Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

august 16, 2005
 
Egyptaland og Amsterdam!

Í fyrramálið klukkan 6.00 er loksins komið að því! Ég og Elli bróðir leggjum af stað til Egyptalands með eins dags stoppi í Amsterdam. Í 14 daga munum við gera lítið annað en að kafa og slappa af í sólinni. Við munum taka helling af myndum og nokkrar þeirra munu vafalítið birtast hér á síðunni eftir að við komum heim.

Það verður gott að komast í hitann og sólina og ég hlakka til að hitta alla vini mína í Rauða Hafinu, þ.á.m. hann hér (ýta á myndina til að stækka hana)...


august 15, 2005
 
Helgin

Ég skrapp til Esbjerg um helgina til að ná í kafaragræjurnar mínar og taka þær með til Odense. Þar að auki fór ég í sumargarðpartý til fyrrverandi vinnufélaga og vinkonu í Esbjerg. Þetta var ekkert smá partý og það var hreinlega allt til alls. Já, ég meina það var nóg matur fyrir alla þ.e.a.s. foréttur, aðalréttur og eftirréttur, bjór og gos eins og fólk gat í sig látið, snaps og sterkt vín, kaffi og kökur og meira að segja flugeldar. Og svo var líka live tónlist. Ég var mætt rétt eftir og hádegið og var með þeim síðustu til að láta mig hverfa um þrjúleytið um nóttina. Stuttu eftir að ég kom til Odense í dag hitti ég þrjá af nágrönnum mínum hér á annarri hæðinni á Pjentedamkollegíinu og við héldum upp á 30 ára afmæli eins nágrannans. Planið var bara að fá sér köku saman og borða saman en þetta endaði með að við opnuðum hverja rauðvínsflöskuna á eftir annarri og ég var að koma heim núna rétt í þessu. Úps, er klukkan orðin tvö!!! Ég hringdi svo í mömmu og pabba, en þau eru á leið til Rómar í fyrramálið og núna er ég bara á leiðinni í rúmið.

august 11, 2005
 
Doktorinn innan seilingar ...

Ég skrapp út í skóla í dag og rakst þar á ritarann fyrir lífefna- og sameindalíffræðideildina við SDU. Við erum farnar að þekkjast ágætlega, sérstaklega eftir að ég var ráðin sem kennari á komandi önn. Við spjölluðum í smá stund og ræddum m.a. framtíðaráform mín. Þá sagði hún mér að þar sem mér gengi svo vel í náminu ætti ég að sækja um styrk til doktorsnáms frá og með næsta ári, þ.e.a.s. sleppa mastersverkefninu og gera fjögurra ára doktorsverkefni í staðinn. Náttúrufræðideild Háskólans veitir á hverju ári 1-2 styrki til svoleiðis náms, þannig að maður þarf virkilega að skara framúr til að fá einn þeirra. Hún sagði mér að ég stæði mjög sterkt til að fá svoleiðis styrk og hvatti mig til að sækja um, enda væri búið að taka eftir mér og fylgst með mér innan deildarinnar :-) Hehe, maður bara orðinn frægur! Þessir styrkir hafa reyndar alltaf verið veittir innan náttúrufræðideildarinnar, en stofnfrumurannsóknahópurinn sem ég gerði B.Sc. verkefnið hjá og er ákveðin í að gera masters- og doktorsverkefni hjá, tilheyrir sjúkrahúsinu, þ.e.a.s heilbrigðisvísindadeild. Námið mitt er samt boðið í samvinnu milli beggja þessara deilda og því ætti ég að geta sótt um þó að ég ætli að gera verkefnið hjá stofnfrumurannsóknahópnum, en ef ég fengi styrkinn yrði það í fyrsta sinn sem hann yrði veittur út fyrir náttúrufræðideildina á SDU.

Ég minntist á þetta við leiðbeinandann minn hjá stofnfrumurannsóknahópnum í dag og honum leist rosalega vel á þetta og ætlar að styðja mig heilshugar. Þannig að um leið og ég er búin að skila B.Sc. verkefninu förum við í sameiningu að huga að verkefni, sem gæti haldið mér uptekinni í fjögur ár og gefið nóg af niðurstöðum sem hægt væri að birta í vísindaritum.

Jiii, það yrði samt skrítið að geta kallað sig doktorsnema strax á næsta ári !!!

august 10, 2005
 
Skyr

Þegar Baldur kom til mín um daginn spurði hann hvort mig langaði í eitthvað frá Íslandi og ég bað hann að koma með skyr. Ekkert íslenskt nammi fyrir mig, bara skyr! Ummmm, ég er einmitt að njóta þess núna ...

.., namminamm!

Takk, Baldur minn ;-)

august 08, 2005
 
Eru þeir ekki sætir?

Ég fór á markaðinn á laugardaginn og keypti fullt af grænmeti og ávöxtum, eins og ég geri flesta laugardaga. Að auki keypti ég þessa litlu sætu fugla og setti hjá fínu trjáplöntunni minni, sem stendur fyrir utan hjá mér. Eru þeir ekki krúttulegir? (p.s. hægt er að ýta á myndina til að stækka hana)



august 07, 2005
 
Brosið í Kömbunum!

Ha, ha, ha, hverjum skyldi hafa dottið þetta í hug? Eitt er samt að fá hugmyndina, annað er að framkvæma hana! Mér finnst þetta hins vegar alveg frábært, nema ef fólk verður svo upptekið af að glápa á þetta að það keyrir út af.

Til hamingju með daginn Júlía mín!

Múttan hans Baldurs á afmæli í dag og fær innilegar afmæliskveðjur héðan úr Mörkinni.

august 05, 2005
 
En hvað þetta passar vel!

Elli bróðir var að senda mér þetta og ég er ekki frá því að það sé rétt hjá honum að ég hafi alltaf verið og sé enn alveg típísk meyja.

Litla Meyjan er samviskusamt, duglegt og líflegt barn. Hún er athugul og
eftirtektarsöm og fljót að læra. Meyjan er jarðbundin og skynsöm og hefur
ríka tjáningarþörf. Hún er forvitin og spyr um allt mögulegt, niður í
minnstu smáatriði. Hún er iðjusöm og þarf að hreyfa sig töluvert og hafa
nóg fyrir stafni. Kyrrstaða og skortur á viðfangsefnum skapar óróa og
eirðarleysi. Meyjan er merki vinnu, þjónustu og hjálpsemi.


He, he, já svona var ég sem barn og hef lítið breyst!

Það sem helst getur háð litlu Meyjunni er alvörugefni sem getur leitt af
sér áhyggjur. Meyjan er vandvirk í eðli sínu og hefur sterka
fullkomnunarþörf, sem veldur því að hún á til að gera sér verk erfið og
halda að það sem hún ætlar að gera eða er búin að gera sé ekki nógu gott.


Já, ég veit að ég er svona en ég get bara ekki að því gert.

Það gleymist oft þegar fjallað er um Meyjuna að Merkúr sem stjórnar hugsun
og taugakerfi er pláneta merkisins. Hið jákvæða við þetta er að Meyjan er
athugul og vel gefin og staðreyndin er sú að margar Meyjar leggja fyrir
sig fræðistörf, rannsóknir, tungumálanám eða vísindastörf á
fullorðinsárum.


He, he, gæti varla passað betur, enda er ég á fullu kafi í rannsóknum og á leið í vísindastörf að loknu námi. Svo eru það tungumálin, en ég hef einmitt mikinn áhuga á þeim og tala reiprennandi þýsku og dönsku eftir að hafa búið í löndum þar sem þessi mál eru töluð. Á rannóknastofunni fer allt fram á ensku og er maður því farinn að tala hana mjög vel líka.

Næmt taugakerfi stuðlar að skýrri hugsun og þörf fyrir hreyfanleika. Á
móti kemur að þegar litla Meyjan er þreytt, þá verður hún óróleg og
taugaveikluð, og þá fer skipulagið úr böndunum.


Já, já þetta hefur ekkert breyst.

Meyjunni gengur yfirleitt vel í skóla og hún á sjaldan í vandræðum á því
sviði. Hún er forvitin, hefur rökfasta og skipulagða hugsun og er fljót að
hagnýta sér það sem hún lærir. Hún er einnig samviskusöm og sinnir því
náminu yfirleitt vel.


Hmm, já ég get nú ekki annað en viðurkennt að þetta er alveg hárrétt.

august 04, 2005
 
Grasekkja á ný

Þá er Baldur aftur farinn á Klakann og ég er ein eftir í Mörkinni. Nú þarf maður bara að einbeita sér að B.Sc. verkefninu í eina og hálfa viku og svo er komið að langþráðri og margumtalaðri Egyptalandsferð með viðkomu í Amsterdam.

Það fer nú eitthvað lítið fyrir sumrinu hér í Mörkinni og liggur við að veðrið minni einna helst á haustveður. Maður getur varla beðið eftir að komast í hitann og sólina í stóra sandkassanum í Afríku.

august 03, 2005
 
Út að borða...

...á Eydes Kælder! Baldur er í nokkurra daga heimsókn hjá mér í Odense og við tökum lífinu því bara með ró þessa dagana. Núna erum við hins vegar í óða önn að hafa okkur til því við erum að fara út að borða á Eydes Kælder, sem er eitt af mínum uppáhalds veitingahúsum.

Nammi, namm, ég get varla beðið!

Af Egyptalandsferðamálum er það að frétta að allt er komið á hreint! Við Elli förum til Amsterdam og verðum þar einn dag og eina nótt áður en við höldum til Egyptalands og meira að segja alla leið til Marsa Alam flugvallar, sem liggur rétt hjá kafarabúðunum í Marsa Shagra. Við sleppum sem sagt næstum því alveg við að þurfa að keyra með Egyptunum, sem er fínt því þeir keyra eins og bavíanar með báðar hendur brotnar og maður er á hverri stundu skíthræddur um að vera að upplifa sitt síðasta.