Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

februar 27, 2005
 
Helgin

Það var nú gott að fá loksins helgi, enda búið að vera mikið að gera í vikunni á undan. Ég er núna byrjuð á B.Sc. verkefninu mínu hjá KMEB og komin með mitt eigið skrifborð á 1. hæð í byggingu 25 í Winsløw Parken (ekki amalegt það!!!). Á föstudagskvöldið fór ég í keilu með fólkinu hjá KMEB og þær sem skipulögðu þetta voru búnar að segja að það væri gjöf fyrir þann sem tapaði, "very mean loosers gift!" sögðu þær. Ég og vinkona mín úr hópnum ætluðum sko ekki að fá þessa gjöf og gerðum okkur lítið fyrir og mössuðum þetta bara; hún varð önnur og ég þriðja yfir stigahæstu einstaklingana (í tveimur leikjum), en þar sem sá stigalægsti var með okkur í hóp urðum við bara í öðru sæti í hópakeppninni. Gjöfin, sem gaurinn úr hópnum okkar fékk var þrátt fyrir allt ekkert svo slæm; kaffibolli sem á stóð eitthvað fyndið (man ekki alveg hvað!), en þessa kaffikrús á hann að bera í öllum kaffitímum þar til hann hefur skorað á okkur í einhverju sem hann er góður í og það finnst nýr "looser". Eftir keiluna var svo að sjálfsögðu farið í bæinn.

Þó að ég hafi farið frekar snemma heim aðfararnótt laugardagsins svaf ég lengi á laugardaginn, eða alveg þar til ég fór í spinning kl. 13. Ég var því frekar úldin í byrjun spinningtímans en það lagaðist samt fljótt. Þegar ég kom heim úr spinning ákvað ég að kominn væri tími til að vera dugleg hérna heima, svo ég skellti í þvottavélina, þvoði upp og tók til hjá mér. Eftir þetta gerði ég góðan mat og svo var ég bara orðin svo þreytt að ég nennti engu nema lesa eina ef jólabókunum mínum, sem ég er nýbúin að fá, af því að ég gat ekki tekið þær út með mér eftir jólin (vegna of mikils farangurs). Ég lagðist því upp í rúm um sexleytið og byrjaði að lesa Dagbók Berlínarkonu og las það sem eftir var kvöldsins. Þessi bók er rosalega góð og mér tókst að lifa mig alveg inn í atburðarásina, þannig að ég las og las og er næstum búin að klára bókina. Mig dauðlangaði að lesa áfram en ég var bara orðin svo þreytt um elleftuleytið að ég varð að hætta og fara að sofa. Núna langar mig helst að leggjast upp í rúm og klára bókina, en samviskan segir mér að ég verði að læra pínulítið enda hef ég ekki gert mikið af því undanfarið. Þegar ég er búin að læra smá ætla ég svo að lesa síðustu kaflana í bókinni!

februar 23, 2005
 
Brjálað veður!?!

Það er allt að verða vitlaust í Mörkinni núna vegna "veðurofsans". Samgöngur eru í lamasessi, íþróttaleikjum frestað og fólk beðið um að halda sig innandyra. Það er unnið hörðum höndum við að salta allt heila landið því ef það er eitthvað sem Danir geta ekki, þá er það að keyra í hálku (eitthvað sem allir Íslendingar læra tiltölulega fljótt, því annars keyra þeir ekki lengi á veturna!). Ég var að heyra í útvarpinu að það væri nú þegar mikið vesen á vegum landsins því flutningabílar og aðrir bílar væru þversum á veginum og allt því lokað út um allt. Hmm, þessir Danir!

Mamma og Ómar fengu líka smá ævintýri í gær á leiðinni heim. Þau fóru héðan með lestinni á réttum tíma og áttu að vera komin til Kastrup tæplega einum og hálfum tíma fyrir brottför til Íslands. Þegar það voru um 50 mín í brottför sendi ég sms til brósa til að athuga hvort þau væru ekki örugglega komin inn í flugstöð, en þá svaraði hann og sagði að lestinni hefði seinkað og þau sætu í leigubíl á leiðinni til Kastrup (borgað af dsb). Þau voru samt komin fyrir áætlaða brottför og þar sem líka var seinkun á fluginu höfðu þau nógan tíma í flugstöðinni. Úff, ég var í algjöru stresskasti í skólanum eftir að ég fékk smsið um að þau væru í leigaranum því ég vissi auðvitað ekki hve nálægt Katrup þau voru og vissi ekki að svo heppilega vildi til að fluginu hafði seinkað. Þetta reddaðist samt allt saman, sem betur fer!

Ryg

Ég var í fyrirlestri um beinþynningu (osteoporose) í morgun og fannst svolítið fyndið að fyrirlesarinn hefur fjölskyldunafnið Ryg = bak. Talandi um að velja sér "karriere" eftir nafni. Að vísu var framburðurinn í nafniu hans öðruvísi en í orðinu ryg = bak, í staðinn var það eins og í ryge = reykja.

februar 22, 2005
 
Allir farnir

Þá eru gestirnir mínir farnir og aftur ró og næði í íbúðinni á Pjentedam. Það er búið að vera mikið fjör alla helgina, enda er alltaf fjör hjá okkur mömmu þegar við erum saman. Við fórum til Esbjerg á laugardaginn og borðuðum á grísku veitingahúsi í tilefni af afmæli mömmu. Við fengum okkur hlaðborð, sem var svo rosalega gott að við borðuðum öll á okkur gat og þurftum að liggja lengi á meltunni þegar við vorum komin heim til Ella aftur.

Núna eru mamma og Ómar í lestinni á leiðinni til Kastrup og fara svo með Icelandexpress heim á Klaka á eftir. Þegar þau koma til Reykjavíkur munu þau svo bruna beinustu leið upp í Kattholt að sækja kisulóruna og ætli þetta dekurdýr fái ekki soðna ýsu þegar þau koma heim, nú eða nokkrar rækjur. Það kæmi mér ekki á óvart!

Jæja, ég verð nú að fara að drífa mig í tíma...

...p.s. ég var að fá einkunn úr síðasta prófinu; 13 Híhí!

februar 16, 2005
 
Mamma mín...

...er að koma á morgun. Ómar bróðir kemur með henni og Elli ætlar að koma frá Esbjerg, þannig að öll fjölskyldan nema pabbi og kisa verða komin til mín á Pjentedam. Tilefnið er sextugsafmæli mömmu á laugardaginn, en okkur systkinunum datt í hug að besta afmælisgjöfin frá okkur til mömmu væri ferð fyrir hana til Danmerkur, því þá getur hún hitt okkur og jafnframt sloppið við að þurfa að taka á móti fullt af gestum. Við verðum eitthvað hérna í Odense, en förum svo til Esbjerg á laugardaginn og borðum þar á afmælinu hennar. Á þriðjudaginn fara þau svo heim aftur. Ég er svo heppin að Anne vinkona sem býr líka hérna á kollegíinu er í Noregi núna og þar sem ég er að passa íbúðina hennar leyfði hún mér að fá hana lánaða fyrir bræður mína og við mamma getum svo verið í minni íbúð, þannig að það er nóg pláss fyrir alla.

Aumingja kisa greyið þurfti að fara í kattholt á meðan mamma og Ómar eru hérna, því pabbi er staddur í Aberdeen núna og því enginn heima til að passa þetta grey. Þessi kisulóra er orðin 13 ára gömul og hefur aldrei áður verið að heiman og heldur aldrei verið án allra í fjölskyldunni yfir svo mikið sem eina nótt. Þar að auki er hún ofdekruð og frek og á örugglega ekki eftir að líka vistin í kattholti. Ég vona samt að henni líði ekki illa greyinu!

februar 13, 2005
 
Þorrablót

Ég ákvað klukkan hálfellefu í gærkvöldi að skella mér á þorrablót Íslendingafélagsins í Odense og sá ekki eftir því. Ég var búin að vera að velta því fyrir mér allan daginn hvort ég ætti að fara á ballið, en var svo bara hætt við og eiginlega bara á leiðinni í rúmið, þar sem ég var þreytt eftir að hafa verið að djamma á föstudagskvöldið. En þá sendi Sólveig mér sms og sagði að það væri stemming og ég fór að hugsa að það væri nú algjör aumingjaskapur að mæta ekki á svæðið þar sem þetta er nú bara árlegur viðburður og eins er Sólveig bara í stuttri heimsókn og því tilvalið tækifæri til að hitta hana. Ég dreif mig því í dressið í einum hvelli og náði síðasta bus til Højby. Þegar ég kom var mikill gangur í festen og fólk orðið misdrukkið, sumir meira, aðrir minna, og á meðan hélt Á móti Sól uppi stuðinu. Það var síðan dansað og drukkið fram eftir nóttu og heilsað upp á gamla og nýja Odense-Íslendinga. Sem sagt bara fínasta kvöld!

februar 08, 2005
 
Þögn !!!

Það er einhvern veginn ótrúleg þögn inni hjá mér núna, en ástæðan er að það var hérna kall að skifta um viftu í eldhúsinu mínu. Gamla viftan sem var þegar ég flutti inn fyrir hálfu ári var gölluð og lokaðist ekki, þannig að það var eins og alltaf væri kveikt á henni, sem sagt enginn munur á því hvort það væri kveikt eða slökkt. Ég spurði út í þetta þegar ég flutti inn og fékk þá að vita að svona væri þetta bara og ekkert við því að gera. Síðan þá er ég búin að komast að því að það eru ekki svona mikil læti í viftunni í öðrum íbúðum og mikill munur á því hvort viftan sé í gangi eða ekki. Ég hitti svo portnerinn um daginn og minntist þá á þetta við hann og hann sá strax að þetta væri ekkert í lagi og sendi til mín kall, sem var rétt í þessu að skifta um viftu. Það er skrítið að það skuli vera svona mikil þögn hérna inni núna, maður var einhvern veginn orðinn vanur hljóðinu í viftunni, svona eins og maður er hættur að heyra í löggu- og sjúkrabílunum sem eru alltaf að keyra hérna framhjá.

februar 06, 2005
 
Guinness

Það var kokteilpartý hjá Bryndísi í gærkvöldi og mikið drukkið af margarítum og öðrum góðum drykkjum. Það var líka mikið spjallað og eftir því sem leið á kvöldið urðu umræðuefnin svæsnari og hlátursköllin hærri. Það var mikið fjör og ekki lagt í bæinn fyrr en seint um nóttina. Lá leið okkar þá á Ryan's þar sem sest var við meiri drykkju. Smám saman fór fólk að drífa sig heim á leið og á endanum var ég orðin ein eftir með Ástu. Þrír íslenskir strákar við næsta borð, sem við þekkjum alveg og vorum búnar að spjalla við, buðu okkur þá að færa okkur yfir til þeirra. Þegar við Ásta vorum sestar hjá strákunum stóð fyrir framan mig botnfylli af Guinness, sem einn þeirra hafði verið að drekka. Ég spurði hvort ég mætti fá mér og hann sagði að ég mætti eiga hann. Eitthvað voru þeir hissa á að mér þætti Guinness góður og þóttust vissir um að það væru ekki margar stelpur sem fíluðu hann. Af einhverri ástæðu (ég man ekki alveg afhverju) byrjaði einn strákanna að mana mig upp í að drekka heilan Guinness eins hratt og ég gæti. Þeir höfðu víst einhvern tímann verið að keppast um þetta strákarnir og Einar, sem var að mana mig upp í þessa vitleysu átti metið (eitthvað í kringum 30 sek). Ég þoli ekki svona áskoranir af því að ég tek þeim alltaf, þ.e. ég get ekki látið vera ef einhver pressar mig nógu mikið. Ég var samt ekkert sérstaklega til í að sóa heilum Guinness í einn sopa, vildi frekar drekka hann í rólegheitum og njóta þess. Strákarnir hættu ekkert og Einar fór og keypti einn bjór fyrir mig og annan fyrir sig, því hann ætlaði að keppa við mig. Ég hélt áfram að neita því að láta hafa mig út í þessa vitleysu, en þeir hættu ekki og á endanum lét ég eftir. Það fór nú ekki verr en svo að ég svelgdi þessu í mig í einum hvelli og var búin úr glasinu þegar Einar var búinn með innan við 1/3. Ég kom eiginlega sjálfri mér mikið á óvart og veit eiginlega ekki hvernig ég fór að en bjórinn hvarf ofan í mig á örfáum sekúndum. Strákarnir þrír og Ásta voru orðlaus af undrun og horfðu á mig eins og þau væru að bíða eftir að bjórinn myndi byrja að renna út úr eyrunum á mér. Nei, þessu áttu strákarnir ekki von á og þeir báru mikla virðingu fyrir mér á eftir!!!

februar 05, 2005
 
Húsráð

Ég og restin af CFO stjórninni héldum teiti í gærkvöldi fyrir okkur og gömlu stjórnina í CFO herberginu í skólanum. Eins og góðu teiti sæmir var hvít- og rauðvín með matnum þó að sumir hafi nú samt fengið sér bjór. Ég varð svo fyrir því óhappi að fá rauðvín á nýju fínu Zöru peysuna mína. Stór, ljótur blettur á annarri erminni. Það vildi þá svo heppilega til að ein stelpan í hópnum þekkti eitt gott húsráð til að fá rauðvínsbletti úr fötum. Húsráðið gengur út á að skella flíkinni í glýceról og láta liggja í því í ca. 12 tíma. Þar sem við vorum í skólanum og ein úr stjórninni er PhD nemi þar, þá stökk hún bara yfir í labbið og náði í slatta af glýceróli í glasi. Við skelltum erminni ofan í þykka glýcerólleðjuna og pökkuðum peysunni svo ofan í poka sem ég tók með mér heim. Núna áðan var ég svo að athuga með peysuna og viti menn þetta virkaði. Reyndar þá varð bletturinn blár fyrst þegar ég setti peysuna í heitt vatn með þvottaefni, en síðan hvarf hann smám saman.

Spurning um að fjárfesta í smá glýceróli til að hafa við höndina ef það sullast rauðvín á fötin manns. Maður gæti líka verið það góður að hafa það í veskinnu sínu þegar maður fer í mat þar sem búast má við að rauðvín verði með matnum.

februar 02, 2005
 
Lífið er yndislegt!

Síðan ég kláraði síðasta prófið á mánudaginn hefur lífið verið eintómur leikur og það lítur út fyrir að komandi önn verði frábær, svo ekki sé meira sagt. Ég var að setja saman stundaskrána mína í gær og önnin mun vera þannig að ég verð í 10-15 tímum á viku og svo að vinna við B.Sc. verkefnið mitt. Sem sagt svolítið mikill munur frá 30-40 tímum á viku fyrir jól og endalausum skýrsluskrifum. Þið megið samt ekki halda að það verði ekkert að gera hjá mér, nei nei, þeir sem þekkja mig vita að ég verð alltaf að hafa nóg að gera og þess vegna á ég örugglega eftir að vinna heilmikið við B.Sc. verkefnið, en það verður samt bara gaman. Það besta við þetta allt saman er að ég mun nánast bara vera í tímum í Winsløw Parken en það er einmitt staðurinn þar sem margir af rannsóknahópunum eru og þar mun ég gera B.Sc. verkefnið mitt.

Ég var núna áðan að koma úr Winsløw Parken því ég var að hjálpa stofnfrumurannsóknahópnum, sem sagt hópnum mínum, að flytja á milli húsa. Við vorum nefnilega að flytja í glænýtt og rosa flott húsnæði sem mun vera Medicinsk Bioteknologisk Center Odense og hýsir marga af helstu rannsóknahópunum tengdum Háskólanum og Háskólasjúkrahúsinu. Ég spjallaði líka við prófessorinn, sem er yfirmaður hópsins og verkefnisins míns og hann var að segja mér hvað hann hefði í huga varðandi verkefnið mitt. Eins og mig reyndar grunaði mun ég vinna með annað hvort Ph.D nema eða Post.Doc og í stórum dráttum mun verkefnið felast í að rækta stofnfrumur og athuga tjáningu ákveðinna gena (real time PCR) og svo kannski eitthvað fleira, svo sem immunofluorescence staining, ef ég hef tíma. Ég hlakka mikið til að byrja á þessu en ætla samt ekki að byrja vinnuna í labbinu fyrr en seinni part þessa mánaðar, því hópurinn á eftir að koma sér almennilega fyrir á nýja staðnum og ég á eftir að setja mig inn í verkefnið mitt og lesa helling af vísindagreinum.

Jæja, ég held að þetta sér að verða aðeins of nördalegt blogg hjá mér ;-)

...kveðja frá Odense