Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

juli 23, 2004
 
Á Íslandi
 
Þá er maður nú loksins kominn heim í Reykjavíkina og ekki annað hægt að segja en að manni líði voða vel. Þó að það sé gott að búa í Odense og mitt heimili sé þar þá er nú alltaf gott að "heim".  Það er reyndar misjafnt hvað maður telur "heima" og í mínu tilviki fer það alveg eftir því við hvern ég er að tala. Þegar ég tala við Íslendinga telst "heima" alltaf vera Ísland, t.d. þegar spurt er hvort maður ætli heim um jólin, osfrv. Þegar ég tala við Dani sem ég þekki í Odense, þá telst "heima" vera Odense, s.s. þegar maður er á leið til Íslands og er spurður hvernær maður komi heim aftur. En þegar ég hins vegar er að tala  við Dani sem ég þekki í Esbjerg, þar sem ég bjó í eitt ár áður en ég byrjaði í námi í Odense, þá telst heima vera Esbjerg og ég er spurð hvenær ég komi heim næst.  Já, maður verður að vita við hvern maður er að tala hverju sinni til að átta sig á því hvaða stað maður á að kalla "heima"
Annars þá bjó ég í sama húsinu í Hveragerði í 17 ár og ég og annar bróðir minn þekktum ekkert annað "heima" en þetta hús. Eftir að við fluttum í bæinn fyrir nokkrum árum þá sagði bróðir minn stundum, þegar hann talaði um liðna atburði; "...þegar við áttum heima heima!", og átti þá við húsið okkar í Hveró.

juli 18, 2004
 
Flutningar
 
Nú er maður fluttur í nýju íbúðina og búinn að koma sér fyrir. Við mamma erum búnar að vera á fullu við að pakka niður flytja, þrífa, taka upp úr kössum, kaupa það sem vantaði og setja saman, setja ljós í loftin og margt fleira síðan hún kom fyrir tæpri viku. Þar að auki erum við búnar að mála og þrífa gömlu íbúðina, sem vonandi er orðin nógu fín til þess að ég fái tryggingargjaldið mitt endurgreitt.
Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur mæðgunum og varla nokkur tími til að slappa af, en við náðum líka að klára allt áður en við förum til Íslands á morgun.
 
Nýja íbúðin mín er yndisleg !!!
 
Elli bróðir var að koma með myndirnar sem við tókum í Egyptalandi og ég gæti setið í marga daga við að skoða þær, þó að ég hafi nú verið viðstödd þegar þær voru teknar. Það eru margar brjálað flottar myndir og nokkrar þeirra eru þegar komnar upp á vegg í nýju íbúðinni minni. Þið megið alveg búast við að fá nokkrar myndir með mailunum frá mér á næstunni.

juli 11, 2004
 
Mútta að koma á morgun!

Sú gamla ætlar að leggja land undir fót á morgun og koma að heimsækja mig í Mörkina. Ég fer að sækja hana á flugvöllinn í Kastrup, því ég er hrædd um að hún annars gæti endað einhvers staðar á norðanverðu Sjálandi eða jafnvel í Svíþjóð.
Það verður nóg að gera hjá okkur mæðgunum næstu dagana því ég flyt í nýju íbúðina á fimmtudaginn og það á eftir að pakka megninu af búslóðinni.

juli 10, 2004
 
Ferðasaga

Egyptalandsferðin var að öllu leyti frábær og ég gæti skrifað lengi án þess þó að ná að segja frá öllu. Ég ætla samt að reyna að segja frá því helsta án þess að missa mig alveg í skrifunum.



Þegar stigið var út úr vélinni í Luxor tók á móti manni kæfandi hiti og egypskir verðir með riffil í annarri hendinni. Áður en lagt var af stað yfir eyðimörkina til Marsa Alam höfðum við nokkra tíma í Luxor, sem við notuðum til að rölta um og fá okkur að borða. Allan tímann meðan við gengum um var flautað og kallað og okkur boðið alls kyns “special price for you”.
Klukkan sex keyrði túristalestin af stað frá Luxor í fylgs hersins. Þarna var hellingur af bæði stórum og litlum rútum og litlum sendibílum, eins og þeim sem við vorum í. Aðalskemmtunin hjá egypsku bílstjórunum var að taka fram úr og gerðu þeir það óspart, þó að tilgangurinn með því hafi verið ansi lítill því við vorum í bílalest sem var leidd af hernum og það var ekkert hægt að komast hraðar. Risastórar rútur voru að taka framúr álíka stórum rútum, sem svo tóku framúr aftur og þannig gekk þetta alla leiðina, jafnvel í blindbeygjum.

Köfunin í Marsa Shagra, þar sem við bjuggum var alveg stórkostleg. Það var alltaf eitthvað nýtt að sjá og kórallinn og fiskarnir ólýsanlega flottir. Það sem mér fannst flottast voru samt skjaldbökurnar og hákarlarnir. Það bjuggu tveir litlir hákarlar og einn stærri, líklega mamman, undir kóral á suðurrifinu við kafarabúðirnar í Marsa Shagra, þar sem við bjuggum. Við heimsóttum þá nokkrum sinnum og yfirleitt kom sá stærri undan kóralnum og synti um fyrir framan okkur, líklega til þess að leiða athygli okkar frá heimilinu þeirra og til þess að reyna að draga okkur burtu.

Við fórum líka á nokkur Truck Dive, sem er þannig að maður fer með litlum hóp og egypskum diveguide á annan stað í nágrenninu. Maður setur kassann sinn með kafaragræjunum aftan á vörubílspall og sest svo sjálfur aftan á pallinn. Það er fínt að sitja aftan á trukknum því maður kælist niður þegar hann er á ferð, en samtímis skín sólin beint niður á mann, þannig að það er betra að vera með góða sólarvörn. Í eitt skiptið fórum við á stað sem heitir Sharm Abu Dabuhr, þar sem við köfuðum í gegnum göng, sem mér finnst alltaf mjög gaman.

Það var flogið heim frá Luxor og því fórum við aftur yfir eyðimörkina með túristalest í fylgd hersins. Í Luxor gistum við eina nótt á hóteli og vöknuðum snemma næsta morgun til að kíkja á Luxor templið, sem var mjög flott. Frá Luxor var flogið til Sharm el Sheikh, þar sem fleiri farþegar komu inn í vélina, en þaðan var svo flogið til Kaupmannahafnar.
Það var frekar kuldalegt að koma til Køben, ekki nema 16-18 stiga hiti og riginingaskúrir. Maður var kannski orðinn of góðu vanur í Egyptalandi.