Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

marts 29, 2005
 
Hversdagsleikinn tekinn við!

Það er nú meira hvað tíminn líður alltaf hratt þegar maður er í fríi! Nú eru páskarnir liðnir hjá og ekki meira frí fyrr en eftir próf (og það verður víst ekki mikið um frí þá hjá mér, því ég þarf að skrifa B.Sc. verkefnið mitt í sumar). Það er samt upplífgandi að það skuli vera komið vor, með hækkandi sól og hitastigi. Mér finnst alltaf gaman þegar byrjar að vora.

Núna sit ég í WP25 og bíð eftir að real-time-PCR'ið mitt sé búið. Ég hefði getað verið löngu búin og farin heim, en við erum bara með eitt real-time tæki og það var annar gaur sem náði því á undan mér, þannig að ég þurfti að bíða þar til hann var búinn. Það er samt búið að kaupa annað tæki og á bara eftir að setja það upp, þannig að maður ætti ekki að lenda í þessu aftur.

Jæja, best að fara að gera eitthvað af viti...

...hafið það gott!

marts 26, 2005
 
Harry og Heimir

Ég fagnaði því mjög að sjá gömlu góðu félagana Harry Rögnvalds og hans hundtrygga aðstoðarmann Heimi Schnitzel í Spaugstofunni í kvöld. Ég mundi allt í einu eftir því að ég gæti horft á þættina á netinu og horfði því á þátt kvöldsins. Mér finnst fyndið að þeir Harry og Heimir hafi einmitt birtst á skjánum í kvöld því ég er búin að vera að hlusta á gamla þætti undanfarna daga. Bróðir minn var nefnilega að senda mér alla gömlu þættina og ég skellti þeim inn á mp3 spilarann minn áður en ég fór til Esbjerg í fyrradag. Ég hlustaði svo á þá í lestinni og fólk hefur örugglega mikið verið að spá í hverju ég var að hlægja að því ég réð auðvitað ekki við mig á köflum.

Ég bíð spennt eftir næsta laugardagskvöldi og vona að þeir félagarnir fái áfram að koma fram í þættinum :)

Aftur komin...

...heim á Pjentedam! Bara tveir dagar eftir af páskafríinu og víst vissara að nýta þá vel til lærdóms (tja, við sjáum til hvernig það gengur!!!). Það var ágætt að koma til Esbjerg á ný og gaman að hitta allt liðið í mótorhjólaklúbbnum og fá að sitja aðeins aftan á hjólinu hjá brósa. Við fórum að vísu snemma heim úr partýinu á fimmtudagskvöldið og horfðum á nokkra þætti af Spaugstofunni áður en við fórum að sofa, en mamma var einmitt að senda nýjustu þættina með páskaeggjunum. Á föstudaginn langa horfðum við á restina af þáttunum og borðuðum páskaeggin með :) Þetta er ekki sökum lélegs sjálfsaga heldur er þetta orðið að hefð hjá okkur brósa því ég stoppa aldrei nema til laugardags í Esbjerg og þar sem það er meira gaman að borða páskaeggin saman, þá gerum við það á föstudeginum langa. Og svo horfum við alltaf á Spaugstofuna á meðan, en ég verð að segja að mér fannst þeir góðir núna og ég hló mikið að þeim, meira en oft áður (og hefur mér samt alltaf fundist þeir fyndnir!).

Við horfðum líka á myndina Open Water, sem fjallar um kafara sem gleymast úti á sjó og reka um á meðan hákarlar eru allt í kring um þau (og gæða sér líka á þeim!). Ojojoj, ekki vildi ég gleymast svona! En það hefur ekki verið nein hætta á þeim stöðum sem ég hef kafað, þar hefur öryggið verið alveg í toppi!

marts 25, 2005
 
Fischer kominn heim!

Ég hef sjaldan hlegið jafnmikið og á meðan ég horfði á aukafréttatíma Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi, þ.e.a.s. beinu útsendinguna frá komu Fischers "heim". Þetta var algjört grín frá upphafi til enda og fréttamennirnir fóru alveg á kostum. Mér fannst best þegar þeir fóru að tala um að ná góðu skoti á vélina og svo hringdu þeir í Pál fréttastjóra sem talaði um að hann fyndi það á sér að vélin væri að fara að detta niður! Ég mæli með að fólk kíki á þetta á veftíví á visir.is því hláturinn lengir lífið.

Þegar Fischer kom út úr vélinni vantaði bara þá gömlu góðu og sígildu; "Há dú jú læk Æsland?" (En hún hlýtur að koma einhvern tímann á næstu dögum)

marts 23, 2005
 
Læri, læri! ...tækifæri!

Það verður víst eitthvað lítið um frí þessa páskana og ég er varla farin að gera mér grein fyrir að það séu að koma páskar. Ég sleppti því reyndar að fara í WP í dag að vinna við B.Sc. verkefnið mitt og ákvað frekar að vera bara heima að læra fysiologi, enda allmikið á eftir áætlun í því fagi. Á morgun ætla ég svo að skreppa til brósa í Esbjerg og vera með í fjörinu hjá Virago MC Club Esbjerg, en á morgun verður haldið hið árlega påsketræf í Esbjerg og því samankomin fleiri hundruð mótorhjól í bænum. Um kvöldið verður svo djammað í klúbbhúsinu og er markmiðið hjá mér að verða ekki jafnfull og í fyrra, þannig að föstudagurinn langi verði ekki jafnlangur og hann var í fyrra! Annars þá eru páskaegg á leiðinni til okkar frá Íslandi, en hún mamma gat ekki stillt sig um að senda tvö stykki, þrátt fyrir að ég væri búin að segja henni að það væri óþarfi. Ég er hálffegin núna að hún hlustaði ekki á mig, því ég hlakka mikið til að gæða mér á egginu góða og svo er alltaf svo gaman að fá málshátt.

marts 21, 2005
 
Júróvísjón !!!

Hmm, skyldi Íslandi takast að vinna júró í ár!?! Lagið er alveg ágætt og maður skyldi aldrei segja aldrei. Þið getið skoðað myndbandið og dæmt sjálf.

marts 19, 2005
 
Fredagsbar

Það var mikið fjör í gær þegar ég ásamt öðrum í CFO stjórninni héldum fredagsbar í SDU í gær. Þema barsins voru páskarnir og því skreyttum við allt með páskaungum og rollum (sem tengist víst páskunum hér í DK). Við fengum gefins skærgula boli frá Albani (bjórframleiðandinn í Odense) og svo vorum við með kanínueyru. Við opnuðum barinn klukkan 14 og lokuðum ekki fyrr en klukkan 19, en náðum að selja helling af bjór og drekka allnokkra sjálf.

DV

Þegar ég kom heim eftir fredagsbarinní gær leit ég í póstkassann minn eins og venjulega og sá að þar lá eitthvað blað. Ég helt að þetta væri bara Ugeavisen, en við nánari athugun reyndist þetta vera DV. Ég gat ekki annað en skellt upp úr því það er ekki á hverjum degi sem DV leynist í póstkassanum mínum hérna í Odense. Ég sá síðan að þetta var tveggja vikna gamalt blað og þá fór mig að gruna að Margrét Lára, sem á líka heima hérna á kolleginu, hafi gefið mér blaðið. Hún var einmitt með vinkonur sínar frá Íslandi í heimsókn fyrir ca. tveimur vikum og það er ekki ólíklegt að þær hafi verið með blaðið og skilið eftir hjá Margréti. Þegar hún svo var að fara til Íslands í gær, hefur henni dottið í hug að gæti haft gaman af að lesa blaðið og því látið það í póstkassann minn. Ef þetta varst þú Margrét, þá segi ég bara takk fyrir mig! Þetta var skemmtilega óvænt!

marts 12, 2005
 
Smá geggjun !!!

Það hefur vægast sagt verið pínu geggjun í gangi undanfarna daga og maður hefur varla komið heim til sín! T.d. í gær fór ég að heiman kl 7.45 því ég átti að mæta í tíma í Winsløw Parken klukkan 8.15. Þar var ég í tímum til klukkan 12. Planið eftir það var að fara með tveimur öðrum stelpum til þeirrar þriðju að skrifa skýrslu. Ég vildi samt kíkja við í WP25 til að heilsa upp á frumurnar mínar og vera viss um að meinatæknirinn væri ekki búin að gleyma að hún ætlaði að safna frumunum fyrir mig þennan daginn af því að ég var jú að fara að skrifa skýrslu og hafði því ekki tíma. Þegar ég kom í WP25 komst ég hins vegar að því að hún var orðin veik og hafði því ekkert mætt þennan daginn. Ég þurfti því bara að skella mér í hvíta sloppinn og hanska og redda þessu sjálf. Um leið og ég var búin hófst skýrslugerðin, sem stóð alveg til hálfátta um kvöldið, þó án þess að við næðum að klára. Nú var málið bara að drífa sig heim, hoppa í önnnur föt, skella á sig smá meiki og hjóla eins og brjálæðingur í 25 ára afmælisveislu, sem var löngu byrjuð. Ég stoppaði ekki nema 10 mín heima hjá mér en náði samt að skipta um föt og klína einhverju í andlitið á mér. Ég hafði engan veginn í hyggju að vera alla nóttina í afmælinu, en á einhvern undarlegan hátt gekk klukkan á ógnarhraða og var allt í einu orðin hálfsex að morgni. Þá ákvað ég að drífa mig heim á leið og var komin í rúmið og sofnuð um sexleytið. Maður hefði nú haldið að nú væri þörf á að sofa lengi og vakna í rólegheitunum yfir kaffibolla. En, nei, ég vaknaði á hádegi og flýtti mér í spinning tíma, þar sem ég púlaði eins og brjálæðingur í einn tíma og eftir það kom ég við heima til að hengja upp íþróttafötin og var svo farin af stað í innflutningspartý! Ég stakk að vísu snemma af úr partýinu til að geta lagað aðeins til heima af því að ég fæ gesti á morgun, þ.e. stelpurnar sem ég er að skrifa skýrsluna með. Fyrir utan allt þetta er mér boðið í svaka stelpupartý í kvöld en ég er búin að láta vita að ég komist ekki, enda koma stelpurnar klukkan 10 í fyrramálið til að klára skýrsluna!

marts 08, 2005
 
Bloggleti og brjálað að gera!

Það er ótrúlegt hvað mér tekst alltaf að fylla hjá mér dagatalið! Ég sem hélt að þessi önn yrði svo ljúf með fáum tímum og B.Sc. verkefnisvinnu öðru hvoru. Nei, aldeilis ekki! Ég er að vísu ekki í svo mörgum tímum á viku en á móti kemur að ég er mikið að vinna við verkefnið mitt. Ég er meira eða minna alla daga frá 8-17 í Winsløw Parken (fyrir þá sem ekki þekkja er það heilbrigðisvísindagarður skólans míns) og svo er ég að æfa í ræktinni á kvöldin. Þar sem það er nóg að gera alla virka daga ætti ég auðvitað að lesa um helgar, en þá er ég bara alltaf djammandi, því það er alltaf einhver sem er að halda innflutningspartý, afmælispartý eða bara að halda partý og vill endilega fá mig með. Eins og þetta sé ekki nóg þá er ég líka í stjórn CFO og við erum að fara að halda fredagsbar á föstudaginn næsta og þar sem ég ber ábyrgðina á honum er nóg að gera í kringum það!

OOOooo mig langar helst að skríða undir sængina mína og liggja þar þangað til það verður hlýtt úti og allt stressið er yfirstaðið !!!
En það þýðir víst lítið að væla og ekkert annað að gera en að halda áfram á fullu og þá mun allt reddast!

marts 03, 2005
 
Vetur !!!

Það er nú meiri veturinn sem herjar á okkur Danina núna. Það snjóar meira eða minna alla daga og hitinn er konstant undir frostmarkinu. Það liggur við að maður þurfi að flýja í góða veðrið á Íslandi! Það mun samt ekki gerast á næstunni enda allt brjálað að gera hjá mér núna og verður alveg fram á sumar. Kannski maður geti samt skroppið heim í smá tíma í sumar (jæja, óþarfi að vera að spá í því núna!).

Ég var að velta því fyrir mér hvað maður er eiginlega orðinn góðu vanur sem námsmaður, þegar maður hefur ekki þurft að mæta í tíma á morgnana fyrr en kl. 10 eða 12 og jafnvel verið í fríi suma daga. Ég finn fyrir þessu núna því ég er í tímum alla daga vikunnar frá 8-10 og er svo að vinna við B.Sc. verkefnið frá 10 til 16 eða 17. Þetta hljómar auðvitað ekkert illa, 8-17, ég meina þetta er bara eins og venjulegur vinnudagur, en maður þarf jú að lesa fyrir utan þessa tíma og svo er ég á æfingum flest kvöld vikunnar (það er því ekki mikið um lestur þessa dagana!). Úff, er það nema von að maður sé svolítið þreyttur! Ég kom heim í gær um fimmleytið og ætlaði svo á æfingu klukkan hálfátta. Þar sem ég nennti ekki að gera neitt uppbyggilegt áður en ég færi á æfinguna ákvað ég að leggja mig í smástund en vaknaði svo ekkert fyrr en á slaginu sjö. Ég ætlaði sko ekki að missa af æfingunni og setti því í fluggírinn við að pakka draslinu og drífa mig af stað.