Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

januar 31, 2006
 
Fýluferð, eða ...

...næstum því! Ég vaknaði kl. 8 í morgun og ætlaði að vera mætt í farmakologi í Winsløw Parken kl. 9, en skv. mínum upplýsingum átti fyrsti tími þessarar annar að vera í dag. Þegar ég var búin í sturtu og að byrja að hafa mig til hringdi gemsinn minn, en það var vinkona mín sem vildi vita hvort ég ætlaði að fara í tímann. Ég hélt það nú, enda hafði ég ekki heyrt neitt annað en að það ætti að vera tími í dag. Nú, það kom svo í ljós að kennarinn hafði lagt út skema í gær og samkvæmt því er ekkert á dagskránni fyrr en á fimmtudaginn og því augljóslega enginn tími fyrr en þá. Við vinkonurnar ákváðum því að fara ekki í dag. Þar sem ég var vel vakandi eftir að hafa farið í sturtu, ákvað ég að vera ekkert að skríða upp í rúm aftur og gera frekar eitthvað af því sem þarf að gera. Ég fór því að vinna við ritgerðina mína í patofysiologi og komst svona líka rosalega á flug. Ég fékk mér smá morgunmat áður en ég byrjaði í morgun en er síðan bara búin að vinna og vinna í marga tíma án þess svo mikið sem að finna fyrir hungurtilfinningu. Gaman þegar svona vel gengur! En núna er hungrið farið að segja til sín, svo ég segi bara bless í bili.

januar 30, 2006
 
Daginn er farið að lengja !

Þó að enn sé hávetur og febrúar rétt að hefjast finnur maður vel fyrir því að daginn er aðeins farið að lengja. Ég tók þessar flottu myndir af svölunum við útidyrnar hjá mér þegar ég var að leggja af stað í ræktina um hálfsexleytið.


januar 26, 2006
 
Jæja, jæja...

... ég veit ekki alveg hvað ég vil segja ykkur, en ég ætla að reyna að skrifa nokkrar línur svo ég missi ekki þessa fáu lesendur sem eftir eru, eftir pásuna löngu yfir jólin! Ég er núna búin að vinna upp allt sem ég átti eftir að lesa frá því fyrir jól og þarf að fara að byrja á verkefninu mínu (fordybelsesopgaven) í patofysiologi. En skólinn er svo að byrja aftur á þriðjudaginn. Baldur er að fara í próf á morgun og er svo í fríi í næstu viku þannig að við ætlum að hafa það rólegt yfir helgina og horfa á DVD!

Ég fór í rætina áðan og á örugglega eftir að finna fyrir því á morgun, þar sem ég hef ekkert hreyft mig af ráði í heilan mánuð. Ég hef ekki einu sinni hjólað, þar sem ég er búin að vera á Íslandi og hef því alltaf verið á bíl. Ég ætlaði að vera dugleg við að fara í Vesturbæjarlaugina á meðan ég var á Íslandi, en svo var bara enginn tími og mér fannst líka bara gott að slappa af. Núna er alvaran hins vegar tekin við og maður fer hjólandi allt sem maður þarf að fara og svo fer maður í ræktina 4-5 sinnum í viku. Já, ég hlýt að komast aftur í gott form fljótlega!

Ísland og Danmörk unnu bæði sína leiki í dag á EM í handbolta. Ég hef ekki enn fengið að sjá myndir frá leik Íslands og Serbíu/Svartfjallalands, enda eru Danir ekki mikið fyrir að tala um aðra en sjálfa sig þegar kemur að íþróttaleikjum. Á DR1 er núna verið að sýna þátt þar sem þeir eru kryfja leikinn sem þeir spiluðu við Ungverja alveg til mergjar. Ef ég er heppin taka þeir kannski eins og 10 sekúndur í að tala um aðra leiki dagsins. Mér heyrist samt á dönsku leikmönnunum að þeir séu hálfsmeykir fyrir leikinn við Ísland á morgun og gera alls ekki ráð fyrir að geta unnið sársaukalaust.

januar 23, 2006
 
Odense

Eftir mánaðardvöl hjá mömmu og pabba í Sörlaskjólinu er ég aftur komin heim til Odense. Tíminn á Íslandi leið ótrúlega hratt, en það var samt gott að geta stoppað svona lengi í þetta sinn, því frá því að ég flutti til Danmerkur í júlí 2001 hef ég mest stoppað einu sinni í þrjár vikur en annars minna. Að öllum líkindum mun ég ekki geta endurtekið leikinn, þ.e.a.s. dvelja svona lengi á Íslandi, næstu fjögur og hálfa árið eða þar til ég er búin að klára masters- og/eða doktorsverkefnið mitt, sem ég byrja á næsta haust.

Jæja, það er nóg að gera hér á bæ þannig að ég nenni ekki að vera að hangsa í tölvunni. Ég reyni að skrifa meira á næstunni (sorrý hvað ég hef skrifað lítið meðan ég var á Íslandi!!!), en ég læt fylgja með eina mynd af nýju flottu lopapeysunni sem mamma var að prjóna á mig (var ekki lengi að því, sú gamla!)


januar 03, 2006
 
Gleðilegt ár !

Árið 2006 er nú hafið og verður gaman að sjá hvaða ævintýri það mun bera með sér, en árið 2005 var jú að mörgu leyti gott ár.

Ég er ennþá á Klakanum en er ekki lengur í algjöru fríi, þar sem ég byrjaði að læra í dag og ætla að gera áfram þangað til ég fer heim til Odense. Planið er að læra á virkum dögum á meðan fólk er í vinnunni, enda er heilmikið sem ég þarf að lesa. Á kvöldin og um helgar ætla ég hins vegar að halda frí, því maður er jú ekki svo oft hér heima hjá fjölskyldunni. En þvílíkur lúxus að vera ekki að fara í próf núna í janúar !!!

Ég var að fá tölvupóst frá ritara lífefna- og sameindalíffræðideildar Háskólans í Odense þar sem mér er boðið að taka við kennslu hjá 3. annar læknanemum (molekylær biomedicin B) nú á vorönninni, alls 32 kennslutímar. Ég ætla nú samt að afþakka það þar sem ég er í tveimur mjög stórum og tímafrekum áföngum og tveimur valáföngum á vorönninni og svo mun ég halda áfram að kenna sömu tímana og ég kenndi á haustönninni. Samt langar mig svolítið að taka þessa kennslu að mér. Hmm, nei betra að vera ekki að hlaða of mikið á sig, enda nóg að gera hvort eð er.