Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

april 30, 2005
 
Tveir rauðir kallar!

Þegar fólk kemur til Odense undrar það sig oft á því að á öllum gönguljósum, í og í kringum miðbæinn, eru tveir rauðir kallar, en bara einn grænn. Ástæðan er sú að áður fyrr, þegar það var bara einn af hvorum, gerðist það eitt sinn að rauða ljósið bilaði á gönguljósum hér í miðbænum. Maður gekk þar yfir án þess að vita að það var rautt og svo kom bíll og keyrði á hann og maðurinn dó. Síðan þá eru alls staðar tveir rauðir kallar í miðbænum og þar í kring. Ástæða þess að ég er að tala um þetta núna er að þegar ég var að koma heim áðan, sá ég ein gönguljós þar sem það var bara einn rauður kall. Ljósið var sem sagt bilað í hinum rauða kallinum, en þessi eini sem eftir var stóð fyrir sínu.

april 29, 2005
 
Science

Það ríkti mikil gleði á KMEB í dag, því það fékkst samþykki frá Science um birtingu greinar frá vísindamönnum hópsins. Greinin mun birtast eftir um 6 vikur, en þess ber að geta að Science er eitt af helstu vísindatímaritunum og það er mikill heiður að fá birta grein þar. Tveir úr hópnum verða ásamt fleirum skráðir höfundar greinarinnar, en þar af er stelpa sem lærði biomedicin hér í Odense og gerði mastersverkefnið sitt hjá KMEB. Það er einmitt að miklu leyti niðurstöður úr verkefninu hennar sem hafa gefið tilefni til þessarar greinar, sem nú verður birt í Science.
Ég var önnum kafin í vinnu þegar fréttin barst og yfirmaður hópsins vildi endilega að fólk kæmi með sér á kaffihús, til að fagna árangrinum yfir bjórglasi. Það var því ekkert annað að gera en að klára í hvelli og drífa sig af stað, því það er nú ekki á hverjum degi sem maður drekkur bjór með manni sem er að fara að birta grein í Science.

Já, ég myndi nú ekki kvarta ef mastersverkefnið mitt myndi enda með grein í Science!

april 28, 2005
 
Vorið er komið og...

...frjókornin líka! Það liggur við að maður óski þess að það rigni hressilega það sem eftir er sumars, svo maður geti verið laus við #&%*"#%!"&/% ofnæmið. Í fyrra fékk ég engin ofnæmiseinkenni fyrr en í lok maí, þannig að þetta er mánuði of snemma á ferðinni núna. En ég er á leið til læknis á næstunni til að láta athuga hvaða frjókorn það eru sem ég er með ofnæmi fyrir og svo get ég farið að fylgjast með frjókornatölum dagsins og fundið út úr því hvort ég eigi að taka ofnæmislyf eða reyna að halda mig inni við þann daginn.
Annars þá er alltaf erfitt að halda sig innandyra í góðu sumarveðri og í dag var ég að fjárfesta í litlu útiborði og tveimur stólum til að hafa á svölunum fyrir utan íbúðina mína. Á meðan á próflestri stendur í júní mun ég sem sagt geta setið fyrir utan ef veðrið er bara alltof gott til að vera lokuð inni (þ.e.a.s. ef frjókornin eru ekki í hámarki!)

april 26, 2005
 
København

Við Baldur skelltum okkur í gær til kóngsins København til að hitta foreldra hans, sem millilentu þar á leið sinni frá Frakklandi til Íslands. Þar sem ég var nú að hitta þau í fyrsta sinn var ekki laust við smávegis "sommerfugle i maven", en allt gekk vel og við áttum öll góðan dag í höfuðborginni. Nú er ég semsagt búin að hitta alla familíuna hans Baldurs og röðin komin að honum að hitta mitt fólk. Hann hefur að vísu hitt mömmu, reyndar áður en við byrjuðum saman, og fljótlega mun hann hitta Ellert, enda á leið í klinikophold í hans heimabæ, Esbjerg.

Flutningar

Við í CFO stjórninni vorum að flytja allt CFO dótið úr gamla herberginu yfir í nýtt CFO herbergi í nýju BMB byggingunni í Háskólanum í dag. Nýja herbergið er stórt og flott með útgang út á steyptan pall, þar sem hægt verður að halda grillpartý. Það er bara verst að maður verður lítið sem ekkert meira í tímum í skólanum, bara í Winsløw Parken, og því á maður ekki eftir að geta nýtt sér þessa fínu nýju aðstöðu. En svo lengi sem maður er í stjórn CFO þá verður maður væntanlega alveg með annann fótinn þarna.

april 23, 2005
 
Lynette...!

Það er ótrúlegt hvað maður kemur miklu í verk suma daga, eða eiginlega allflesta daga í mínu tilviki, að minnsta kosti um þessar mundir þegar það er nóg að gera á öllum vígstöðvum. Þegar ég fer að hugsa um hvað ég er afkastamikil þá finnst mér ég vera eins og Lynette í Desperate Housewifes þegar hún er á pillunum! Það fyndna er samt að mér finnst ég ekki vera að ná að gera allt það sem ég þyrfti að gera og mig vantar ennþá nokkra tíma í sólarhringinn. Hvernig getur manni alltaf tekist að fylla dagatalið!?!

april 20, 2005
 
Stolt !

Já, það er sko verið að vitna í stofnfrumurannsóknahópinn minn hér;

Af mbl.is;
"Frumur sem skiptu sér á bilinu 90 til 140 sinnum í tilraunaglasi mynduðu krabbamein þegar þeim var komið fyrir í tilraunadýrum, að því er hópur vísindamanna við Sjálfstæða háskólann í Madríd komst að. Læknar á Háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum í Danmörku grunar, að eftir tiltekinn fjölda skiptinga kvikni á genum í frumunum er byrji að framleiða ensím er nefnist telomerasi og þetta leiði á endanum til þess að frumurnar myndi krabbamein."

april 18, 2005
 
Pingó!

Ég lenti í frekar neyðarlegri uppákomu áðan, sem ég ætla að deila með ykkur...

...þannig er að einn á KMEB rannsóknastofunni var eitthvað að segja mér frá því hvað hann hefði verið rosalega duglegur í ræktinni í gær og þess vegna bara alveg búinn í löppunum eftir æfinguna.
Svo segir hann; "og så skulle jeg jo ud at gå med Pingo!"
Og þá segi ég; "noh, så du har en hund?"

Nú heyrðist hlátur úr einu horninu á skrifstofunni okkar og svo segir hann, frekar vandræðalega; "Nej, Pingo er altså min kæreste"

Úps! Það kom svo í ljós að kærastan hans er frá Kína og heitir sem sagt Pingó!

april 15, 2005
 
Rammstein !

Já, haldiði ekki að maður sé á leiðinni á Rammstein tónleika í Gentofte þann 10. júlí í sumar. Ég var ekki fyrr komin inn á skrifstofu KMEB í morgun en ég sé að stelpurnar eru að vesenast eitthvað í tölvunni. Þær voru sem sagt að panta miða á Rammstein og vildu endilega fá mig með, og ég var sko ekki lengi að taka ákvörðun. Við erum nefnilega þrjár á KMEB rannsóknastofunni, sem eigum það sameiginlegt að fíla Rammstein og Metallica og viljum helst ekki hjóla með annað í eyrunum (við eigum það líka sameiginlegt að geta hjólað eins og brjálæðingar, þ.e. miklu hraðar en allir hinir). Þetta verður svoooo gaman !!!

april 14, 2005
 
Instruktør

Ég er komin með starf sem instruktør í faginu strukturel og funktionel biomedicin B í haust. Ég á sem sagt að fara að kenna læknanemum, biomedicinnemum og biomekaniknemum um kost og leverens metabolisme. Ég er alveg í skýjunum yfir þessu því það er ekki hver sem er sem fær instruktørstöðu og það er erfitt að komast að. En þegar maður er kominn inn og ef maður stendur sig vel þá fær maður að halda áfram á meðan maður hefur tíma og er enn að læra. Þetta eru ekki nema 12 kennslustundir sem ég fékk en ef að það losnar staða í molekylær biomedicin C þá verð ég sú fyrsta sem verður spurð hvort ég vilji taka það að mér, en það eru miklu fleiri tímar. Það er að vísu ekki nema hálft ár síðan ég var að læra þetta sem ég er að fara að kenna og ég fer ekki í próf í því fyrr en núna í júní, svo það er eins gott að maður massi það próf! En prófessorinn hafði nú litlar áhyggjur af því ;-)

Ég er fegin að hafa ekki fengið fleiri tíma en raunin varð í fyrsta sinn sem ég er að fara að kenna, því ég verð jú sjálf í fullu námi við hlið kennslunnar. En ég reikna fastlega með að fá meiri kennslu á næstu önnum og ég ætla að halda fast í þetta starf næstu tvö árin, þ.e. á meðan ég er í mastersnáminu, því það er vel borgað fyrir þetta og svo lítur þetta mjög vel út á CV'inu.

Eru einhverjir íslenskir læknanemar á leið í strukturel og funktionel biomedicin B á næstu önn? Þar sem ég verð með alla hópana í þessum ákveðna hluta kúrsins þá hlakka ég til að hitta þá ;-)

Komment?

Hva, ætlar enginn (annar en Dagný Ásta) að kommenta á þá staðreynd að maður sé kominn á fast? Ég held að þetta hljóti að hafa verið ein af fréttum ársins hér á blogginu, þó að ég hafi nú bara lætt þessu hérna inn, en það virðist bara enginn hafa tekið eftir því :þ

april 12, 2005
 
Bólusetning

Það er víst ekki alveg hættulaust að vinna með stofnfrumur og því var ég bólusett í dag gegn lifrarbólgu B, en allir á rannsóknastofunni þurfa að fá þessa bólusetningu. Málið er að maður veit ekki hverju þetta fólk sem stofnfrumurnar voru teknar úr hefur verið smitað með og maður þarf því að vera við öllu búinn.

Rejsebevis

Loksins kom rejsebeviset okkar Ella fyrir Egyptalandsferðinni í sumar! Þó að við séum löngu búin að panta ferðina, erum við búin að bíða lengi eftir rejsebevisinu því það var einhver seinagangur á stelpunum á ferðaskrifstofunni. Ég er samt oft búin að tala við þær í síma og þannig búin að fá staðfestingu á að allt væri í lagi, en það er samt eins og ferðin sé komin miklu nær í tíma við að fá rejsebeviset. Já, það eru ekki nema rúmir fjórir mánuðir þangað til ég fer að kafa í Rauðahafinu! . Umm, það færist bros yfir andlitið þegar ég hugsa til þess!!!

april 11, 2005
 
Amor

Það er nokkuð ljóst að Amor hefur gert sér ferð framhjá Pjentedamsgadekollegíinu núna nýlega til að bjarga þeim einmana Íslendingum sem þar búa, og ætla ég ekki að neita því að undirrituð varð í vegi hans. Já, maður er sem sagt kominn með kall og það er svosem ekkert alveg nýtt, en ég varð nú að vera alveg viss áður en ég fór að skrifa um það hér á síðunni ;-) Fyrir þá sem ekki vita er hann líka búsettur hér á kollegíinu og íslenskur (ég veit að það á eftir að gleðja mömmu gömlu mikið því það eykur óneitanlega líkurnar á að maður flytjist einhvern tímann aftur heim á Klaka). Lítill fugl hvíslaði því að mér að fleiri Íslendingar hér á staðnum hafi orðið í vegi Amors, en við förum ekkert nánar út í svoleiðis kjaftasögur.

Flug heim!

Nú er það komið á hreint að ég kem heim í 10 daga í sumar, en ég var einmitt að panta flugið í gærkvöldi! Ég kem beint eftir prófið þann 22. júní og verð til 2. júlí, en þá verð ég að koma aftur til Odense og gefa mig alla í að skrifa B.Sc. verkefnið mitt, sem ég verð að vera búin með þegar ég fer til Egyptalands í ágúst.

april 08, 2005
 
Langur gangur...!

Ég vissi að það yrði langur dagur hjá mér á KMEB í WP25 í dag, en ég var sko ekki svo dugleg að hafa með mér nesti. Þegar ég svo loksins fann að ég var orðin svöng og hafði tíma til að fá mér eitthvað að borða var klukkan orðin 14.10 og kantínan í WP19 því lokuð fyrir tíu mínútum. Þar sem ég var ekki með neitt klink til að kaupa mér eitthvað í sjálfsalanum voru góð ráð dýr! Ég varð að fá eitthvað að borða því "fleste fejl begås på tom mave" eins og segir í auglýsingunni, og ég átti jú margra tíma vinnu eftir. Þannig að ég ákvað að labba yfir í aðalbyggingu sjúkrahússins og að sjálfsögðu tók ég undirgöngin, en þau liggja undir allt sjúkrahúsið, sem er mjöööög stórt. Ég arkaði af stað eftir göngunum undir Winsløw Parken og beygði svo fyrir horn og gekk þá eftir göngum sem virtust engan endi hafa. Ég gekk eftir þeim í þónokkurn tíma og mætti nokkrum litlum bílum og einum kalli á hjóli. Enn og aftur beygði ég fyrir horn og var þá komin að "elevator knudepunkt" þar sem ég gat sem sagt tekið lyftuna upp í aðalbygginguna og keypt mér að borða. Næsta korterið eða svo fór svo í að labba tilbaka og tókst mér næstum því að klára samlokuna mína á leiðinni.
Það var samt eins gott að ég lagði á mig að labba alla þessa leið eftir einni samloku, því ég var ekki búin með vinnuna og komin heim fyrr en klukkan hálf tíu í kvöld.

april 05, 2005
 
Veðurblogg

Jæja, nú skal ég bráðum fara að hætta að tala um veðrið! Það er ekki eins og það sé ekki nóg annað að segja frá...

...en þið fáið að heyra það seinna! Ég sá nefnilega þetta á mbl.is;

Óveður á Hellisheiði
Óveður og skafrenningur er á Hellisheiði og slæmt ferðaveður, snjóþekja er á Þrengslum og færð farin að spillast í uppsveitum Suðurlands, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Mjög hvasst er lélegt skyggni er á Vesturrlandi og ekkert ferðaveður eins og er. Á sunnanverðum Vestfjörðum eru vegir ófærir vegna veðurs og snjóa og Steingrímsfjarðarheiði er ófær. Á Norðurlandi er éljagangur og víða skafrenningur á vegum. Nokkuð greiðfært er um vegi á Austurlandi.

He he, hí á ykkur þarna heima á Klaka! Það er svosem ekki hægt að monta sig af því að það hafi verið 20 stiga hiti í dag eins og í gær, en það var samt nokkuð sem kalla má vorveður á danskan mælikvarða.

april 04, 2005
 
Ég er ekkert að grínast...

...og ekkert að ýkja heldur, þegar ég segi að NÚ sé komið sumar í Danaveldi. Það var glampandi sól og um 20°C hiti í dag!!! Vinnusjúklingurinn ég hafði auðvitað engan tíma til að njóta rjómablíðunnar, en ég naut þess samt að geta hjólað heim á stuttermabol og með sólgleraugu eftir árangursríkan dag á rannsóknastofunni. Já, nú eru hlutirnir bara að gerast hjá mér; B.Sc. verkefnið farið að rúlla og sumarið að koma. Ég held barasta að maður geti leyft sér að brosa aðeins breiðara þessa dagana.

april 03, 2005
 
Já, sumarið er komið !!!

Það kom þessi líka rosalegi sumarfílingur í mig í morgun þegar ég vaknaði og ég skellti mér sko út í garð með morgunkaffið mitt. Ég var bara í hlýrabol og naut þess að láta sólina skína á hvítar axlirnar, en ef ég hefði ekki verið með heitt kaffi í höndunum held ég samt að mér hefði orðið svolítið kalt, því hitastigið var nú ekki nema einhvers staðar á milli 10 og 15. En þetta var samt yndisleg stund og byrjunin á betri tíð! Það er ótrúlegt hvað sólin er orðin sterk þótt ekki sé nema byrjun apríl, því ef maður finnur sér skjól þá getur manni hæglega orðið vel heitt og komist í sumarfíling, a.m.k. íslenskan sumarfíling.

Ég er að spá og spekúlera þessa dagana hvort ég eigi að skella mér heim í sumar eftir prófið í lok júní. Ég myndi samt ekki stoppa lengi, bara í svona 10 daga, því ég þarf að vera hér í Odense í júlí og fram í ágúst og einbeita mér að því að klára vinnuna við og skrifa B.Sc. verkefnið mitt. Ég held samt að ég hefði gott af því að slappa aðeins af í hreiðrinu hjá múttu áður en ég fer að vinna á fullu við B.Sc'inn.

Jæja, ég er farin að horfa á "Gamle mænd i nye biler" á TV2.

april 01, 2005
 
Sumarið er komið!...

...ú, ú, ú je! Nei, ekki alveg, en samt næstum því! Það var allavegana ágætis hiti í dag og glampandi sól. Ég gat nú ekki notið þess mikið þar sem það var alveg nóg að gera hjá mér í sambandi við B.Sc. verkefnið í dag og ég var því í labbinu frá átta í morgun til sex í kvöld. Það á nú að vera gott veður alla helgina og er það ansi heppilegt þar sem haldið verður upp á 200 ára afmæli H.C. Andersen á morgun, en hann er að því er ég best veit einn frægasti Odensebúinn. Húsið sem hann fæddist í er einn aðal staðurinn í Odense, sem dregur að sér ferðamenn, og stendur það hérna rétt hinum megin við götuna hjá mér. Ég var að vísu búin að búa í Odense í þrjú ár og þar af hálft ár hérna á Pjentedam áður en ég fór að kíkja á H.C. Andersen húsið, en hva' það lá nú ekkert á.

Tekin fyrir of hraðan akstur?

Já, það er spurning hvort maður verði einhvern tímann stoppaður fyrir of hraðan akstur á hjólinu. Ég er nú ekkert að nota of mikinn tíma í að komast á milli staða og gef bara vel í á bláa fáknum mínum. Málið er reyndar að ég hjóla svo hratt að ég er stöðugt takandi fram úr hinum hjólreiðamönnunum og nota bjölluna óspart til að fá þá til að færa sig. Það fer ekkert meira í taugarnar á mér en hægfara hjólafólk sem er lengi að færa sig þegar maður kemur og ætlar framhjá. Nú, Elli bróðir gaf mér hraðamæli á hjólið í jólagjöf og ég var einmitt að setja hann á í kvöld, svo nú get ég farið að fylgjast með hraðanum og mæla vegalengdir. Ég get líka séð hvað ég hjóla mikið á dag/viku/mánuði og fylgst með meðalhraðanum. Ég skrapp í smá hjólatúr þegar ég var búin að setja mælinn á hjólið og með Metallica í mp3 spilaranum náði ég að komast í 40,9 km/klst, he he geri aðrir betur!