Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

december 17, 2004
 
Pakkavesen!

Það er nóg að gera við pakka núna, því ég er jú að koma heim á Klakann á morgun :) Það er reyndar ekki auðvelt að pakka þegar maður er búinn að kaupa svo mikið af jólapökkum að þeir fylla nánast ferðatöskuna, þannig að það er ekki mikið pláss fyrir föt. Ég veit alveg að mamma á þvottavél og getur líka lánað mér hitt og þetta, en það er samt ekkert gaman að vera í sömu fötunum öll jólin hvað þá að vera í fötum af mömmu! Ég er smám saman búin að flytja nánast allt sem ég á, a.m.k. það sem ég get notað, hingað til DK og er því ekki lengur með varalager hjá mömmu og pabba. Fyrst eftir að ég flutti átti ég alltaf eitthvað af sparifötum, skóm ofl. sem ég gat notað þegar ég var á Íslandi. En núna er ég búin að vera svo lengi í burtu að nánast allt er komið hingað á heimilið mitt í Odense.
Nú en ég er búin að finna aðra tösku, þannig að nú verð ég bara að sætta mig við að þurfa að burðast með tvær töskur og bakpoka (handfarangur!), en ég efast um að ég verði með yfirvigt því Elli bróðir er örugglega ekki með 20 kg og við vigtum bara saman. En það góða við þetta allt saman er að ég mun þá vera með nóg pláss fyrir þær jólagjafir sem ég fæ, af því að þær koma bara í staðinn fyrir þessar sem ég losna við.

Jæja, best að halda áfram að troða í töskurnar...

december 14, 2004
 
Ískuldi...

...Það var alveg fáránlega kalt þegar ég var að koma heim af æfingu áðan, einkum í ljósi þess að það var ekkert sérstaklega kalt samkvæmt hitamælinum (+2-3)! Málið er bara að það er svo rosalega mikill raki í loftinu núna og það gerir að manni verður ískalt alveg um leið og maður kemur út. OOOOooo ég þarf að hjóla í skólann kl. 8 í fyrramálið! Æ þetta eru nú síðustu tímarnir á önninni þannig að ég harka þetta af mér.

Íslenskt nafn?

Ég var að klára mikrobiologi lab um daginn og ég og Nína vinkona þurftum að láta prófessorinn merkja við að við værum búnar að skila af okkur. Þegar ég benti honum á hver ég væri þá sagði hann "Nú, ert þetta þú. Af hverju ertu eiginlega með íslenskt nafn? Þú ert ekki Ísl.." Áður en hann komst lengra sagði ég bara "Jú, jú ég er íslensk alveg í gegn." Hann varð nú frekar hissa karlgreyið og sagðist ekki hafa heyrt það, en þess ber nú að geta að ég er búin að tala mikið við hann síðustu vikurnar. Svo sagði hann "Ég hef áður verið með Íslendinga í kúrsum og ég skyldi aldrei eitt orð af því sem þeir voru að segja." He he!

december 11, 2004
 
Síðasta skýrslan og fyrsti jólasveinninn!

Ég er vöknuð snemma á þessum ágæta laugardagsmorgni því ég þarf að fara til Ninu vinkonu og skrifa eitt stykki skýrslu í mikrobiologi. Þetta er síðasta skýrsla annarinnar og þegar hún hefur verið skrifuð er því ekkert annað að gera en að læra fyrir prófin og vinna upp það sem ekki náðist að lesa ("vegna of margra tíma og skýrsla").

Svo er hann Stekkjastaur að koma í kvöld !!! Ég held ég setji skó í gluggann og athugi hvort kallinn rati til Odense. Er ansi hrædd um að hann nái því ekki greyið! Þegar ég var lítil áttum við litla bók sem heitir Jólin koma og er með kvæðum eftir Jóhannes úr Kötlum. Þar er m.a. kvæði um jólasveinana og í því kvæði eru tvö vers um hvern jólasvein fyrir sig. Ég kunni allt kvæðið utan að þegar ég var lítil og þuldi alltaf versið fyrir þann jólasvein sem átti að koma það kvöldið. Ég fékk nýja svona bók í fyrra af mömmu, en sú gamla er ennþá til heima og heldur mamma mikið upp á hana, enda búið að lita hana og gera fína og svo sést á henni hve mikið henni hefur verið flett.
Ég kann ennþá vísuna hans Stekkjastaurs utan að og svo man ég hluta úr hinum vísunum. En þar sem Stekkjastaur kemur í kvöld þá fáiði hans vísu;

Stekkjastaur kom fyrstur
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar
-það varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.


En nú að annarri lítilli jólasögu. Þegar jólin voru að koma og ég var um tveggja ára var mamma var alltaf að syngja fyrir mig jólavísur. Ég var því búin að læra margar vísur og oft að raula þær. Við vorum svo uppi í hesthúsi eitt kvöldið, því við áttum hesta á þessu tímabili. Í sama hesthúsi var annar maður, sem heitir Valdi, og hann var með son sinn með sér þetta kvöld, en sá hét Siggi. Ég var svo lítil að ég var bara sett upp í stallinn hjá heyinu og svo stóð ég þar. Valdi var svo eitthvað að reka á eftir Sigga og kallaði; "Fljótur Siggi!" Þá heyrði pabbi, sem stóð þarna rétt hjá, í litlu tveggja ára dóttur sinni; "Finndu snöggvast flibbahnappinn minn" Hann talar alltaf um þetta fyrir jólin, því honum fannst þetta svo sætt!

december 02, 2004
 
Eitt...
...skref nær jólafríinu! Ég og félagi minn vorum loksins að klára skýrsluna okkar í aukakúrsinum, sem ég tók á þessari önn. Úfff! Það var sko kominn tími á að klára, enda erum við búin að sitja marga tíma yfir þessu, síðan við byrjuðum í október. Við erum bæði rosa ánægð með útkomuna og þrátt fyrir að við á tímabili höfum verið þokkalega pirruð hvort á öðru, erum við núna bestu vinir.

Annað...
...sem mig langar að segja frá er að ég komst í algjört jólaskap í gærkvöldi. Ég setti upp jólaskraut í tilefni af því að það var komin fyrsti desember og svo þegar ég var að fara að sofa tók ég eftir því að það var byrjað að snjóa og allt orðið hvítt. Snjórinn var samt horfinn í morgun þegar ég fór í skólann.

Þriðja...
...atriðið sem mig langar að skrifa um í kvöld er heimasíða okkar 6.S bekkinga í MR 2000-2001. Ég fann link inn á síðuna í "Favorites" hjá mér og ætlaði að kíkja aðeins en endaði með að sitja heillengi og hlægja mig alveg máttlausa, enda er margt skemmtilegt að finna á þessari síðu. Ég fann meðal annars lýsingu á meðlimum bekkjarins, og þar stóð þetta:

Gunnhildur Ásta Traustadóttir 13.9.1980
Gunnhildur er gallharður KR-ingur
og Hvergerðingur með meiru.
Austurríki stendur hjarta hennar
næst enda ættuð þaðan.
Áhugamál eru KR, líkamsrækt og Kreatín.


Það er margt fleira skemmtilegt á heimasíðunni, svo sem slúðurhornið, Vaðnes 2000, ferðin í Hellinn og Syðra-Langholt. Kíkiði á þetta !!!