Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

december 30, 2005
 
Gleðileg jól

Það er nú liðin heil vika síðan við Baldur komum til Íslands og kominn tími til að skella inn stuttri færslu. Reyndar er ég alltaf mikið latari við að blogga þegar ég er ekki heima hjá mér í Odense, þannig að þið megið ekki búast við of miklu á næstunni en ég reyni nú samt að skrifa öðru hvoru svo það hætti ekki allir að lesa.

Þegar við Baldur lögðum af stað fyrir viku síðan vorum við snemma á ferðinni því við ætluðum ekki að eiga á hættu að lenda í veseni ef það skyldi verða seinkun á lestinni. Það er skemmst frá því að segja að allt gekk á réttum tíma og við þurftum hvergi að bíða. Vorum við því komin út á Kastrup löngu áður en við gátum tékkað inn og gátum því tekið öllu með ró. Þegar við höfðum tékkað inn og verslað í fríhöfninni og komnar voru upplýsingar um hlið vorum við farin að hlakka til að komast í loftið, enda búin að vera að hangsa í nokkuð langan tíma. Það fór nú ekki svo að við kæmumst í loftið á réttum tíma, því vegna "tæknilegra örðugleika" var óvíst með brottfarattíma. Eftir rúmlega klukkutíma bið kom í ljós að vélinni yrði ekki flogið til Íslands svo við þurftum að bíða í einn og hálfan tíma eftir annarri vél sem flytja átti okkur til Íslands. Flestir fóru þá aftur inn í fríhöfn en við Baldur tókum upp bjór (enda orðin svo miklir Danir!) og höfðum það huggulegt á meðan við biðum. Tíminn leið hratt og svo kom Sterling vél að sækja okkur. Þurftum við að færa okkur yfir í annað hlið og svo leið klukkutími áður en við komumst inn í vél. Við fréttum svo seinna að ástæðan fyrir öllu þessu veseni hafði verið sama bilunin í nefhjóli og ég skýrði frá hér á síðunni um daginn.

Jæja, við komumst nú samt heim á endanum og erum búin að hafa það gott um jólin. Ég er búin að vera mestmegnis í Sörlaskjólinu og í heimsóknum hjá ættingjum með mömmu, á meðan Baldur hefur verið í Garðabænum. Við erum nú samt búin að hittast og ætlum að gera meira af því á næstunni enda er Baldur að fara út til Odense á undan mér.

december 22, 2005
 
Handsprengja í Kongens Have

Þar sem ég sat hér heima fyrr í dag að pakka niður fyrir Íslandsferðina á morgun heyrði ég sprengingu. Ég kippti mér ekkert upp við það enda heyrast oft sprengingar þessa dagana þar sem einhverjir eru víst byrjaðir að selja flugelda hér í Odense. Ég heyrði svo í útvarpinu áðan að rétt eftir hádegið hefði fundist handsprengja í poka eða tösku í Kongens Have (sem er hérna rétt hjá mér!). Sagt var að löggan hefði rýmt svæðið og síðan sprengt handsprengjuna þannig að það hefur verið það sem ég heyrði. Hrikalegt að hugsa til þess að einhver hefði getað meiðst og þá jafnvel börn sem hefðu hæglega getað farið að fikta í þessu.

Jæja, Íslandsferð á morgun!

december 20, 2005
 
Hvað verður næst?

Það styttist nú í brottför okkar Baldurs á Klakann og langþráð jólafrí á Hótel Mömmu. Maður verður bara að vona að ferðin gangi áfallalaust fyrir sig, en það er hins vegar ekkert sjálfgefið að við verðum á réttum tíma! Á föstudaginn síðasta lögðu lestarstarfsmenn hjá DSB niður störf og í dag var eitthvað vesen hjá Iceland Express (sjá frétt hér!). Maður bara vonar að allt svona vesen verði gengið yfir á föstudaginn!

december 18, 2005
 
Alveg að koma jól!

Ég fór í síðasta julefrokostinn í gærkvöldi og er eiginlega bara fegin að þetta var sá síðasti enda er ég búin að fara í 6 julefrokosta síðustu 5 helgarnar. Það var annars rosa gaman í gær og kom ég því seint heim og er búin að vera þreytt og afkastalítil í dag. Ég held samt að þetta sé fyrsti dagurinn í mjög, mjög langan tíma sem ég eyði í að gera alls ekki neitt og ég held ég hafi bara alveg átt það skilið. Í gærdag var ég hins vegar í bænum að versla jólagjafir og er stefnan að halda áfram með það á morgun, þar sem ég á enn eftir að kaupa nokkrar gjafir.

En nú er aldeilis orðið stutt í að við komum á Klakann! Ekki nema 4 dagar og svo leggjum við af stað snemma á föstudagsmorguninn.

december 16, 2005
 
"Jólafrí"

Nú er ég búin að kenna alla 16 tímana mína á þessari önn og svo ætti ég að vera búin með alla tímana hjá mér sjálfri, þ.e.a.s. í mínu eigin námi, og því komin í jólafrí. Þessu er reyndar ekki alveg svo farið því einn læknirinn sem átti að kenna okkur í gær var veikur, og kemur því á mánudaginn í staðinn og svo var annar í síðustu viku sem gleymdi okkur og kemur því líka í næstu viku. Þannig að ég þarf að mæta tvo daga í næstu viku, í allt 4 tíma og svo er ég komin í jólafrí. Ég er líka að verða búin að vinna allt upp sem ég átti eftir í lyfjafræðinni (sökum anna vegna kennslunnar) og svo á ég bara eftir að vinna upp meinafræðina og gera verkefni (fordybelsesopgave), en þetta tek ég með mér til Íslands og geri þar, enda er ég ekki í neinum prófum og því í fríi allan janúar.

Það styttist í að við Baldur komum á Klakann, ekki nema vika. Ég er reyndar fegin að við áttum ekki að fljúga í dag, eins og Siggi vinur okkar, því starfsfólkið í lestunum gekk út um tíuleytið í morgun og allar lestarsamgöngur fóru í rugl. Baldur hringdi í mig og sagði mér að Siggi, sem býr í Álaborg væri strandaglópur hér í Odense, en verið var að koma fólkinu í leigubíla sem áttu að keyra það til Kastrup. Elli bróðir getur því verið feginn að hafa farið á Klakann í gær, enda þurfti hann að fara með lest frá Esbjerg til Kastrup!

december 13, 2005
 
Lasin

Ég er búin að vera kvefuð í margar vikur, en í fyrradag kom svo að því að ég fengi hita. Ég var eitthvað slöpp þegar ég vaknaði á sunnudaginn en ætlaði samt að fara með hinum að ná í afganga og þrífa eftir julefrokostinn sem við á kollegíinu héldum á laugardaginn. Ég varð hins vegar fljótlega verri og var alveg greinilega komin með hita þannig að ég varð bara eftir heima þegar hin fóru að laga til. Ég var ekkert sátt við að vera komin með hita, og var staðráðin í að ná mér á einum degi því á mánudagsmorguninn var ég að kenna minn næstsíðasta tvöfalda tíma í Háskólanum á þessari önn. Það kom ekki annað til greina en að mæta (enda bara vesen að þurfa að flytja tímann og leiðinlegt fyrir stúdentana). Mér leið nú ekkert alltof vel á mánudagsmorguninn og hefði eiginlega átt að hvíla mig áfram undir sænginni, en ég fór af stað og kenndi tímana, þrátt fyrir að röddin hafi ekki verið upp á sitt besta og nefið stíflað. Þar sem ég var nú komin af stað gat ég alveg farið í mína eigin tíma á sjúkrahúsinu þegar ég var búin að kenna, þannig að ég hjólaði þangað. Í gærkvöldi var ég hins vegar orðin slöpp aftur og skreið því undir teppi með tebolla. Í dag held ég barasta að ég hafi verið aðeins betri en ég var samt með pínu hita fyrripart dagsins. Það þýðir samt ekkert annað en að fara að ná sér núna enda er ég að fara að kenna síðustu tímana mína í fyrramálið og að fara í tíma sjálf eftir hádegið.

december 10, 2005
 
Hún á afmæli í dag...

...Já, hún á afmæli hún Sigga systir hans Baldurs og fær því innilegar hamingjuóskir og "knus & kram" héðan úr Mörkinni.

Annars þá er bara nóg að gera þessa helgina! Ég var í julefrokost með stelpunum sem ég er að læra með í gærkvöldi og svo er ég að fara í julefrokost með kollegíinu í kvöld. Reyndar þá er ég gjaldkeri hér á kollegíinu og því með í að gera klárt fyrir julefrokostinn í allan dag.
Ég borðaði alveg á mig gat af dönskum julefrokostmat í gær og sagan á líklega eftir að endurtaka sig í kvöld. Ummmm, frikadellur, fiskefiletter, steikt síld, leverpostej, rækjur og ribbensteg. Og svo er toppurinn auðvitað Ris a'la Mande í eftirrétt, namminamm! Mér hefur reyndar ekki enn tekist að fá möndlugjöfina, en ég reyni að bæta úr því í kvöld!

Hehehe, já þetta líst mér á!

december 08, 2005
 
Loksins, loksins!

Já, loksins fékk ég einkunnina fyrir B.Sc. verkefnið mitt, sem ég skilaði fyrir rúmum einum og hálfum mánuði, eftir að ég hafði beðið í tæpan mánuð eftir að mega skila af því að ég þurfti að sækja um að fá að breyta titlinum. Ég var sem sagt búin með verkefnið í lok september, en var fyrst að fá einkunnina mína í dag. Oooog ...

...ég fékk 11 og er því rosa ánægð!

Nú ætti því fljótlega að koma skjal í póstinum sem staðfestir að ég sé komin með B.Sc. gráðu í læknisfræðilegri sameinda- og frumulíffræði.

En núna er ég hálfnuð með kennsluna í lífeðlisfræði og líður samt eins og ég sé alveg að verða búin, enda er þetta bara orðin rútína núna og ég er lítið sem ekkert stressuð lengur. Í dag var aftur full stofa, um 30-40 manns, í tíma hjá mér og mér tókst ágætlega að fá fólk til að taka þátt (þó þau vilji helst ekki segja orð og bara skrifa niður sem mest). Mér tókst meira að segja að fá smá umræður í gang um eitt af verkefnunum sem ég hafði sett þeim fyrir, af því að það voru í raun og veru tvö rétt svör. Á morgun er ég svo að kenna tvo tvöfalda tíma í röð og er ég pínu að vona að það mæti bara allir í annan tvöfalda tímann og enginn í hinn. Hehehe, það verður bara svekkjandi ef það mæta örfáir í báða tímana.

december 07, 2005
 
Gengur bara vel!

Já, núna er ég búin að kenna heila þrjá tvöfalda tíma, sem sagt mánudag þriðjudag og í dag. Þetta hefur bara gengið svakalega vel, eiginlega framar vonum og hef ég verið að fíla mig ágætlega uppi við töfluna. Ég er búin að kenna það sama þessa þrjá daga og því hefur verið stígandi í þessu hjá mér, þ.e.a.s. klárlega betra í dag en á mánudaginn. Ég verð nú að viðurkenna að það var pínu hnútur í maganum á mér á mánudagsmorguninn kl. 8. Það voru mættir tæplega 20 stúdentar og allir frekar þreytulegir að sjá. Ég vissi ekkert hvernig þau myndi taka mér og leist nú alls ekkert á þetta (langaði mest að snúa við og fara bara heim að lúlla). En það var bara eitt að gera, þ.e.a.s. að koma sér í gang og sjá hvernig þetta færi allt saman. Smám saman varð þetta betra og betra hjá mér en ég talaði mikið og skrifaði mikið á töfluna og varð alveg hrikalega þurr í munninum. Ég kláraði hálfan lítra af vatni í fyrri tímanum, hálfan lítra í seinni tímanum og hálfan lítra í viðbót næsta klukkutíma á eftir og var enn þyrst.
Í gær voru mættir aðeins fleiri, en fólk var miklu meira lifandi og vingjarnlegra að sjá, enda byrjaði tíminn klukkan 10 og ekki klukkan 8. Í dag hins vegar mættu a.m.k. 40 manns í tímana hjá mér og var stofan nánast alveg full. Ég var samt í góðum gír, enda að kenna það sama í þriðja sinn og því gekk þetta bara eins og í sögu.

Jæja, en á morgun er ég að kenna einn tvöfaldan tíma í nýju efni og á föstudaginn er ég svo með tvo tvöfalda tíma í þessu nýja efni (úff, fjórir tímar við töfluna!!!), þ.e.a.s. ég fæ sömu hópana aftur (bara ekki í sömu röð)

Það kom mér á óvart hvað maður er fljótur að venjast því að standa svona við töfluna. Hins vegar bjóst ég ekki við að maður yrði svona uppgefinn af að kenna (ég er alveg búin fyrir 10 á kvöldin þessa dagana), þ.e.a.s maður notar alveg helling af orku. Maður þarf náttúrulega að vera einbeittur allan tímann, sem er allt annað en þegar maður er í fyrirlestri sjálfur, þá getur maður leyft sér að láta hugann reika öðru hvoru.

december 04, 2005
 
Vika 49!

Jæja, nú er komið að því! Vika 49, sem ég er búin að hugsa um í allt haust, er að hefjast á morgun. Klukkan átta í fyrramálið er ég að fara að kenna fyrstu tímana mína í Háskólanum. Ég mun kenna í allt 16 tíma næstu eina og hálfa vikuna, en ég er að sjálfsögðu mest stressuð yfir tímunum í fyrramálið. Eins gott að sofa ekki yfir sig !!! Það verður spennandi að sjá hvað koma margir, það gætu komið 4 og það gætu líka komið 40 (eða jafnvel fleiri). En það þýðir ekkert að vera að spá of mikið í þessu og stressa sig á því. Ég sótti um þetta starf og fékk það og er núna búin að undirbúa mig vel undir það og þá er það bara að klára það vel og fara svo í verskuldað jólafrí.

Hún Sigga systir hans Baldurs var að fara frá okkur núna áðan, eftir nokkurra daga heimsókn. Það er búið að vera voða gaman að hafa hana hér hjá okkur og við erum búin að gera margt skemmtilegt saman. Við skruppum í julefrokost í gærkvöldi, en þar voru þessar sætu myndir teknar.


december 02, 2005
 
Jóla, jóla, ...

Ég fór í gærkvöldi með Baldri og Siggu út að borða (takk Júlía!). Við fórum í miðbæinn og var gaman að sjá hvað er orðið jólalegt þar, komin jólaljós út um allt. Núna á eftir erum við svo að fara í Rosengårdcentret, en þar er án efa orðið mjög jólalegt líka. Ég held að ég sé bara smám saman að komast í feikilegt jólaskap!