Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

november 30, 2005
 
Heimsókn!

Hún Sigga systir hans Baldurs er að koma að heimsækja okkur í kvöld. Á ég kannski að fara að kalla hana Siggu mágkonu? Hehehe, það hljómar einhvern veginn eins og við séum orðnar svo gamlar, af því að ég hef alltaf verið vön því að konurnar sem mamma hefur kallað mágkonur sínar hafa verið frekar gamlar (enda er ég yngsta barnið hennar mömmu og hún er næstyngst í sínum systkinaflokk). Það er nú ekki svo langt síðan við Sigga vorum saman i leikfimi í MR hjá Rögnu Láru að hlusta á predikun um mikilvægi grindarbotnsæfinga. Ekki svo langt, segi ég, þó að það séu fjögur og hálft ár síðan við útskrifuðumst. Hmm, já, svona líður nú tíminn hratt!

En, það verður nú gaman fyrir okkur Baldur að fá hana Siggu í heimsókn og við eigum örugglega eftir að finna upp á einhverju skemmtilegu að gera öll saman.

november 29, 2005
 
Jólin nálgast...

Ég fór i klippingu í dag, aðeins að gera mig fína fyrir jólin :-) Það var aldeilis kominn tími til, þar sem hárið á mér var orðið frekar þreytt, litlaust og slitið. En núna er það orðið miklu flottara, og ég er bara rosa sátt við útkomuna.

Annars þá eru jólin að nálgast og maður finnur betur og betur fyrir því. Það verður kaldara og kaldara með hverjum deginum og svo eru jólaljósin farin að koma út um allt. Úff, ég er ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf! Mér liggur svosem ekkert á að kaupa jólagjafirnar sem ég tek með mér til Íslands (get alltaf reddað því í fríhöfninni, hmhmm), en ég þarf að fara að kaupa eitthvað handa fjölskyldunni minni í Austurríki. Já, þó að það séu 9 ár síðan ég var skiptinemi í Austurríki er ég enn í mjög góðu sambandi við fjölskylduna. Það var auðvelt að senda krökkunum tveimur pakka þegar þau voru lítil en nú eru þau orðin 11 og 12 ára og því miklu erfiðara að finna eitthvað fyrir þau. Nú, þetta þarf líka helst að vera létt og svo vil ég helst gefa þeim báðum svipaðar gjafir og það gerir málið svolítið flóknara þar sem þetta eru strákur og stelpa. Jæja, ég hlýt að finna eitthvað sniðugt handa þeim eins og ég hef gert öll hin árin.

november 26, 2005
 
Annar julefrokostinn árið 2005

Það var julefrokost hjá Cellebiologisk Forening Odense (CFO) í gærkvöldi og að sjálfsögðuu var ég á svæðinu, þar sem ég er búin að vera í stjórn CFO síðasta árið og er búin að eignast marga góða vini þar. Fyrir julefrokostinn var generalforsamling og notaði ég þá tækifærið og sagði mig úr stjóninni, því það á eftir að vera mikið að gera næsta árið og því ágætt að minnka aðeins við sig.

Nú er farið að styttast í að ég fari að kenna í Háskólanum, rétt rúm vika í fyrstu tímana. Ég finn alveg fyrir svolitlu stressi en ég er líka farin að hlakka heilmikið til. Ég er samt búin að undirbúa mig vel og því ætti ekkert að geta klikkað!

Þó að það sé nú alveg nóg að gera hjá mér alla daga, þá er ég búin að taka að mér að kenna stelpu í efsta bekk í menntaskóla efnafræði. Þetta er ekki bara einhver stelpa heldur dóttir yfirlæknisins og yfirmanns rannsóknahópsins sem ég gerði B.Sc. verkefni hjá og er að fara að gera Master/PhD verkefni hjá næsta haust. Það er því eins gott að fara að dusta rykið af efnafræðinni (hef ekki verið í neinni efnafræði síðan á 3. önn, þ.e. fyrir 2 árum).

november 22, 2005
 
Jólastjarna

Nú er ekki nema rúmlega mánuður í jólin og fyrsti í aðventu á næstkomandi sunnudag. Því fer alveg að verða leyfilegt að byrja að setja upp jólaskrautið, tja amk um næstu helgi. En það er allavegana planið hjá mér að ger svolítið jólalegt hjá mér um næstu helgi. Ekki veitir af til að komast í svolítið jólaskap, því ekki er veðrið til þess (meira haustlegt en jólalegt). Ég þjófstartaði þó pínulítið í gær, þegar ég gat ekki staðist að kaupa mér eitt stykki jólastjörnu, af því hún var svo flott. Það má því segja að inni hjá mér sé komið eitt merki um að jólin séu að koma.

november 21, 2005
 
Helgin

Helgin var bara fín en leið kannski aðeins of hratt eins og svo oft áður. Julefrokostinn á föstudagskvöldið var alveg frábær og fólkið úr rannsóknahópnum var í miklu stuði. Mikið fjör var í kringum pakkaleikinn og gaman að sjá fullorðið fólk svona spennt fyrir pökkunum og skemmta sér við að stela þeim hvert frá öðru. Annars var fundið upp á ýmsu til að skemmta sér sem best, svo sem farið í fótboltaspil, teinkileik og karókí.

Já, núna er jólavertíðin í alvöru að byrja, þegar maður er farinn að fara í julefrokost um hverja helgi og svo eru jólaljósin að byrja að koma í miðbænum. Og bara rétt rúmur mánuður í að maður komi í jólafrí á Klakann.

november 18, 2005
 
Fyrsti julefrokostinn árið 2005

Er í óðaönn að gera mig klára fyrir julefrokost hjá KMEB rannsóknahópnum. Þetta verður alveg traditionel dansk julefrokost, sem sagt med frikadellum, síld og aðvitað Álaborgar ákavíti. Það er reyndar eins gott að halda aðeins aftur af sér í snapsdrykkjunni í kvöld, þar sem yfirmennirnir verða á svæðinu, og ég er jú búin að plata þá til að styrkja mig í að gera PhD verkefni hjá hópnum. Jæja, best að halda áfram að gera sig klára...

...óska ykkur öllum góðs flöskudagskvölds!

november 15, 2005
 
Valgdag

Já, það er spurning hvort maður eigi að skreppa og kjósa í byrådet hér í Odense, en kjörstaðir eru opnir í rúman klukkutíma í viðbót. Ég hef lítið fylgst með kosningabaráttunni, fyrir utan að ég er búin að sjá andlitið á örugglega öllum frambjóðendunum oft og mörgum sinnum, enda hanga myndir af þeim á öllum ljósastaurum borgarinnar meðfram hjólabrautunum. Núverandi borgarstjóri í Odense heitir Boye og líklega mun borgarstjórinn heita það áfram þar sem helsti andstæðingur núverandi borgarstjóra heitir líka Boye, sem sagt Boye vs. Boye (ekki spyrja hvort þeir séu skyldir, þeir þurfa ekkert endilega að vera það þar sem Boye er frekar algengt eftirnafn hér á Fyn!). Annars þá fannst mér mest fyndið að einn frambjóðandinn heitir Bozo. Ansi skemmtilegt nafn, sem myndi sóma sér vel á borgarsrjóranum í Odense.

november 13, 2005
 
Sæl Gunnhildur!

Dönsk vinkona mín var að segja mér að hún hefði hringt í mig um daginn. Hún var ekki með númerið mitt og því fór hún á www.krak.dk og leitaði að 'Gunnhildur' í 'Odense'. Nú, hún fann þarna símanúmer hjá Gunnhildi sem hún svo hringdi í. Það er kannski vissara að segja frá því að þessi vinkona mín getur talað svolítið mikið og þegar svaraði spurði hún hvort þetta væri ekki Gunnhildur, og jújú þetta var hún, og svo byrjaði hún annars bara að tala. Henni fannst samt röddin í mér svolítið skrítin og svo þegar hún fór að tala um hluti eins og CFO (cellebiologisk Forening Odense) og námið kom Gunnhildur alveg af fjöllum. Fattaði vinkona mín þá að hún hafði hringt í ranga manneskju. Hún hafði auðvitað ekkert pælt í eftirnafninu og datt ekki í hug að það væri önnur Gunnhildur en ég hér í Odense.
Ég var að kíkja á Krak núna áðan og sá þá að við erum tvær með nafnið Gunnhildur hér í Odense, en hin er Guðnadóttir og býr á Hans Tausens gade, sem sagt rétt hjá mér. Kannski hittir maður þessa Gunnhildi á Þorrablótinu, það er nú ekki svo oft sem maður hittir nöfnu sína, amk ekki hér í Mörkinni.

Heimsóknir á bloggið

Ég var að skoða hvaðan þeir koma sem skoða síðuna mína og kom það mér ekkert á óvart að flestir sem kíkja hér við búa í Danmörku og næstflestir á Íslandi. Gaman samt að sjá að fólk virðist líka flækjast inn á síðuna frá Slóvakíu, Hollandi, Frakklandi og Færeyjum.


november 08, 2005
 
Ljósmyndafyrirsæta ...

... í spinningtíma! Það kom ljósmydari í spinnigtíma áðan til að taka myndir fyrir heimasíðu ræktarinnar og eitthvað dagatal. Maður pældi auðvitað ekkert í ljósmyndaranum og hjólaði bara eins og maður er vanur, sem sagt af nógu miklum krafti til að maður yrði fljótlega vel sveittur. Það vill til að það voru frekar margir í tímanum í dag þannig að maður sleppur kannski við að vera á alltof mörgum myndum. En það verður gaman að sjá!

november 06, 2005
 
Frábær ferð í höfuðborgina!

Sálin stóð fyrir sínu á tónleikunum í VEGA í gær og við skemmtum okkur rosalega vel. Við lentum að vísu í smá ævintýri á leiðinni til København, enda er aldrei hægt að treysta DSB og vissara að vera alltaf snemma á ferðinni. Ferðin gekk vel til Høje Taastrup, en þar fengum við að vita að sökum þess að flutningalest stæði á teinunum og vildi ekki færa sig þá myndi lestin ekki geta haldið áfram til Hovedbanegården. Þurftu þá allir að fara út og taka S-toget áfram inn í Køben. Þegar við loksins komumst á leiðarenda fór Baldur að hitta vin sinn á meðan ég og Vigdís skruppum á mexíkanskan veitingastað og fengum okkur í svanginn áður en við löbbuðum á VEGA og hittum Baldur þar.

Eins og segir hér að ofan voru þeir Sálarmenn bara hressir og áhorfendur voru í góðum gír og sungu hástöfum með öllum lögunum. Við Danmerkurbúar áttum að vísu í smá erfiðleikum með að syngja með nýjustu lögunum en sungum bara þeim mun hærra með gömlu góðu smellunum. Þarna voru samankomnir um 1200 Íslendingar, frá Danmörku, Íslandi og meira að segja Ungverjalandi. Já, haldiði að maður hafi ekki rekist á Gertann, sem var þarna með nokkrum félögum í helgarferð. Þar fyrir utan hitti ég fullt af fólki sem ég hef ekki séð lengi og komst að því að sumir þeirra eru fluttir í Mörkina, en að auki sá ég fullt af kunnuglegum andlitum.

Tónleikunum lauk klukkan þrjú og færðum við okkur þá yfir á næsta bar og sátum þar í smá stund og fórum svo og fengum okkur shawarma á Istedgade og röltum svo upp á Hovedbanen og biðum eftir lestinni sem fór kl 06.00. Vorum við því komin til Odense kl 7.30 og hefur dagurinn í dag því mestmegnis farið í svefn.

november 05, 2005
 
Sálin hans Jóns míns ...

í kvöld í VEGA! Ég, Baldur og Vigdís ætlum að skella okkur með lestinni til Køben á Sálarball og það verður án efa mikið fjör. Við tökum svo bara fyrstu lest heim til Odense í nótt (fer reyndar ekki fyrr en klukkan 6, þannig að við verðum bara að halda áfram að djamma eftir ballið). Ég frétti í gær að það væri uppselt og að það kæmi hellingur af fólki frá Klakanum. Maður skyldi þó aldrei rekast á einhvern sem maður þekkir?

november 04, 2005
 
Þreyta!

Ég er svo þreytt þessa dagana, kemst varla framúr á morgnana og er svo alveg búin klukkan tíu á kvöldin. Það er kannski ekkert við því að segja þar sem það er mjög mikið að gera í skólanum þessa dagana, þ.e. mikið af tímum og mikið að lesa, og svo er svo margt annað sem ég þarf að hugsa um, s.s. umsóknin um doktorsstyrkinn og undirbúningurinn fyrir tímana sem ég er að fara að kenna í Háskólanum. En ég er bara svo þreytt að mig langar að fara að sofa og vakna ekki fyrr en um miðjan desember þegar öll helstu verkefnin eru yfirstaðin og bara jólafrí framundan.

En það þýðir víst ekkert að vera að væla þetta og líklega bara best að taka einn dag í einu og þá verður allt í einu allt yfirstaðið og komið jólafrí. Eitt merki um það að jólin eru farin að nálgast er að í dag er J-dag , þ.e.a.s. dagurinn sem Tuborg Julebryg kemur. Já, í kvöld klukkan 20.59 kemur hann!

Sne-baj`re kommer vrimlende, henover barer trimlende !!!


Hahahahahaha

Það mátti reyna! Kíkja hér!