Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

oktober 22, 2004
 
Lundbeck

Í gær fór ég med CFO (Cellebiologisk Forening Odense) yfir á Djöflaeyjuna að heimsækja Lundbeck, en það er fyrirtæki sem þróar og framleiðir ný lyf, einkum þunglyndislyf. Það var gaman að skoða þarna og heilmargt að sjá, en þetta gæti nú jafnvel orðið framtíðarvinnustaður minn, þ.e. eftir að ég er búin að klára Ph.D'inn og gera nokkur post doc verkefni í útlöndum ;-)
Það sem vakti mig mest til umhugsunar voru rottur sem við fengum að skoða, en þær voru allar með slöngur upp úr höfðinu, því búið var að bora rör inn í heilann á þeim, í þeim tilgangi að geta með microdialysis aðferð rannsakað áhrif þunglyndislyfja á serotonin og cAMP styrk í heilanum. Það var frekar óhugnalegt að sjá rotturnar svona, en ég skil samt alveg að þetta sé nauðsynlegt og ég trúi því að rottunum líði ekkert illa. Lundbeck er með starfandi dýralækna til að hugsa um dýrin og ég er nokkuð viss um að þessum dýrum líður ekki verr en mörgum eldisdýrum og þá ekki verr en dýrum sem verið er að flytja um í flutningabílum, oft á milli landa.
Ég reikna fastlega með að ég eigi einhvern tímann eftir að vinna með dýr og reyndar á ég meira segja að fara að gera það núna fljótlega þegar ég fer í verklega ónæmisfræði. Ég held að það sé ákveðinn þröskuldur sem maður þarf að yfirstíga þegar maður er að vinna með tilraunardýr og ég hef heyrt frá fólki sem er að vinna með dýr að það sé erfitt að aflífa þau en maður herðist því oftar sem maður gerir það.

Skýrslur

Það er allt brjálað að gera og hver skýrslan tekur við af annarri þessar vikurnar, reyndar er ég að vinna í tveimur núna, annarri frekar viðamikilli, sem er lokaverkefnið í lab-kúrsinum sem ég tók aukalega á þessari önn. En þar sem ég er búin að standast alla kúrsa sem ég hef tekið og er komin með allar þær valeiningar sem ég þarf (og aðeins meira til reyndar) þá ætla ég að flytja einingarnar fyrir þennan kúrs yfir á masterinn, þannig að tæknilega séð er ég byrjuð í masternum. :-) Ég var að skoða stundatöfluna mína og komst að því að ég er í 30-40 tímum á viku alveg fram í desember, en venjan er um 20-25 tímar á viku hjá flestum háskólanemum. Fyrir utan þessa 30-40 tíma er svo skýrsluskrif, lestur, verkefnagerð og æfingar í ræktinni. Spurning um að sólarhringurinn sé of stuttur! Það er a.m.k. ekki skrýtið að mér finnist vikurnar líða hjá hver af annarri á ógnarhraða.

Aðrar fréttir eru þær að ég fór á fund með rannsóknahópnum sem ég mun vera hjá þegar ég geri B.Sc. verkefnið mitt í vor. Ég var kynnt fyrir hópnum og skoðaði svo labbið sem ég mun vinna í en það er alveg nýtt og enginn kominn inn ennþá. Hópurinn minn, sem vinnur með stofnfrumur, fær heila hæð með geggjað flottri aðstöðu, mun flottari en í rannsóknastofunum í Háskólanum. Þessi nýja aðstaða er í glænýju húsi, sem mun verða Medicinsk Bioteknologisk Center í Odense, þar sem nokkrir rannsóknahópar munu vinna að ólíkum verkefnum. Ég er rosa stolt yfir að geta verið hluti af þessu, sérstaklega af því að ég var ekki beint að sækjast eftir því heldur óskaði yfirmaðurinn, sem m.a. er yfirlæknir á sjúkrahúsinu, eftir því að ég kæmi, aðallega af því hann hefur áhuga á að ég geri M.Sc. verkefnið hjá honum (og helst Ph.D líka!). Ég var búin að tala við prófessor í skólanum og komin með pláss hjá honum fyrir B.Sc.´inn, sem ég var mjög ánægð með, en ég varð að afþakka það því ég fékk betra tilboð.

oktober 17, 2004
 
Íslenska hetjan var aftur mætt á skjáinn í kvöld!

Já, hann Grímsi stóð sig vel að vanda og varð ekki einu sinni hræddur þegar vondi kallinn miðaði á hann byssu. Hann átti nú samt voða erfitt þegar hann var á leiðinni út á Kastrup til að fara með flugi til Íslands í jarðarför mömmu sinnar. Honum leið meira að segja svo illa að hann hreinlega fékk hjartsláttartruflanir og varð að fara á sjúkrahús. Einhverjir draugar úr fortíðinni voru víst að kvelja hann. Ekkert varð svo af ferðinni til Íslands þar sem það var komið óveður og allri flugumferð yfir landinu frestað.

Mér finnst Íslendingum ekki gerð góð skil í þættinum, þó að aðalhetjan sé hálfíslensk. A.m.k. voru þeir ekki frýnilegir kallarnir sem stóðu á götuhorninu við húsgarminn sem var að hrynja í sundur, í einni af minnigarbrotunum sem átti að vera frá æsku Hallgríms á Íslandi. En landslagsmyndirnar í upphafi og í lok þáttarins eru flottar.

oktober 14, 2004
 
Nýja íbúðin mín á Pjentedam er frábær, af því að...

...þar er eldhús, sem hægt er að loka, þannig að maður er laus við matarlykt í rúmfötunum sínum
...þar hefur maður sitt eigið baðherbergi, þannig að maður er laus við að þurfa að bíða meðan nágranninn er í sturtu (eins og ég þurfti oft á gamla staðnum)
...þar er svefnherbergið þokkalega stórt, þannig að það er nóg pláss fyrir allt dótið mitt, án þess að hlutunum sé staflað hverjum ofan á annan
...þar eru allar íbúðir með sérinngang, þannig að maður þarf ekki nema að opna dyrnar og er þá kominn út
...þar er hraðvirkt internet, sem kostar lítið sem ekki neitt
...þar er stutt í bæinn (mikilvægt atriði!)
...þar er örstutt á brautarstöðina
...þar eru góðir grannar

Ég gæti haldið áfram að telja upp en læt þetta duga í bili. Það besta við þetta allt er að þrátt fyrir að ég búi á kollegium og verðið sé í samræmi við það, þá eru íbúðirnar hérna ekki típískar kollegieíbúðir, því maður hefur allt útaf fyrir sig, nema náttúrulega þvottahúsið.

oktober 10, 2004
 
Ørnen

Þessi líka fína dramasería, Ørnen, var að hefja göngu sína á DR1 í kvöld. Fjalla þættirnir um hinn hálfíslenska/hálfdanska lögreglumann Hallgrím Hallgrímsson, sem auðvitað er algjör hetja og leysir erfið sakamál af mikilli snilld. Mikið er gert úr Hallgríms íslenska bakgrunni og þónokkuð sýnt af myndum frá Íslandi, sérstaklega frá Heimaey og augljóst að Hallgrímur á að eiga rætur að rekja til Eyja.
Það er gaman að því hvað mikið er sýnt af fallegum myndum frá Íslandi bæði í upphafi og lok þáttarins, góð landkynning þar!
Hallgrímur talaði í fyrsta þættinum nokkrum sinnum við Jóhönnu, systur sína að ég held, og byrjuðu þau á dönsku í fyrsta símtalinu en skiptu svo yfir á íslensku og töluðu í eftirfarandi samtölum. Það var voða krúttulegt að heyra danska leikarann tala íslensku, en hann stóð sig bara ágætlega og var alveg skiljanlegur. Hann átti reyndar svolítið erfitt með að böggla út úr sér "Hvernig gengur". Allt í allt var hann samt mjög góður og íslenskan hans var a.m.k. ekki verri en danskan hjá íslensku leikurunum, þ.e. Elvu Ósk sem leikur Jóhönnu og svo flugfreyjunni hjá Icelandair (held reyndar að hún hafi verið að ýkja íslenska hreiminn, svo léleg var danskan hennar!)!

Mér fannst svolítið skondið þegar tvær persónur í þættinum voru að tala um Hallgrím, en önnur var lögreglustrjórinn, sem vildi ráða hann í vinnu og hin var lögfræðingur sem vann þar líka...

Stjórinn: "Jeg har tænkt mig at ansætte Hallgrím"
Hin: "Nå, ham der islændingen!
Stjórinn: Ja, han er nu bare halvislænding, hans mor er dansker!"

Tónninn var svolítið svona eins og það væri nú bara hálfslæmt, fyrst hann var bara hálfur Íslendingur!
Hvað er ég þá? Alslæm? He he!

oktober 05, 2004
 
Fífl !!!

Er ekki maðurinn að taka þetta of nærri sér? Sjá hér!

oktober 04, 2004
 
Årsfest!

Já, þá er minni þriðju Årsfest i SDU lokið og alveg heilt ár í næstu!!!

Ég var ekkert búin að byggja upp spennu og tilhlökkun fyrir þessa árshátíð, því það var einfaldlega enginn tími til þess. Ég var svo sem búin að spá aðeins í hvaða kjól ég ætlaði að fara en ætlaði samt bara að láta ráðast hvaða kjól mig langaði mest að vera í þennan daginn. Þegar ég kom heim á föstudaginn, eftir lokadag lab-kúrsins (BK55) og CFO-fund, leist mér best á að vera bara "Lady in Red" og fór því í gamla góða rauða kjólinn sem mútta gamla saumaði svo snilldarlega um árið.
Ég fór síðan ásamt Mikkel, sem býr hér á kolleginu, labbandi niður í bæ, þar sem við ætluðum að hitta restina af gamla góða genginu frá fyrsta árinu í SDU (sem sagt ég og eðlisfræði/stærðfræði strákarnir!). Þegar við komum að veitingahúsinu stóðu hinir strákarnir fyrir utan, með þau skilaboð að við þyrftum að fara tilbaka aftur því við gætum ekki borðað þarna. Málið var að veitingahúsið hafði yfirbókað og þar sem allir voru mættir og við höfðum verið síðust til að panta gátum við ekki komist að. Kasper, einn úr hópnum, hafði reddað málunum með því að panta á öðrum stað, sem hann sagði að væri í Overgade. Við löbbuðum því að Overgade, en fundum þá útúr því að veitingahúsið var ekki þar. Hmm, nú voru sumir orðnir svangir, svo Kasper hringdi í veitingastaðinn og komst þá að því að hann væri í Kongensgade, sem sagt ákkúrt í öfugri átt, svo við löbbuðum þangað og gátum loksins fengið að borða. Strákarnir kipptu sér ekkert upp við allt labbið en ég hefði getað lent í vandræðum ef ég hefði ekki verið svo sniðug að fara í þægilegum skóm og hafa flottu, óþægilegu skóna mína með mér í tösku.
Nú eftir allt labbið og mikið af Kínamat fórum við loksins á ballið. Þar skemmti ég mér frábærlega, þó ég varla fynndi á mér. Kannski það hafi bara verið ástæða þess að ég skemmti mér miklu betur núna en undangengin tvö ár! Annars held ég að það hafi spilað inn í að ég þekki miklu fleira fólk núna, bæði í mínu námi og öðru og líka á meðal þeirra sem eru að skrifa Masters og Ph.D verkefni í hinum ýmsu rannsóknahópum í skólanum. Þannig að alls staðar sem ég kom, var ég umkringd fólki sem ég þekki.

Það vantaði ekki athyglina frá hinu kyninu á þessari árshátíð! En mér er alveg sama, því ég vil bara einn mann og hann get ég ekki fengið (snökt!) Ekki enn allavegana ;-)