Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

maj 31, 2005
 
Team Building

Á morgun er ég að fara með KMEB rannsóknahópnum út í litla eyju í Stórabeltinu, sem heitir Romsø, en þar ætlum við að leika okkur í boltaleikjum, borða góðan mat og bara skemmta okkur vel. Sniðugt að gera svona til að leyfa fólki að kynnast aðeins betur í öðru umhverfi en vinnuumhverfinu. Það er verst að veðurguðirnir eru ekki í mjög góðu skapi þessa dagana og senda bara rigningu og kulda til okkar hér í Mörkinni. En við látum það nú ekki á okkur fá og kannski ég þurfi að finna nokkrar af hlýju vetrarpeysunum mínum sem ég tók úr skápnum þegar góða veðrið kom og ég hélt að það væri komið sumar.

maj 28, 2005
 
Heitasti dagur ársins...

...og það var ekki hægt annað en að vera úti og njóta þess. Það var því ekki mikið um próflestur í dag, en það er nú allt í lagi þar sem það er langt í prófið og þó efnið sé mikið þá er ég vel á undan áætlun. Ég tók daginn snemma og fór með Önnu vinkonu á markaðinn sem er hérna hinum megin við götuna. Þar keypti ég stór og safarík kirsuber og jarðarber, namm! Auk þess keypti ég mér litla trjáplöntu sem ég er með fyrir utan útidyrnar hjá mér og svo keypti ég fullt af grænmeti og aloe vera plöntu. Gaman að fara á markaðinn í svona góðu veðri, því það er eitthvað svo sérstök stemning þar.

Annars er bara allt voðalega rólegt þessa dagana. Ég er einhvern veginn ekki alveg að fatta að ég sé í próflestri þar sem það er góður tími í prófið og því ekkert stress í gangi. Ég er bara að lesa á svona hálfum hraða miðað við venjulega þegar ég er í próflestri og svo er ég bara að slappa af og njóta lífsins þess á milli. Ég er meira að segja hálfnuð með eina af jólabókunum mínum, Arabíukonur sem ég ætlaði löngu að vera búin með en hafði aldrei tíma til að byrja á.

maj 27, 2005
 
Í sól og sumaryl

Nú er þá sumarið komið fyrir alvöru með hitastigi nálægt 30°C, glampandi sólskini og bleikum öxlum. Úff, hvað ég er fegin að eiga nóg af aloe vera geli, því það er það eina sem virkar við sólbruna og ég er sem sagt með einn slíkan á öxlunum. Það var ekki að því að spyrja að á fyrsta almennilega sumardeginum voru Íslendingarnir á Pjentedam ekki lengi að koma sér út í sólina. Þessi íslenski hugsunarháttur; "Það má sko ekki láta einn einasta sólargeisla fara til spillis", situr ótrúlega fast í manni þó að maður sé búinn að vera lengi í útlöndum og ætti að vera farinn að vita betur.

En það er yndislegt að sumarið sé komið og það á víst að verða enn heitara á morgun. Ég er samt að hugsa um að lesa ekki jafnmikið úti á morgun og ég gerði í dag, því að ég held að axlirnar mínar yrðu ekkert alltof glaðar með það. En við skulum nú bara sjá til, kannski aloe vera gelið geri kraftaverk í nótt.

maj 25, 2005
 
Beint í mark!

Stjörnuspáin á mbl.is gæti varla átt betur við í dag;

"Notaðu daginn til þess að læra eða tileinka þér færni á nýju sviði. Þú hefur þolinmæðina og vinnusemina sem þarf til að ná settu marki."

maj 23, 2005
 
Gulrótakaka

Það var mikið um reddingar hjá mér í dag, því ég þurfti að ganga frá hinu og þessu áður en ég ætla að sökkva mér í próflestur frá og með deginum á morgun. Í gær var ég hins vegar svo dugleg að baka gulrótaköku, sem ég fór með á KMEB rannóknastofuna í morgun, því ég er búin með vinnuna við B.Sc. verkefnið og kem ekkert aftur á skrifstofuna fyrr en í byrjun júlí þegar ég ætla að byrja að skrifa ritgerðina mína. Við hjá KMEB erum annars með "kageordning" á mánudagsmorgnum, þ.e.a.s. það er alltaf einhver einn sem kemur með köku á mánudögum, sem við borðum saman kl. 10, og í dag var röðin sem sagt komin að mér. Það er kominn mikill metnaður í þessar mánudagskökur, a.m.k. hjá okkur stelpunum, og maður getur ekki annað en reynt að gera jafn vel ef ekki betur en næsta á undan. Strákarnir eru nú samt ekkert að stressa sig á þessu og sækja yfirleitt vínarbrauð í bakaríið. Gulrótakakan mín heppnaðist vel og fékk góða dóma og því vildu stelpurnar endilega fá uppskriftina, en það er ein þarna sem safnar öllum góðu uppskriftunum. Ég var með uppskriftina á íslensku og leyfði þeim að sjá og ætlaði svo bara að snara henni yfir á dönsku. Það reyndist hins vegar óþarfi því þær skildu flest allt, nema einna helst lyfídúftí og matarsódí. Þar sem ein af Ph.D nemunum á færeyskan kærasta átti hún hins vegar í litlum vandræðum með að þýða alla uppskriftina, svo ég lét þær bara hafa hana á íslensku.

maj 22, 2005
 
Grasekkja

Nú er Baldur farinn til Íslands og ég er ein eftir í góða veðrinu í Odense. Ég er ekkert öfundsjúk út í hann fyrir að vera að fara til Íslands, en ég öfunda hann helmikið af ferðalaginu þangað. Mér finnst eitthvað svo sjarmerandi að vera á flugvöllum og svo finnst mér svo gaman að fljúga, að vísu bara ef ég er í gluggasæti og ekki yfir vængnum. Það var líka algjör bömmer þegar ég fór til Egyptalands með Ellert í fyrsta skiptið og við fengum sæti hvort sínum megin við ganginn. Þó að við vorum mætt snemma út í Billund gátum við ekki fengið þau sæti sem við vildum því það var búið að raða fyrirfram. Þegar við flugum yfir Giza og gátum séð stóru píramídana var mér nú ekki til setunnar boðið og ég (ásamt þónokkrum fleirum) fékk að halla mér yfir þá sem sátu við gluggan réttum megin í vélinni og kíkja aðeins á píramídana. Þegar við hinsvegar fórum suðureftir, þ.e. til Egyptalands, í fyrra fékk ég svo gluggasæti og var hin ánægðasta, enda límd við gluggann alla leiðina. Svo sat ég líka við gluggann báðar heimferðirnar :P

maj 20, 2005
 
Hmmm !

Þá er júróvísjónið búið þetta árið, a.m.k. hjá íslensku keppendunum. Það voru allir á Íslandi svo vissir um að Selma kæmist áfram, en hér í Danmörku var aftur á móti lítil bjartsýni á áframhaldandi þáttöku. Eins og flestir vita endaði málið samt þannig að Odense-búinn Jakob Sveistrup komst áfram en ekki Selma. Ég verð nú að segja fyrir mitt leiti að mér fannst norska lagið langflottast og ég vona að Norðmenn taki þetta á laugardaginn.

Annars þá er ég að klára vinnuna við B.Sc. verkefnið í dag, en ég er einmitt í Winsløw Parken núna að keyra síðustu tilraunina. Eftir helgi hefst svo próflestur, en um helgina ætla ég mestmegnis að slappa af og hafa það huggulegt með Baldri því hann er að fara frá mér á sunnudaginn. Já, hann er að fara til Íslands og verður í allt sumar :( en ég skelli mér nú þangað í 10 daga í lok júní :)

maj 17, 2005
 
Ónæmisfræði og KR-útvarp!

Þá er KR-útvarpið tekið til starfa á ný og Bubbi kominn í loftið; "Titillinn er okkar í ár, ... ...Við erum svartir, við erum hvítir,..., við erum KR!". Ég sit hér heima að gera ónæmisfræðiverkefni, sem bara verður að klárast í kvöld (á að skilast á fimmtudaginn og ég er upptekin á morgun!), og á sama tíma er ég að hlusta á KR-útvarpið á netinu. Það er enn smá tími þar til leikurinn, Fylkir-KR, hefst þannig að ég held að ég drífi mig að klára verkefnið því það verður væntanlega erfitt að einbeita sér þegar leikurinn byrjar.

Jæja, það var bara eitt í viðbót...

...Áfram KR

maj 16, 2005
 
Helgin

Ég skrapp til Esbjerg um helgina og skemmti mér bara mjög vel ásamt Baldri og Ella í félagsskap með virago mótorhjólaklúbbnum , sem Elli bróðir er í og ég víst er meðlimur af líka. Ég fór á föstudaginn til Esbjerg með eihverri þeirri verstu sardínuferð sem sögur fara af. Þegar lestin stoppaði í Odense var hún svo full af fólki að það var ómögulegt að sjá hvernig allir þeir sem stóðu á brautarpallinum ættu að geta komist inn. Það tókst nú samt að koma öllum inn með því að ýta og troðast, en þegar lestin fór af stað áleiðis til Esbjerg stóðu menn hver um annan þveran á ganginum. Eftir nokkurn tíma í loftleysi á ganginum datt mér og nokkrum öðrum í hug að færa okkur inn í hvilevagninn, sem var þarna við hliðina, enda nóg pláss. Þar sátum við svo á gólfinu, þar til í Kolding, þegar allmargir fóru úr og það losnuðu nokkur sæti á fyrsta klassa, sem við gátum gripið, enda engar líkur á að við yrðum beðin að færa okkur, þar sem það var allt fullt alls staðar annars staðar.

Í Esbjerg sótti ég Baldur og við fórum í klúbbhús mótorhjólaklúbbsins, sem liggur rétt utan við bæinn, en þar voru tónleikar um kvöldið. Sváfum við svo ásamt Ellert í tjaldi um nóttina og get ég sagt ykkur að þó að það hafi verið fínasta veður á föstudaginn var alveg ógeðslega kalt um nóttina. Þó að ég væri í íslensku rollunni frá toppi til táar og í svefnpoka var ég alveg að farast úr kulda og svaf ekki mikið þessa nótt. Næsta dag skruppum við Baldur inn í Esbjerg til að fara í sund og notaði ég þá tækifærið til að sækja teppi heim til Ellerts og svaf ég mun betur næstu nótt, af því að ég setti teppið ofan í svefnpokann hjá mér. Það er mér enn mikil ráðgáta hvernig bæði Ellert og Baldur gátu sofið báðar næturnar án þess að verða kalt.

maj 12, 2005
 
Hjólagarpur!

Það er nú meira hvað maður er duglegur að hjóla hérna í Mörkinni. Ég er búin að hjóla 18 km í dag og er svo á leið í 75 mínútna spinning tíma á eftir. Það er sem betur fer stutt í ræktina, ekki nema 1 km hvora leið, þannig að heildarvegalengd dagsins fer í 20 km. Ástæðan fyrir þessum dugnaði er að ég þurfti að keyra eina tilraun á rannsóknastofunni í morgun og náði að klára hana og lesa niðurstöðurnar áður en ég fór í tíma í Háskólanum, sem er í 6 km fjarlægð frá Winsløw Parken, þar sem rannsóknastofan er. Á meðan ég var í Háskólanum keyrði ég aðra tilraun, sem ég gat bara ekki beðið með að lesa niðurstöðurnar frá, og því hjólaði ég tilbaka aftur. Þegar ég var á leið í gegnum skóginn við Háskólann var ég aldeilis minnt á að vorið er komið og það er vissara að fara að venja sig á að hjóla með munninn lokaðan, amk þegar maður hjólar í gegnum skóginn. Það skullu allmargar flugur á andlitinu á mér á leiðinni þarna í gegn og sumar þeirra vildu endilega komast upp í mig, en ég reyndi nú að koma í veg fyrir það.

maj 10, 2005
 
Svelgur!

Ég er nú orðinn meiri svelgurinn, sit hérna heima á þriðjudagskvöldi og drekk Erdinger Weißbier og finnst það bara fullkomlega eðlilegt. Fyrir nokkrum árum (jæja, fyrir allmörgum árum!) hefði manni fundist þetta frekar óviðeigandi, enda bjórdrykkja meira tengd partýum og djammi en venjulegu þriðjudagskvöldi. Já, svona er maður nú búinn að læra mikið í útlandinu! Við Baldur erum annars voða hrifin af að fá okkur smá rauðvín á kvöldin, það er jú svo huggulegt, eins og danskurinn myndi orða það.
Nú, svo er ég líka kona einsömul þessa dagana, þar sem Baldur er í Esbjerg. En ég er nú að fara til hans um helgina og um leið að fara að kynna hann fyrir stóra brósa, sem einmitt býr þarna á vesturströndinni. En ég læt nú ekki duga að kynna hann bara fyrir brósa, heldur fær hann að hitta alla í mótorhjólaklúbbnum líka, þar sem það verður svaka mótorhjólahittingur á vegum klúbbsins og því mikið fjör alla helgina. Svo er nú stefnan að kíkja í Svømmestadion, þar sem ég var að vinna, þegar ég bjó í Esbjerg. Þannig að það verður nóg að gera alla helgina og aumingja Baldur þarf að hitta fullt af fólki.

maj 08, 2005
 
Blóm

Það kom til mín sætur strákur áðan með blóm :-) Tilefnið var í raun ekkert sérstakt, eiginlega bara svona "af því bara". Jamm, það er sko gaman að eiga góðan kærasta ;-)

Ég komst nú ekki hjá því að hugsa aðeins til "Husk hvad blomster kan gøre" auglýsingarinnar. He he!

Vá, þetta er flott! Það liggur við að maður fái pínu heimþrá (p.s. fengið frá Dagný Ástu)

maj 07, 2005
 
Færeyska

Ég rakst á þetta þegar ég var að skanna mbl.is núna áðan;

Úr Dimmalætting
"Ítróttarhøllin á Skála var stúgvandi full tá ið tveir av okkara fremstu vísu- og fólkasangarum, Eivør Pálsdóttir og Stanley Samuelsen, saman við fólkakærasta sangaranum í Íslandi, Bubba Mortens, spældu eina frálíka konsert."
Til að geta lesið meira hér, þarf að svo að nota brúkaranavn og loyniorð!

Gaman að þessu tungumáli!

maj 05, 2005
 
Bloggleti!

Jamm, afsökunin fyrir bloggleysinu undanfarna daga er sú sama og oft áður; annasemi! Ég reyni líka að nýta tímann og gera sem mest á virkum dögum, þegar Baldur er í Esbjerg, þannig að við getum verið aðeins meira saman um helgar. Reyndar þá er frí í dag og hann því hér í Odense, en hann þarf að fara aftur í kvöld.

Það helsta sem uppá hefur komið síðustu daga er án efa árekstur sem ég lenti í á hjólinu. Það hefði hæglega getað farið illa, en með góðu viðbragði og mikilli heppni fór allt vel og ekki einu sinni hjólin urðu fyrir hnjaski. Ég var á leiðinni heim og hjólaði við hlið bíls sem var á sömu leið og ég. Nokkru framar var maður kyrrstæður á hjóli og beið eftir að komast þvert yfir götuna sem ég var á. Ég var á um 30 km/klst en bíllinn hefur verið á aðeins meiri hraða og var því kominn aðeins framar en ég, þó ég hafi haldið vel í við hann. Þegar bíllinn er í þann mund að fara framhjá þar sem kallinn stóð fer karlinn af stað á hjólinu og þar sem ég er að koma með miklum hraða stefndi ég beint inn í hliðina á honum. Það voru ekki nema sekúndubrot sem ég hafði til að afstýra árekstrinum og mér tókst að öskra á kallinn og sveigja aðeins til vinstri, þannig að ég lenti bara fremst á framhjólinu hjá honum. Úff, ég vil ekki einu sinni hugsa um hvað hefði gerst ef ég hefði lent í hliðinni á honum! Ég náði svo að stoppa þónokkrum metrum lengra og hljóp tilbaka og athugaði hvort allt væri í lagi með karlgreyið. Honum var mest brugðið en að öðru leyti í góðu ástandi og hafði sjálfur áhyggjur af því hvort ég hefði meiðst. Hann sagðist hafa séð mig en fattaði bara ekki hvað ég var á miklum hraða og hélt því að hann kæmist á milli mín og bílsins. Við lofuðum hvort öðru að fara varlegar héðan í frá og héldum svo bæði áfram á okkar leið.

Annars þá er það helst að frétta að B.Sc. verkefnið gengur rosalega vel og vinnunni við það fer að ljúka, enda önnin að verða búin og próflestur að nálgast. Ég er búin að fá fullt af spennandi niðurstöðum, sem leiðbeinandinn minn ætlar að nota í vísindagrein, sem ég auðvitað verð meðhöfundur að.

maj 02, 2005
 
Sumarið er aaaaallllveg að koma!

Ég vaknaði í nótt við fyrsta þrumuveður ársins, en það má teljast gott merki um að sumarið sé á næsta leiti. Það var eitthvað um fjögurleytið sem ég vaknaði og skildi ekkert í hvaða læti þetta voru, en grunaði að þetta gætu verið þrumur. Svo þegar það kom elding, sem lýsti upp hjá mér íbúðina var ég ekki í neinum vafa lengur. Ég sá síðan í veðurfréttunum í morgun að það er mikill hiti í Þýskalandi (25-28°C) og þaðan kemur svo þrumuveðrið til okkar hér í Mörkinni, en við fáum þó ekki enn að njóta meira en 15-18°C hita.

Það er spurning hvort maður eigi ekki að fara að pakka hlýju peysunum niður og draga fram sumarfötin, svona fyrst sumarið er nú aaallveg að koma ;-)