Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

juni 21, 2005
 
Sumarfrí !!!

Ég hef ekkert skrifað að undanförnu af því að tölvan mín er eitthvað lasin! Veit ekki alveg hvað er að henni en hún er alltaf að frjósa og því ekkert hægt að gera í henni. Ég ætla að taka hana með til Íslands á morgun og leyfa bróður mínum að finna út úr þessu.

Var að koma úr fysiologi prófinu sem gekk bara mjög vel og ég fékk 10. Reyndar dró ég frekar leiðinlegt efni en náði að gera það besta úr því og fá hæstu einkunn dagsins. Af 8 manns náðu bara 3, á meðan 2 féllu og 3 mættu ekki. Frekar léleg statistik það!

Annars þá er bara málið að koma sér heim og fara að þrífa íbúðina mína og pakka niður áður en ég fer til Íslands á morgun. Svo er á dagskránni að skreppa í bæinn í kvöld og fá sér einn øllara í tilefni próflokanna. Sem sagt nóg að gera !

Kveðja úr sumarblíðunni í Mörkinni !

juni 16, 2005
 
Öll familían !

Það er ekki á hverjum degi sem öll fjölskyldan mín er samankomin en í næstu viku mun það gerast. Fyrir utan jólin í fyrra og árið þar á undan hefur í mörg ár alltaf vantað amk einn úr fjölskyldunni af því að viðkomandi hefur verið erlendis. Kannski ekki skrýtið þegar tveir búa erlendis og einn vinnur erlendis þó hann búi á Íslandi. Núna er ég hins vegar að fara að skreppa heim í 10 daga og það vill svo til að pabbi er að koma heim af sjónum og svo var Elli bróðir að ákveða að skella sér líka á sama tíma og ég verð þarna heima. Elli er reyndar svo sniðugur að hann fer sama dag og ég, bara um hádegisleytið á meðan ég fer klukkan ellefu um kvöldið. Það verða því farnar tvær ferðir til Keflavíkur þennan daginn. Svo fer hann út degi fyrr en ég. Samstillt systkini, hmm!

Það verður gaman að hafa alla fjölskylduna saman en kannski pínu óhentugt ef allir þurfa að nota bílinn á sama tíma.

juni 14, 2005
 
Frábært veður í Mörkinni !

Loksins kom sumarið aftur til okkar í Odense. Síðan það voru tveir dagar í byrjun júní með hitastigi um 30°C hefur mér fundist vera kalt þó hitinn hafi verið milli 15 og 20°C nánast alveg síðan. Í dag náði hitinn svo yfir 20°C þannig að kuldaskræfan ég gat farið út að lesa í sólinni. Núna eru grasfrjókornin að ná hámarki þannig að það var ákveðin áhætta fyrir ofnæmissjúklinginn að fara út í garð að lesa, en ég hafði nú tekið ofnæmislyfin og vonaði það besta. Ég fann nú alveg fyrir frjókornunum þó að ég væri á lyfjunum. Þau byrjuðu svona aðeins að skríða upp í nefið á mér þannig að ég stíflaðist aðeins upp og hnerraði nokkrum sinnum og klæjaði pínu í augun. En þetta var samt ekkert miðað við í fyrra þegar ég fékk ofnæmið í fyrsta sinn og hafði engin lyf, en var samt að reyna að sitja úti í garði í góða veðrinu. Ég gerði það samt ekki nema einu sinni og hélt það bara út í 10 mínútur og svo var mér refsað illilega fyrir það næstu dagana á eftir. Núna er þetta hins vegar bara allt annað líf og ég sat úti í nokkra tíma í dag og finn ekki fyrir neinu núna. Mér tókst meira að segja að fá smá lit :-), ekki veitir af þar sem ég er að koma til Íslands í næstu viku og þegar maður kemur svona frá "útlandinu" er alltaf ætlast til að maður sé svolítið brúnn.

Og það verður frábært veður áfram, meira að segja enn betra um helgina => Kíkja hér ;-)

juni 12, 2005
 
Próflestrarleiði ...

...úff, tekur þetta aldrei enda? Ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hægt þegar maður er í prófum. Kannski af því að það er alltaf að fara að gerast eitthvað skemmtilegt þegar þeim loksins lýkur og maður því fullur tilhlökkunnar yfir því. Það er bara eins og tíminn líði ekki neitt þegar maður er í próflestri en samt þegar maður lítur tilbaka og hugsar um allar prófatarnirnar sem maður hefur farið í í gegum tíðina þá hefur þetta alltaf liðið á endanum og ekki verið svo mikið mál. Maður heldur sér á lífi með því að hugsa um allt það skemmtilega sem maður fer að gera þegar þetta er yfirstaðið, en tíminn líður bara svoooooo hægt!!!

Jæja, ég get samt glaðst yfir því að þegar þetta próf er yfirstaðið er heilt ár þar til ég fer aftur í próf (engin próf í janúar, híhí) :-) og það verða síðustu prófin í náminu fyrir utan masters - og doktorsvörnina.

ps. Hva, engin stemming fyrir S-partýi 24/25 júní? Reyndar var ég að frétta að það yrði útskrifað úr HÍ einmitt þessa helgi og þá kannski ekkert undarlegt að það sé ekki stemming fyrir S-partýi. Jæja, ég held þá bara hörku S-partý í janúar (ef ég slysast til að koma á Klakann) þar sem ég er nú ekki að fara í nein próf þá ;-)

juni 10, 2005
 
S-Partý ???

Nú styttist í að maður komist loksins í prófið sem maður er búinn að vera að lesa fyrir í alltof langan tíma og samtímis styttist í að maður fari "heim" á Klaka. Ég fór þess vegna að velta því fyrir mér hvort ekki væri einhver sem hefði möguleika á að halda S-Partý núna á næstunni, eða nánar tiltekið 24/25 júní? Mig langar svo rosalega að vera með ef haldið verður S-Partý í sumar og þar sem ég stoppa stutt þetta árið eða bara í 10 daga er ekki um margar dagsetningar að ræða. Einn möguleiki er auðvitað að halda partýið sjálf, því þá er maður öruggur um að geta verið með. Ég er nú búin að íhuga þennan möguleika, en þá þarf ég að biðja brósa að lána mér íbúðina sína aftur eins og ég gerði í fyrra þegar ég einmitt hélt S-Partý sjálf til að tryggja að ég gæti verið með ;-) Það gekk nú svosem vel og ekkert amaði að íbúðinni, nema að ég hafði lokað hurðinni inn í svefnherbergi bróður míns stuttu áður en hann kom til að skutla mér niður í bæ og af því að hurðin óvart fór í lás hélt hann að einhverjir væru þarna inni (í rúminu hans !!!) Ég reyndi að segja honum að ég hefði lokað herberginu en hann varð samt ekki rólegur fyrr en okkur tókst að opna dyrnar og hann sá að enginn var þarna inni.

En hvað segiði S-arar??? Einhver til í að halda partý 24/25 júní???

juni 06, 2005
 
OOOooohhh, nei...

...ég trúði varla mínum eigin eyrum á sunnudagsmorguninn kl. 11 þegar ég heyrði kunnuglega dynki koma frá íbúðinni fyrir ofan mig. Haldiði ekki að gellan sé búin að draga fram hlaupabrettið á ný! Ég hef ekkert heyrt hana hlaupa síðan í prófunum í janúar, þannig að þetta er greinilega eitthvað sem hún gerir bara í prófum. Æ, ég skildi það svosem alveg í kuldanum í janúar, en núna getur hún sko bara farið út að hlaupa og hætt að hrella mig og Önnu vinkonu, sem býr við hliðina á henni.

Ég heyri samt bara þegar hún er að byrja að hlaupa því svo finn ég mér eyrnatappa og hverf inn heim lífeðlisfræðinnar, án nokkurrar utanaðkomandi truflunar.

Annars gengur allt vel og í dag var ég að klára að lesa allt um reproduktion. Jii, það liggur við að maður hafi verið farinn að plana barneignir á meðan maður var að lesa þetta! Það er ágætt að ég er búin með það og er byrjuð að lesa um nýrun. Þá get ég bara hugsað um hvort tími sé kominn til að fara að tæma blöðruna í staðinn.

juni 05, 2005
 
Star Wars !

Skrapp bíó með Önnu vinkonu í kvöld á Star Wars, Episode III. Ég verð nú bara að segja að mér fannst hún frábær, en alveg hrikalega sorgleg. Maður vissi svosem alveg hvernig hún myndi enda, en ég gat samt ekki annað en reynt að halda í vonina um "Happy Ending". Jæja, maður ætti kannski ekki að vera að tala alltof mikið um sjálfa myndina, ef einhver skyldi ekki vera búinn að sjá hana ennþá.

juni 04, 2005
 
Eydes Kælder

Vinkona mín frá Esbjerg var að hringja, því hún og maðurinn hennar eru að koma og heimsækja mig og við ætlum á Eydes að hlusta á tónlist. Hún hefur aldrei komið í heimsókn síðan ég flutti í fínu íbúðina mína á Pjentedam, þannig að nú fær hún að sjá. Úff, heppni að það var ekki allt í rusli þegar maður fær svona stuttan fyrirvara!

Æ, það er gott að fá vini sem maður sér sjaldan í heimsókn og komast aðeins út frá próflestrinum !

juni 03, 2005
 
Mechanism of Divergent Growth Factor Effects
in Mesenchymal Stem Cell Differentiation


Þá er búið að birta greinina í Science, sem tveir úr KMEB rannsóknahópnum mínum eru meðhöfundar að (merkt með 2 í greininni). Ég var rétt í þessu að prenta hana út og get ekki beðið eftir að lesa hana í smáatriðum. Nú veit ég þá hvað kvöldið fer í hjá mér. Ég hlakka til þegar fyrsta greinin með nafninu mínu birtist og ef marka má leiðbeinandann minn þá er ekki svo langt í það, því niðurstöðurnar úr B.Sc. verkefninu mínu ásamt efni sem hann hefur unnið að verður gefið út í lok sumars eða í haust. Hver veit, kannski að greinin komist í Science? Tja, það er nú engin ástæða til að byrja á toppnum!

juni 01, 2005
 
Frábær dagur á Romsø

Ég komst reyndar að því að ég er hrikalega léleg í að slá tennisbolta með hafnaboltakylfu, en ég var mun betri til að hlaupa á milli hafna. Við spiluðum sem sagt hafnabolta í dag, eða rundbold, sem það heitir á dönsku. Við nemarnir, BSc, MSc og PhD, spiluðum á móti post.doc'unum og yfirmönnunum og unnum, þannig að við sluppum við að vaska upp eftir morgunmatinn. Svo löbbuðum við líka í kringum eyjuna og gerðum varðeld og grilluðum. Allt í allt frábær dagur.

Tölvuvesen

Dagurinn var ekki bara góður, því þegar ég kom heim fór elsku besta tölvan mín að stríða mér, svo ég var farin að hafa áhyggjur af því að hún væri að gefa upp öndina. Hrikalegt því ég get ekki án tölvunnar minnar verið. Reyndar er hún búin að vera skrýtin undanfarnar vikur, alltaf að frjósa, sem er auðvitað mjög þreytandi. Í kvöld var hún hins vegar alveg ónýt og fraus í hvert sinn sem ég kveikti á henni, eftir aðeins eina til tvær mínútur. Stundum gat ég ekki einu sinni kveikt á henni. Ég talaði því við bróðir minn, sem er búsettur á Íslandi og hann hjálpaði mér með að eyða nokkrum forritum og breyta uppsetningunni þannig að tölvan sé ekki að starta fullt af forritum upp þegar hún kveikir á sér. Eftir að við gerðum það hefur hún virkað vel (7-9-13), og ég vona að nú verði hún ekki alltaf að frjósa. Brósi ætlar svo að kíkja aðeins betur á hana þegar ég kem til Íslands eftir nákvæmlega 3 vikur, svo við vonum að hún þrauki amk þangað til.