mínu með sameiginlega baðherberginu með nágrannanum.
OOOOOoooo hvað ég hlakka til að flytja! Íbúðin losnar þann 15. júlí, sem passar alveg stórkostlega við önnur plön sumarsins, hefði ekki getað verið betra.

Hinar fréttirnar sem mig langar að deila með ykkur, eru...

...Ég er búin að kaupa flugmiða heim í sumar

Fyrst kemur mamma þann 12. júlí til að hjálpa mér að flytja og svo förum við saman heim þann 19. júlí. Ég ætla síðan að vera heima í henni Reykjavík til 1. ágúst. Ég kem með seinna Icelandexpress fluginu á sunnudeginum fyrsta ágúst og verð því ekki komin heim til Odense fyrr en seint um kvöldið. Næsta morgun á ég svo að mæta kl. 8.15 í verkelgan kúrs í skólanum og það er eins gott að sofa ekki yfir sig, því þá missi ég plássið mitt. Þessi kúrs er nefnilega með fjöldatakmörkun og ég var svo heppin að komast inn. Já, það er víst eins gott að það verði ekki mikil seinkun á vélinni, svo ég komist heim frá Kastrup þetta kvöldið.

maj 08, 2004
 
Hæ hó!

Ég ætla bara svona rétt að láta vita af mér og tilkynna að áhyggjurnar af vírusnum voru aldeilis óþarfar, tölvan mín var ekkert með neinn vírus, ekki í þetta sinn að minnsta kosti. Þetta voru góðu fréttirnar, en þær slæmu eru svo að ég kemst ekki á netið heima hjá mér þessa dagana, því símalínan mín er eitthvað skrýtin. Það er ekki hægt að hringja úr heimasímanum mínum, og því ekki hægt að komast á netið, en það er vel hægt að hringja til mín. Kannski er þetta þó alls ekki svo slæmt, því það er ekki ég sem er að borga fyrir samtalið á meðan. Ég er búin að láta TDC vita af þessu og þeir ætla að senda kall til mín næsta miðvikudag, sem sagt viku eftir að ég hringdi (típískt danskt) og þar að auki var mér tilkynnt að hann kæmi milli 7.30 og 12.00 (líka típískt danskt).

Jæja, ég sit hér á laugardegi í tölvuverinu í háskólanum af því að ég þurfti að komast á netið og get ekki látið heila helgi líða án þess að ég kíki á póstinn minn ofl. Þar sem ég var á 90 mín brjálað erfiðri æfingu í ræktinni áður en ég kom hingað og þarf að fara að versla í Bilka á leiðinni heim þá ætla ég bara að láta þetta nægja að sinni.

Góða helgi!

maj 05, 2004
 
Góðan daginn!

Já, ég er alveg viss um að þetta verði bara fínast dagur, án þess þó að það sé eitthvað sérstakt að fara að gerast. Ég hef þetta bara svona á tilfinningunni.

Vírus...

Ég fékk vírus í tölvuna mína í síðustu viku, en mér tókst að losa mig við hann með því að ná í frítt vírusvarnarforrit á netinu og láta það hreinsa tölvuna. Vírusvarnarforritið fann í allt 5 vírussmitaða fíla, sem ég hafði ekki haft hugmynd um að væru á tölvunni minni, fyrr en excel fór allt í einu að vera með eitthvað vesen.
Í fyrradag var ég síðan á netinu og var nýbúin að lesa um Sasser vírusinn, sem veldur því að tölvan er alltaf að slökkva á sér. Rétt áður en ég ætlaði að fara af netinu, þá allt í einu slekkur tölvan mín á sér og ég legg saman tvo og tvo og er alveg viss um að ég sé komin með helv... Sasser. Ég lét vírusvarnarforritiði, sem ég hafði náð mér í í síðustu viku, hreinsa tölvuna en það fann ekki neitt. Hmm, það þýðir annaðhvort að ég sé ekki með vírusinn eða að þetta vírusvarnarforrit geti bara ekki náð Sasser, enda er hann alveg nýr.
Ég hef lítið notað tölvuna síðan en þegar ég hef verið með hana í gangi hefur hún ekki verið með neina stæla svo ég er vongóð um að ég hafi sloppið við Sasser. Í kvöld ætla ég reyndar að athuga það betur inni á heimasíðu Microsoft.

Í gær var ég að tala við mömmu í símann, einmitt um vírusinn og tölvuna, þegar allt í einu slitnar sambandið. Þetta var mjög skrítið því ég heyrði ekkert þegar það slitnaði, heldur hélt bara áfram að tala og skildi svo ekkert í því að mamma svaraði mér ekkert. Í langan tíma á eftir var síminn síðan alveg dauður og enginn sónn í honum. Nákvæmlega það sama var í gangi hinum megin á línunni, þ.e. enginn sónn. Síðan allt í einu kom sónninn aftur og mamma hringdi aftur í mig. Okkur fannst þetta svolítið skrýtið og við sættumst á að útskýringin væri bara að það væri kominn vírus í símann líka :-)

Niðurstöður

Á mánudaginn vorum við að mæla fitusýrumagnið í blóðprufunum okkar frá því í lífefnafræðitilrauninni í síðustu viku. Við settum niðurstöðurnar svo inn í graf ásamt blóðsykursmagninu sem hafði verið mælt á tilraunadaginn. Það er skemmst frá því að segja að niðurstöðurnar okkar voru svo góðar, sérstaklega mælingarnar frá mér (hjólagarpnum) að gaurinn sem var að hjálpa okkur við mælingarnar spurði hvort hann mætti nota þær í vísindagrein sem hann er að skrifa og hann skrifaði meira að segja nafnið mitt niður. Málið er nefnilega að hann hefur verið með í að þróa þessa mæliaðferð á fitusýrum í blóði hér í skólanum og svo vill hann nota góðar niðurstöður til að kynna mæliaðferðina. Ég er auðvitað voða stolt af því að vera með í þessu og að vera með svona góðar niðurstöður.

maj 01, 2004
 
Læti...

Ég vaknaði um tíuleytið í morgun við einhvern rosalegan hávaða og gerði mér fljótlega grein fyrir því að þetta voru fyrstu þrumur ársins. Stuttu síðar kom síðan úrhellisrigning og nokkrar eldingar létu líka á sér bera. Þetta var samt ekki lengi að ganga yfir og núna er komið þetta fína veður. Já, svei mér þá, það er bara komið sumar!

Ég var ekkert smá dugleg áðan og eldaði mér almennilegan mat, en slíkt heyrir til undantekninga hjá mér. Ég gerði mér lítið fyrir og bjó til alvöru austurrísk semmelknödel og steikti kjúklingabringur og gerði meira að segja salat. Ummm, það var ágætt að fá einu sinni eitthvað annað en bara brauð með áleggi eða pítu.

Jæja, það er víst ekki fleira í fréttum að sinni, góða helgi