Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

januar 30, 2005
 
"Strákarnir okkar"

Já, það var sárt að sjá strákana okkar á HM í handbolta detta út úr riðlakeppninni, en það var samt smá sárabót að Danirnir skyldu detta út líka. Ekki af því að ég sé eitthvað á móti danska liðinu, en það hefði bara verið óþolandi að þeir kæmust áfram og ekki við! Reyndar eru Danirnir alltaf svo góðir með sig í upphafi og eftir "walk over" sigur á Angóla og Kanada voru þeir farnir að tala um medalíur. Haha, það var smá skellur fyrir þá að detta út!
Það var reyndar gaman að sjá íslenska liðið koma einbeitt til leiks á móti Alsír og klára mótið vel, þrátt fyrir að þeir vissu að það væri alveg sama hvernig færi, þar sem Slóvenar þurftu að aulast til að tapa fyrir Tékklandi. Danirnir sem lýstu leiknum hérna á TV2 Zulu hrósuðu Íslendingunum mikið fyrir þetta. Það var reyndar alveg bráðfyndið í upphafi leiks þegar Alsír tóku leikhlé og farið var með myndavélina og hljóðnemann inní hópinn hjá íslenska bekknum. Danirnir sem lýstu leiknu hér skildu auðvitað ekkert sem fram fór en voru samt að tjá sig um að það væri auðsýnt að Íslendingarnir væru að gefa sig alla í þetta og það væri mikil einbeitning hjá þeim. Á meðan þá heyrði ég strákana og Viggó vera að segja; "Koma strákar, hafa bara gaman að þessu, ...oooog berjast!"

Síðasta prófið

Já, það er loksins komið að því! Síðasta prófið á morgun, úff, hvað janúar er búinn að vera langur. En, sem sagt síðasta prófið á morgun í ónæmisfræði, og svo byrjar skólinn aftur á miðvikudaginn og ég er svo sama dag að fara á fund með prófesssornum mínum í Winsløw Parken til að setja línurnar fyrir B.Sc. verkefnið mitt sem ég ætla að byrja á í lok febrúar. Eins gott að ég tók mér gott jólafrí, en var ekki með nefið ofan í bókunum frá 26. des eins og flestir Danirnir. Kannski af því að maður hefur lært að læra undir pressu, enda aldrei mikill tími á milli prófa í MR, öfugt við skólana hér. Danirnir fara líka alltaf að væla ef það eru tvö próf í sömu vikunni og kjósa helst að hafa allt að tvær vikur á milli prófa, sem mér finnst vera algjör tímasóun. Ég er meira fyrir að drífa þetta af á stuttum tíma, á meðan maður getur haldið einbeitingunni.

Jæja, best að fara að fá sér að borða og kíkja svo á ónæmisfræðina í síðasta sinn.

januar 23, 2005
 
Slæmt mál!

Af visir.is
Versti dagur ársins á morgun
Ef einhvern tímann er ástæða til að fara ekki á fætur heldur hanga í rúminu allan daginn, þá er það á morgun. Þá rennur upp versti dagur ársins samkvæmt nákvæmum útreikningum breskra vísindamanna.

Ef þig langar allra mest til þess í fyrramálið að þrusa vekjaraklukkunni í vegginn, draga sængina upp fyrir haus og halda áfram að sofa þá er það í sjálfu sér ekkert undarlegt. Á morgun rennur nefnilega upp versti dagur ársins. Vísindamenn við Cardiff-háskóla í Bretlandi hafa með hjálp flókinna útreikninga komist að þessari niðurstöðu. Þar eru teknir með allir þeir þættir sem gera okkur lífið leitt í mesta skammdeginu.

Fremst í flokki er veðrið. Líkurnar á leiðindaveðri og vondri færð eru yfirþyrmandi á morgun. Það gerir okkur strax ergilegri og eykur slysahættu í umferðinni. Þar sem við svo sitjum súr undir stýri bætast við áhyggjur af jólaeyðslunni og krítarkortareikningnum sem fer að detta inn um bréfalúguna. Gleðin sem fylgir því að gefa og þiggja á jólum er farin að minnka enda sléttur mánuður frá því við dönsuðum í kringum jólatréð. Og ekki bætir það skapið að hugsa um áramótaheitin. Það eru þrjár vikur síðan við ákváðum að taka upp heilbrigðari lífsstíl, hætta að reykja og stunda líkamsrækt. Það eru um það bil tvær vikur síðan þetta fór í vaskinn og við þurfum að horfast í augu við að við höfum ekki viljastyrk.

Ofan á allan þennan blús bætist svo við að það er fátt að hlakka til á þessum árstíma og til að bæta gráu ofan á kolsvart þá er jú mánudagur á morgun. Allt saman gerir þetta það að verkum að mánudagurinn 24. janúar er verri en hinir 364 dagar ársins samkvæmt flóknum útreikningum Cliffs Arnalls, prófessors við Cardiff-háskóla.

Hérmeð ætla ég að óska Steinu vinkonu innilega til hamingju með afmælið á morgun! Þetta verður örugglega alveg fínasti dagur! ;-)

januar 21, 2005
 
Ótrúlega líður tíminn hratt!

Það kemur stundum fyrir að maður minnist ákveðins atburðar og gerir sér þá grein fyrir hve ótrúlega hratt tíminn líður og lífið er í rauninni stutt. Í gær var einmitt svona dagur, sem fékk mig til að hugsa tilbaka, og ég gerði mér grein fyrir hvað ég er búin að upplifa margt á síðustu 10 árum. Í raun og veru ætti ég að vera þakklát fyrir hve heppin ég hef verið, því ef hlutirnir hefðu gengið aðeins öðruvísi fyrir sig fyrir 10 árum, þá hefði ég kannski ekki getað gert neitt af því sem ég hef gert og væri allt önnur manneskja í dag. ´

Í gær voru nákvæmlega 10 ár síðan ég gekk í gegnum mikla aðgerð á höfði og það er óhætt að segja að framtíð mín hafi að miklu leyti verið í höndum eins færasta heilaskurðlæknis Íslands. Hann gerði sína vinnu mjög vel og ég var ótrúlega fljót að jafna mig. Reyndar kom ég öllum á óvart með kraftinum í mér og var mætt í skólann og á sundæfingar mikið fyrr en reiknað hafði verið með. Að vísu mátti ég ekki fara á körfuboltaæfingar fyrr en svolítið seinna og fannst mér það alveg agalegt, en skildi samt ástæðuna. Þetta gerðist allt svo hratt að ég gerði mér ekki grein fyrir alvarleikanum fyrr en ég var orðin svolítið eldri. Ég hafði að vísu verið veik í um hálft ár áður en ég fór í aðgerðina, en ég hafði haft mikið fyrir að leyna einkennunum fyrir öðrum, enda hafði ég enga hugmynd um hvað var að gerast. Ég hélt mínu striki í skólanum og íþróttunum þótt að það yrði alltaf erfiðara og erfiðara að leyna einkennunum sem voru að hjrá mig. Að lokum var mamma farin að sjá að það var ekki allt í lagi og vildi fara með mig til læknis. Ég þvertók fyrir það af því að ég gat engan veginn lýst því sem var að trufla mig og bjóst alls ekki við að læknirinn gæti fundið neitt að mér. Þetta hlyti að vera einvher ímyndun í mér eða að minnsta kosti eitthvað sálrænt frekar en líkamlegt. Það fór samt svo að mömmu tókst að draga mig til læknis og hann gerði sér nokkurn veginn grein fyrir hvað væri að gerast og pantaði tíma fyrir mig hjá sérfræðingi, þannig að ég komst að viku síðar. Þessi vika sem ég þurfti að bíða eftir að komast til sérfræðingsins var mjög slæm enda einnkennin farin að gera vart við sig mjög títt. Ég hélt þó áfram að mæta í skólann og á æfingar og lét sem ekkert væri, þótt það væri mjög erfitt. Þegar ég komst til sérfræðingsins fóru hlutirnir að gerast og sama dag og daginn eftir gerðum við ekkert nema að fara á milli helstu læknastofnanna Reykjavíkur í alls kyns rannsóknir, þ.e. skannanir, ofl. Það átti að leggja mig inn daginn eftir að ég var hjá sérfræðingnum en ég fékk samt að fara heim yfir helgina og átti að mæta á Landspítalann á sunnudagskvöldinu 15.jan "95. Fórum við mamma með rútunni í bæinn það kvöldið af því að veðrið var svo brjálað en skemmst er frá því að segja að snjóflóðið féll eimitt á Súðavík þá um nóttina. Næstu daga fékk ég ekki mikið að vita
en læknarnir skoðuðu gögnin og ákváðu að senda mig í aðgerð á Borgarspítalanum þann 20. janúar 1995. Mamma og pabbi voru sett inn í ástandið en þau héldu andlitinu þannig að ég myndi ekki verða smeyk. Ég var hin kátasta, því ég vissi nú hvað var að og afhverju mér hafði liðið svona undarlega síðasta hálfa árið. Ég reiknaði ekki með öðru en að aðgerðin gengi greiðlega fyrir sig og ég stæði upp næsta dag og liði jafnvel og áður en ég veiktist.

Aðgerðin gekk mjög vel, þótt að mér hafi liðið hræðilega fyrstu dagana á eftir. Prófið að ímynda ykkur þá allraverstu ógleðistilfinningu sem þið hafið upplifað og margfaldið hana með a.m.k. 50! Sem áður segir var ég samt fljót að jafna mig og seinna kom svo í ljós að það myndaðist enginn örvefur, sem annars hefði getað viðhaldið einkennunum, þannig að ég hefði þurft að taka lyf það sem eftir er lífsins. Ég náði sem sagt fullum bata og var orðin jafnhraust og hver annar fjórtán ára unglingur.

januar 17, 2005
 
Skápur

Fyrir einstaka tilviljun eignaðist ég þessa fínu skápasamstæðu í gær. Reyndar er ég bara með hluta af henni inni hjá mér núna, þ.e. tréskáp með glerhurðum og hillum úr gleri, en restin af samstæðunni bíður í geymslunni þar til ég eignast stærri íbúð. Í gærdag hringdi Anne vinkona, sem býr á hæðinni fyrir ofan mig og bað um að fá lánaðar glósur hjá mér og ég sagði henni bara að koma til mín og fá glósurnar. Þegar hún kom sáum við að það var einhver búinn að stilla þessum líka flotta skáp upp hjá ruslagámunum, eins og það ætti að henda honum, en okkur fannst það algjör synd enda flottur skápur. Við spáðum síðan ekkert meira í það og Anne kom innfyrir til að kíkja á glósurnar. Þá var allt í einu bankað hjá mér, en það var þá strákurinn sem var að taka til í geymslunni niðri og var einmitt að vesenast með þennan skáp. Hann stóð fyrir utan hjá mér því hann hélt að annar strákur, sem líka býr hérna og er góður vinur minn, hefði verið að fara inn il mín, og hann ætlaði að biðja hann að hjálpa sér með eitthvað drasl. Strákurinn var ekkert hjá mér, svo hann ætlaði bara að fara aftur en þá datt mér í hug að spyrja hvað hann ætlaði að gera við þennan skáp sem stóð þarna niðri. Þá kom í ljós að strákurinn sem bjó í íbúðinni minni á undan mér átti hann og hafði skilið hann eftir af því að hann var víst búinn að gefa einhverjum vini sínum hann. Vinurinn kom síðan aldrei og sótti hann þannig að hann var bara búinn að standa í geymslunni síðan. Nú var sem sagt verið að taka til í geymslunni og ætlaði gaurinn því bara að henda skápnum. Hann sagði samt að ég mætti eiga hann ef ég vildi. Ég ákvað því að kíkja á hann.
Ég og Anne flýttum okkur niður og kíktum á skápinn, sem var í fínu standi, nánast eins og nýr, svo við drifum bara í að flytja hann upp í íbúina mína (þar sem hann reyndar hafði staðið áður en ég flutti inn). Restina af samstæðunni fluttum við í geymsluna (þaðan sem strákurinn var nýbúinn að bera alltsaman í burtu).

Ég er ekkert smá ánægð með nýja skápinn því mig vantaði einmitt svona skáp undir ýmislegt fínt glerdót, s.s. Rosendahl könnuna, glösin og skálarnar, sem ég hef verið að fá í afmælisgjöf síðustu árin. Það besta við þetta allt saman er að þessi skápur passar fullkomlega inn í stílinn sem er í íbúðinni hjá mér. Það er sami litur á trénu og á öllu tré sem er inni hjá mér, sömu rúnnuðu línur og í skrifborðinu mínu og svo eru handföngin í sama stíl og öll önnur handföng, meira að segja eru þau nákvæmlega eins og á kommóðu sem ég er með í eldhúsinu. Þetta var því alveg perfekt skápur fyrir mig og hann tekur sig einstaklega vel út í fínu íbúðinni minni hérna á Pjentedam :-)

januar 13, 2005
 
Eftir prófið...

...í dag splæsti ég øl á félaga minn, af því að þegar maður fær 13 í prófi þá gefur maður omgang! He he, já ég fékk 13 á prófinu í dag og það er sko bara gefið þegar maður hefur staðið sig sérstaklega vel og sýnt að maður hefur fullkomna stjórn á því sem verið er að prófa úr og jafnvel að maður kann meira en það. Það var gaman að þessu, sérstaklega af því að þetta var munnlegt próf og mér finnst þau yfirleitt vera verri en skriflegu prófin.

Jæja, en á morgun er komið að upplestri fyrir næsta próf! Og svo ætla ég auðvitað að skella mér í spinning hjá honum Morten sæta. Læt mig ekki vanta þar!

januar 10, 2005
 
Spegill, spegill...

Af mbl.is
Kona hringdi til lögreglunnar í Reykjavík í gærkvöldi til að tilkynna um varhugaverðan spegil á kvennasalerni á skemmtistað í miðborginni. Hafði konan komist að því að hægt væri að horfa í gegnum spegilinn, aftanfrá.

Að sögn lögreglu snýr bak speglisins inn að karlaklósetti og sagði konan að þar væri vörður sem varnaði því að aðrir en karlar gætu komist inn á klósettið og séð hvers kyns var. Karlarnir gætu fylgst með því sem væri að gerast á kvennaklósettinu. Óskaði konan eftir því að lögregla rannsakaði málið.

Það væri gaman að vita hvar þetta er!

januar 09, 2005
 
Það er nú meiri...

...dugnaðurinn í stelpunni sem býr fyrir ofan mig! Ég held svei mér þá bara að hún sé komin með hlaupabretti inn til sín. Það heyrast alltaf einhverjir undarlegir, taktfastir dynkir í loftinu hjá mér á hverjum morgni, sem betur fer þó ekki fyrr en svona um ellefuleytið (þegar ég er nývöknuð!). Hún er örugglega komin með hlaupabretti stelpan, því það er of mikill hraði og of mikill skarkali til að þetta geti verið eitthvað dónalegt. Sem betur fer er þó ekki mikið úthald í henni og hún er yfirleitt hætt eftir svona 5-10 mín.

Rok

Það var nú meira rokið hérna í gær, en þó ekki meira en kemur bara reglulega í Reykjavík. Vandamálið hér eru bara öll þessi tré, sem mega ekki við neinu og leggjast á hliðina í gríð og erg. Eitt stórt og mikið tré í garðinum hjá mér lagðist einmitt á hliðina í gær. Ég tók nú ekkert eftir því fyrr en ég var að fara út með ruslið í dag og þegar ég labbaði niður neðsta stigann stungust greinar í mig. Ég fattaði þá að það voru greinar um allt, en tréið náði einmitt að stiganum og hafði nánast lokað innganginum í tvær íbúðir sem eru þarna niðri. Sem betur fer datt tréð þó ekki á sjálft húsið og það skemmdist því ekki neitt. Reyndar á þetta tré örugglega eftir að liggja hérna í nokkurn tíma, því Danirnir eru nú ekkert að stressa sig í vinnunni.

januar 05, 2005
 
Nú árið er liðið!...

...og kominn tími til að skrifa nokkrar línur, enda margt búið að gerast síðan síðast. Frá því að ég skrifaði síðast hef ég verið í yndislega 16 daga á Íslandi, þ.e.a.s yfir bæði jólin og áramótin. Fór í búðaráp í ösinni í Kringlunni fyrir jólin, fékk mér Skötu og fór á Laugaveginn á Þorláksmessu, var með allri fjölskyldunni á aðfangadagskvöld og fékk fullt af fínum jólagjöfum. Reyndar verður Elli bróðir að fá prik fyrir frumlegustu jólagjöfina, en hann gaf mér hraðamæli á hjólið, sem líka telur vegalengdina og meðalhraða :-). Á annan í jólum fór ég á djammið með stelpunum, milli jóla og nýárs slappaði ég af heima með mömmu, á gamlárskvöld sprengdi ég upp KR-flugelda og fór svo á á Hressó með stelpunum, þar sem ég hitti marga góða MR-inga, sem ég hef ekki séð lengi. Á öðrum degi hins nýja árs fór ég á útsölu í Zöru og daginn eftir var svo komið að heimför.

Heimförin var nú svolítið skrautleg og byrjaði þannig að ég gat ekki haft jólagjafirnar með mér og varð líka að sleppa svolítið af fötum, því ég hefði annars haft alltof mikla yfirvigt. Mamma og bróðir minn eru að koma í heimsókn til mín í febrúar, þannig að þau koma bara með þetta, en að er samt leiðinlegt að geta ekki haft jólagjafirnar með sér. Þegar ég vaknaði að morgni 3. jan var brjálað veður og ég heyrði í útvarpinu að menn væru að fjúka útaf á Reykjanesbrautinni, þannig að mér leist nú ekkert á að vera að láta gömlu hjónin vera að skutla mér til Keflavíkur. Pabbi var reyndar harður á því að þetta væri ekkert mál, því veðrið væri að lagast, en ég vildi bara ekki vita af þeim einum á Reykjanesbrautinni, þannig að ég ákvað bara að taka rútuna. Það var ennþá brjálað rok, þegar rútan fór suður, en veðrið hafði samt lagast og allt gekk vel. Það var svolítil seinkun á fluginu mínu til Kaupmannahafnar, þannig að ég sat bara á Kaffitári í Leifstöð og slappaði af. Svo leið tíminn og vélin fór í loftið og lenti nokkrum tímum síðar í Kastrup. Þar stóð ég svo og beið eftir töskunni minni. Þegar hún loksins kom var handfangið brotið af og ekki hægt að sjá að þetta var mín, því handfangið var alveg horfið og merkimiðinn með. Ég þekkti samt töskuna og opnaði hana til að sjá hvort þetta væri ekki örugglega mín taska. Jú, jú þetta var taskan mín, svo nú þurfti ég að fara og kvarta yfir skemmdinni. Ég fór að þjónustuborðinu þar sem var langur biðtími, sem var hundleiðinlegt af því að vinur minn héðan frá Odense var að bíða eftir mér fyrir utan, því hann var nýkominn frá Osló og við ætluðum að vera samferða til Odense. Ég komst svo að eftir langa bið og fékk þá bara nýja tösku, mun svipaða, aðeins betri ef eitthvað er, og þurfti þá að flytja allan minn farangu á milli, því þeir tóku gömlu töskuna.

Nú er ég svo komin heim í íbúðina mína í Odense, þar sem ég sit og læri allan daginn, enda fjögur próf framundan. Ég verð ekki búin í prófum fyrr en 31. jan, þannig að þið megið alveg vorkenna mér smá!