Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

august 23, 2004
 
Hann hefur ekki ferðast mikið þessi...

HENRY BIRGIR GUNNARSSON BLOGGAR FRA AÞENU:
(Úr fréttablaðinu 23/8 2004)

Skítalykt af málinu
Þad er óhætt ad segja ad margt hérna í Aþenu vekji athygli mina. Eitt af þvi fyrsta sem mér fannst skritid ad sja var skilti fyrir ofan klosettid a herberginu minu sem á stód: Ekki henda pappirnum i klosettid, eda dolluna eins og ég kýs ad kalla þad. Ofan a dollunni voru sidan tvær aukarúllur og þvi var ég pottþéttur á ad verid væri ad banna ad henda rúllunum ofan i. Gott og vel! Nokkrum dögum sidar er ég staddur á salerni eins keppnisstadarins og fyrir ofan dollurnar þar stód med stórum, skýrum stöfum: Undir engum kringumstædum má setja pappir i klosettid. Þarna var mér verulega brugdid og þvi spurdist ég fyrir um málid. Svörin slökktu gjörsamlega á mér. Þad er grinlaust verid ad ætlast til þess ad fólk setji pappirinn sem þad notar til ad skeina sér med i litla ruslatunnu (sem til er á flestum islenskum heimilum og er oftast notad undir eyrnapinna og annad álika) vid hlidina a dollunni. Þad á ekki bara vid þarna heldur allsstadar i Aþenu. Þvilikur vidbjódur! Eins og búast mátti vid fara fáir eftir þessum mjög svo furdulegu tilmælum og ræsin virtust hafa sprungid um daginn þegar þessi lika yndislega?grasisbræla sveif yfir allri borginni. Sem betur fór stód þad stutt yfir. Einhvern veginn sé ég ekki Jacques Rogge, forseta altþjóda Ólympiunefndarinnar, fara eftir þessum tilmælum og þvi kemur ekki til greina ad ég geri þad lika. Þeir geta leyst sin skitamal á annan hátt.

Ég verð nú bara að segja að sumir eru of góðu vanir !!!
Ég er búin að vera tvisvar í Egyptalandi, þar sem reglurnar eru þær sömu, þ.e. klósettpappír má ekki fara í klósettið, heldur á að fara í ruslafötuna við hliðina á og það gildir einu þótt maður sé með í maganum! Í fyrstu fannst mér þetta voða skrítið, en þetta venst ótrúlega fljótt og maður er fljótur að ná góðri tækni í að rúlla pappírnum saman þannig að notaða hliðin blasi ekki við næsta manni.
Maður verður svo bara að muna að hætta þessu þegar maður kemur heim aftur, því annars gæti maður átt á hættu að verða óvinsæll í heimsóknum!!!

august 20, 2004
 
Lab-kúrsinum lokið!

Síðustu þrjár vikurnar, eða alveg síðan ég kom heim frá Íslandi, hef ég verið í kúrs í skólanum, sem heitir; Advanced Experimental Molecular Biology. Þetta hefur verið alveg frábær kúrs og ég er búin að læra heilmikið, sem mun nýtast mér vel þegar ég byrja á B.S. verkefninu mínu í febrúar. Núna í kvöld er partý fyrir þáttakendur og svo er bara skýrslan eftir. Reyndar er varla hægt að segja "bara" skýrslan eftir, því hún verður líklega a.m.k. um 40 tölvuskrifaðar síður. Við, Karen, samstarfsmaður minn, erum reyndar byrjaðar og nú þegar komnar upp í 18 síður, þannig að þetta verður lítið mál fyrir okkur.
Það er búið að vera nóg að gera á meðan á kúrsinum stóð því dagarnir í labbinu hafa verið mjög langir. Við byrjuðum alltaf klukkan átta á morgnana og fórum ekki heim fyrr en við vorum búin með tilraunir dagsins, en það var stundum ekki fyrr en klukkan níu á kvöldin. Reyndar var mjög misjafnt hvenær fólk fór heim, því maður réði sér mikið sjálfur og skipulagði sjálfur hvað maður vildi athuga og hvernig maður gerði það. Í fyrstu lærðum við ýmsar rannsóknaaðferðir, sem við svo nýttum okkur við þær tilraunir sem við skipulögðum sjálf.
Fyrir utan vinnuna í labbinu þurfti hver hópur að halda fyrirlestur á morgnana áður en við fórum í labbið. Fyrirlestrarnir voru unnir uppúr vísindagreinum um þetta efni sem tilraunirnar okkar snerust um, þ.e. adipocyt differentiation.

En, jæja nóg um það...
...best að drífa sig í partýið

august 16, 2004
 
Nöfn

Samkvæmt þjóðskránni var nafnið mitt, Gunnhildur, númer 96 á listanum yfir algengustu 1. nöfn kvenna þann 31. des 2002. Alls bera 397 konur þetta nafn sem fyrsta nafn eða 0,3 %
Algengasta 1. nafnið er hins vegar Guðrún, en það er líka algengasta einnefni kvenna.

Ásta er númer 28 á listanum yfir algengustu 2. nöfn kvenna, en 450 konur hétu þessu nafni sem seinna nafni í lok árs 2002, eða 0,6%.

Aðeins tvær konur bera tvínefnið Gunnhildur Ásta. Ég er önnur þeirra, en gaman er að geta þess að ég þekki hina sem ber þetta nafn. Hún er ekki nema tveimur árum eldri en ég og fór sem skiptinemi til Ítalíu árið 96-97, eða sama ár og ég fór til Austurríkis.

august 09, 2004
 
Reykjavíkurlíf

Úr dagbók lögreglunnar:

Á laugardagsmorgun hjólaði kona á biðskýli SVR á Stórhöfða/Viðarhöfða og þurfti að flytja hana á slysadeild til aðhlynningar.

Nokkru síðar var tilkynnt um mann í sjónum við Miðbakka. Hann var kominn upp úr sjónum er lögreglu bar að, en hann mun hafa stokkið í sjóinn eftir deilur við kærustuna sína.

Um kl. þrjúleytið var maður bitinn á skemmtistað í miðbænum. Gerandinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Nokkru síðar var ráðist á mann í Austurstræti og hann rotaður. Flytja þurfti manninn á slysadeild. Ekki náðist í árásarmanninn.

Þá fékk stúlka flösku í höfuðið á mótum Ingólfstrætis og Hverfisgötu og var hún flutt á slysadeild.

Seinni hluta nætur var óskað aðstoðar vegna óláta í Austurstræti. Flytja þurfti stúlku á slysadeild en önnur stúlka mun hafa brotið glas á andliti hennar.

Þjóðarstoltið

Maður kemst nú ekki hjá því að verða pínu stoltur af heimaslóðunum!

Þekktasti málari Fjóns málar undir áhrifum frá íslensku landslagi
Danski listamaðurinn Frank Hammershøj, kunnasti og vinsælasti málari á Fjóni, sýnir nú 35 ný verk í gömlu myllunni í Køng. Langflest verkin eru máluð undir áhrifum frá íslensku landslagi. Hammershøj segir í viðtali við Fyens Stiftstidende að hann hafi nýlega verið í 9 daga sumarleyfi á Íslandi og hann hafi tekið til starfa um leið og hann kom heim.

august 04, 2004
 
Aftur í Mörkinni !

Það var yndislegt að vera heima hjá múttu í Reykjavík og nóg að gera þrátt fyrir að aðal áherslan hafi verið á að slappa af. Við mútta skelltum okkur austur í Hveragerði til að skoða gamalkunnar slóðir og svo fórum við vestur til Ólafsvíkur og upp í Grafarvog í skyldmennaheimsóknir. Ég fékk íbúð bróður míns lánaða til að halda partý fyrir x-6.S gengið í MR "00-"01 og var þetta fínasta partý en það var svo farið á djammið á eftir.
Þar fyrir utan kúraði ég hjá kisunni minni og naut þess að fá mömmumat og láta dekra við mig.

Það var erfitt að þurfa að fara eftir svo stutt stopp en lítið við því að gera. Ég lagði af stað um hádegisbilið á sunnudaginn og var komin heim í nýju fínu íbúðina mína í Odense um ellefuleytið um kvöldið. Nágranni minn sat þá fyrir utan og var að drekka bjór í góða veðrinu og bauð mér að vera með, sem ég þáði enda kærkomið að fá sér bjórglas eftir svo langt ferðalag. Kl. 8.15 næsta morgun var ég svo komin út í skóla til að hefja þriggja vikna verklegan kúrs. Kúrsinn er mjög áhugaverður og fjallar um Adipocyt differentiering, en gengur samt mest út á að læra hinar ýmsu aðferðir og skipuleggja tilraunir. Fyrsta daginn vorum við ekki búin fyrr en kl. 19, annan daginn kl. 16 og í dag ekki fyrr en kl. 20, svo það hefur ekki verið mikill tími til að njóta góða veðursins.
Ég er að vinna með stelpu sem er alveg komin á steypirinn og á að eiga þann 9. sept. Við erum að vona að barnið sé ekkert að flýta sér svo hún nái að klára kúrsinn og við getum skrifað skýrsluna áður en það fæðist. Annars þarf ég bara að vera tilbúin að taka á móti !

Fall er fararheill !

Ég var búin að fá tvær einkunnir áður en ég fór til Íslands, en þær voru báðar 11, sem er svipað og 9,2-9,8 á íslenska skalanum, og voru hæsta einkunnin í báðum tilvikum. Þegar ég kom í skólann á mánudaginn fór ég og kíkti á síðustu einkunnina og gladdist mjög við að sjá að hún var 13, sem er bara gefið fyrir 100% árangur og var ég sú eina sem fékk þessa einkunn. Ég var mjög sátt enda var prófið í Molecular Biology og með ritgerðarspurningum, sem oft er erfitt að fá fullt fyrir.
Það er gaman að minnast þess að þetta var einmitt prófið sem ég fór í illa þjökuð af frjókornaofnæmi og ég braut gleraugun mín korteri fyrir próf. Ég var því á hlaupum við að finna límband og líma gleraugun rétt fyrir prófið og var ekki búin að því fyrr en það í rauninni byrjaði og þurfti svo að sitja með illa límd og skökk gleraugu allt prófið, en þau duttu einmitt í sundur um leið og prófinu lauk.

Jæja, best að fara að hætta að skrifa og lesa frekar vísindagreinarnar sem verður talað um á morgun áður en við höldum áfram inni í labbi.