Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

februar 25, 2006
 
Vísindamaður!

Fyrsta alvöru vísindagreinin mín er tilbúin og getur maður því bráðum farið að kalla sig alvöru vísindamann, hehe. Það er búið að senda greinina til Blood og svo á eftir að samþykkja hana og birta, en þetta ferli gæti tekið nokkra mánuði. Ég er í rosa flottum félagsskap, sem einn af höfundum þessarar greinar, en leiðbeinandinn minn á B.Sc. verkefninu er aðalhöfundur greinarinnar og sá sem sá um að setja hana endanlega saman. Ég á nokkra kafla í greininni, enda eru niðurstöðurnar úr B.Sc. verkefninu mínu nýjar af nálinnni í stofnfrumurannsóknum, og er margt í greininni meira að segja tekið beint upp úr ritgerðinni minni (*stolt*stolt*). Það má því segja að vísindamannaferill minn sé hérmeð formlega hafinn, eða allavegana þegar greinin verður birt, og get ég ekki annað en verið pínu (*rosa mikið*) stolt, þar sem það er mjög sjaldgæft að fólki takist að fá birta grein út á B.Sc. verkefni. Og ég sem fór ekki einu sinni út fyrir tímarammann með verkefnið mitt, þ.e.a.s. ég er að klára námið á réttum tíma en er ekki búin að seinka mér um eitt eða fleiri ár eins og flestir Danirnir gera.

februar 21, 2006
 
Íslenska lopapeysan

Hún elskulega mútta mín er á skömmum tíma búin að prjóna tvær myndarlegar lopapeysur á einkadóttur sína, sem finnst yndislegt að hafa hlýja lopapeysu til að fara í á köldum og nötralegum morgnum. Það skemmir nú ekki fyrir að hér í útlandinu eru ekki ALLAR aðrar konur í eins lopapeysu.
Ég var um daginn að segja danskri vinkonu minni frá því að á Íslandi væru þessa peysur aðaltískan í dag og allir væru í þessu, allavegana allar stelpur og konur á aldrinum 15-45. Í dag var ég svo að spjalla við þessa vinkonu mína í hádeginu í WP, að sjálfsögðu í nýju lopapeysunni minni, og þá spyr hún mig hvort að ákveðin stelpa sem situr þarna rétt hjá sé íslensk. Ég leit við og hvað haldiði að ég hafi séð? Jú, jú mikið rétt, þetta var hún Ragnheiður, sem er líka að læra hér í Odense og hún var einmitt líka í fallegri lopapeysu, og þess vegna var þessi danska vinkona mín að spá í að hún hlyti nú að vera íslensk.

Já, það auðvelt að þekkja íslensku stelpurnar í Mörkinni á fallegu lopapeysunum!

februar 20, 2006
 
Til hamingju Ísland...

Ég er alvarlega komin með þetta lag á heilann, bara get ekki losnað við það! Ég kíkti á ruv.is og hlustaði á lagið til að mynda mér endanlega skoðun á því af því að flestir Íslendingar virðast ýmist elska það eða hata. Ég verð nú bara að segja að mér finnst það bara hafa ansi grípandi melódíu (sbr. að ég er komin með það á heilann) og svo finnst mér hún Silvía Nótt vera að gera góða hluti á sviðinu. Það verður gaman að fylgjast með henni í Aþenu í maí og spennandi að sjá hvernig Evrópa tekur henni. Það er ágætt að við Íslendingar sláum þessu upp í kæruleysi svona einu sinni, þar sem rembingurinn hefur yfirleitt verið ansi mikill og kannski þegar þjóðin einu sinni er ekki að búast við sigri heldur bara góðri skemmtun, þá gerist eitthvað óvænt...

februar 19, 2006
 
Íshokkí

Vinkona mín hér á kollegíinu átti tvo miða á íshokkíleik milli Odense IK og Sønderjyske (fyrrum Vojens IK) í dag og bauð mér með sér. Þessi vinkona mín er frá Haderslev og heldur því með Sønderjyske þannig að við stóðum hjá þeirra áhangendum. Það var mikið fjör á leiknum og góð stemming og svo spillti nú ekkert fyrir að liðið "okkar", þ.e.a.s. Sønderjyske unnu. Reyndar var staðan 0:3 eftir tvo fyrstu hlutana þar sem Sønderjyske skoraði þrjú mörk í þeim fyrsta og ekkert var skorað í öðrum hluta. Í þriðja leikhluta tókst Odense svo að skora 3 mörk í röð og þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum var staðan því jöfn 3:3. Þegar aðeins tvær mínútur voru eftir skoraði Sønderjyske eitt mark og sigurinn því innan seilingar. Þegar aðeins 16 sekúndur voru eftir fengu Odense aukaskot rétt við mark Sønderjyske og tóku þeir þá séns með því að taka markmanninn útaf og setja auka leikmann inn á. Því miður fyrir þá klikkaði þetta hjá þeim og Sønderjyske skoraði fimmta markið. Leiknum lauk því 3:5 fyrir Sønderjyske og Heidi vinkona var mjög kát.

Íslandsferð

Nú er það komið á hreint að við Baldur skreppum til Íslands um páskana. Við komum til landsins þann 8. apríl og förum aftur út þann 17. apríl. Mér finnst skrítið að vera að fara til Íslands svona stuttu eftir að ég hef verið þar. Það hefur yfirleitt liðið miklu meiri tími á milli Íslandsheimsókna hjá mér. En þetta á eftir að verða gaman!

februar 17, 2006
 
Tja...

Mikið rosalega líður tíminn hratt. Fyrir nákvæmlega ári síðan var ég að bruna á fullu upp á Banegård að sækja mömmu og Ómar bróður sem komu og heimsóttu mig og Ella bróður í Esbjerg í tilefni af 60 ára afmæli mömmu. Já, mér finnst eins og þetta hafi verið fyrir bara nokkrum mánuðum síðan!

Í gær var að ljúka hjá mér kúrs í sjúkdómum í miðtaugakerfinu, sem mér fannst mjög spennandi. Núna koma svo nokkrar vikur þar sem ég verð bara í fáum tímum í skólanum á viku áður en farið verður á fullt í sjúkdóma í meltingafærunum og að lokum í hjarta- og æðasjúkdóma. Það verður ágætt að þurfa ekki að fara í marga tíma í skólanum, enda nóg að gera við að klára að lesa um sjúkdómana í miðtaugakerfinu og svo þarf ég að fara að vinna af krafti að ritgerðinni minni um sykursýki, sem ég ætla að skila í byrjun mars. Ég var einmitt að fá svar frá leiðbeinandanum mínum, sem er yfirlæknir á sjúkrahúsinu og sérfræðingur í sykursýki, í gær og hann var mjög ánægður með uppkastið mitt og kom með nokkrar ábendingar um hvað ég ætti að athuga sérstaklega og leggja áherslu á.

Núna má vorið alveg fara að koma...

...það er alltaf svo kalt !

februar 13, 2006
 
Lítil stúlka ...

Ég datt óvart inn á síðu hjá stelpu sem ég þekkti í Hveragerði, en hún var að benda fólki á að láta gott af sér leiða til hjálpar lítilli stúlku í vanda. Litla stúlkan heitir Bryndís Eva og fæddist 5. maí 2005. Hægt er að skoða sögu hennar og fylgjast með líðan hennar á heimasíðu foreldranna http://www.bebbaoghjolli.blogspot.com/.

Erfiðleikar litlu stúlkunnar hófust í byrjun desember. Hún byrjaði að fá krampaköst sem engin lyf dugðu til að ráða niðurlögum á. Var henni haldið sofandi um tíma og síðan þá hefur verið beðið eftir því að hún vakni. Litla stúlkan hefur farið í fjölmargar rannsóknir en ekkert hefur enn fundist að henni. Lyfin sem þarf til að halda krömpunum niðri eru of sterk til að hún haldi vöku.

Ég er búin að lesa sögu þessarar litlu stúlku og átti á stundum erfitt með að halda aftur af tárunum.

Styrktarreikningur hennar er í Sparisjóðnum í Keflavík og er hann: 1109-05-410900 og kennitalan er 290681-5889.

februar 12, 2006
 
Eitt ár !

Um þessar mundir er eitt ár síðan við Baldur byrjuðum saman. Vá, hvað tíminn hefur liðið hratt, mér finnst vera svo stutt síðan við byrjuðum saman. En svona er nú eitt ár fljótt að líða! Í dag er nákvæmlega ár síðan Íslendingafélagið í Odense hélt þorrablót í Højby. Ég var búin að vera að velta því fyrir mér hvort ég ætlaði að fara, en um seinnipart dags ákvað ég að ég nennti því eiginlega bara ekki og ákvað frekar að hafa það huggulegt hérna heima. Seinna um kvöldið þegar ég var komin í náttföt og undir sæng fékk ég allt í einu sms. Ég nennti varla að kíkja en gerði það samt. Smsið var frá Sólveigu, sem var í stuttri heimsókn hér í Odense og var á þorrablótinu. Hún skrifaði "Hei, það er þorrablót, hvar ert þú?". Ég fór að hugsa að það væri nú algjör aumingjaskapur að fara ekki á þorrablótið og þar sem ég er nú ekki svo mikið að hanga með Íslendingum er þetta ein af fáum uppákomum þar sem maður getur hitt alla á einum stað. Svo langaði mig líka að hitta Sólveigu, þar sem hún var bara í stuttu stoppi. Ég skrifaði því tilbaka að ég væri á leiðinni og skellti mér í sturtu og í betri fötin og náði síðasta strætó til Højby.

Nú, það fór svo þannig að ég skemmti mér ágætlega á þessu þorrablóti en það sem er mikilvægara er að þarna byrjuðum við Baldur að draga okkur saman og uppfrá því fórum við að vera saman. Já, það má því aldeilis segja að smsið frá Sólveigu hafi verið örlagavaldur!

februar 08, 2006
 
Aumingja Danskurinn

Það er aldeilis ekki gott að vera Dani í dag. Ef þessi fréttakona hefði verið Dani og sagt frá því væri hún líklega lifandi í dag. Nú, svo hafa Íranir og Pakistanar lýst því yfir að þeir vilja að öllum viðskiptasamningum verði rift við Dani og öll þau lönd sem birt hafa myndina af Múhameð. Það versta er samt að öfgafullir trúarleiðtogar hafa hótað hryðjuverkum í Danmörku vegna málsins og hvetja liðsmenn til að ráðast á Dani hvar sem þá er að finna.

Hér fyrir neðan er ein af myndunum sem danskir trúarleiðtogar (imamer) tóku með sér til Miðausturlanda í nóvember til að sýna hvernig gert sé grín af Múhameð í Danmörku. Þessi mynd er hins vegar tekin af einhverjum Frakka á árlegri grísahátíð i franska bænum Trie-sur-Baise og hefur aldrei áður sést í Danmörku. Augljóslega voru trúarleiðtogarnir að reyna að gera meira úr málinu, með því að ljúga því að þessi mynd hafi verið birt í dönsku blaði til þess eins að hæðast að Múhameð.


Nú er íranskt dagblað búið að efna til skopmyndasamkeppni um helförina til að láta reyna á hversu mikilvægt Vesturlandabúar telja tjáningarfrelsið vera. Ég var að lesa á Politiken.dk að Jyllands Posten sé að reyna að komast í samband við þetta íranska blað til að fá að birta þessar myndir sama dag og þær verða birtar í Íran. Munu þá Bandaríkjamenn og Ísraelar líka móðgast og hefna sín á Dönum?

Hvar endar þetta eiginlega? Ég held a.m.k. að þessu máli sé hvergi nærri lokið !!!

februar 07, 2006
 
Allt á fullu!

Nú er önnin byrjuð af krafti og alltaf nóg að gera. Skrýtið að vera komin á síðustu önnina áður en ég byrja á M.Sc./Ph.D. verkefnunum, sem að mestu leyti verður eins og að vera komin út á vinnumarkaðinn. Ég er búin að standa í smá veseni við að finna mér valfag sem nær yfir síðustu 8 ECTS einingarnar af því að ég þurfti að sleppa einu valfagi sem ég var búin að skrá mig í, þar sem tímarnir sköruðust við aðra tíma hjá mér. Ég er búin að finna einn lítinn 3 ECTS eininga kúrs sem ekki skarast við aðra tíma og svo ætla ég að taka einn sumarkúrs upp á 6 ECTS einingar.

Annars þá er allt að verða vitlaust út af teikningunum af Múhameð sem birtar voru í Jyllands Posten síðastliðið haust. Það er ekki talað um annað í fréttunum hérna, sem er svosem alveg skiljanlegt þar sem málið er farið að vekja mikinn óhug hér í landinu. Eitt er orðið alveg öruggt og það er að ég og Ellert förum ekki til Egyptalands að kafa næsta sumar, a.m.k. ekki með danskri ferðaskrifstofu. Ekki af því að það yrði eitthvað vesen í sjálfum kafarabúðunum. Nei, nei, Egyptarnir, vinir okkar, sem vinna þar eru ekki mikið að kippa sér upp við svona og svo held ég satt að segja að þeir fylgist ekki mikið með fréttum. Það sýndi sig þegar við Elli vorum að velta fyrir okkur hvort það væri hætta á miklu roki næsta dag, af því að við vorum búin að ákveða að fara með zodiac á nærliggjandi rif og það er hrikalegt að sitja á svoleiðis bát í miklu roki og öldugangi. Nú, við spurðum sem sagt einn af egypsku "gædunum" okkar hvort hann vissi eitthvað um hvernig veðrið ætti að vera daginn eftir. Hann skildi ekkert í okkur að vera að spyrja svona, því hvernig ætti hann að vita það. Þeir eru nú ekki mikið að fylgjast með veðurfréttunum þarna suðurfrá. Þeirra mottó er meira svona "wait and see".

februar 03, 2006
 
Hrikalegt!

Ég var aldeilis ekki sátt við úrslitin í handboltanum í gær! Fyrst tapaði Ísland fyrir Noregi og svo fóru Danirnir létt með Rússana. Ég var hrikalega svekkt og pirruð fyrir hönd íslensku strákanna og svo verða Danirinir alltaf svo hrikalega montnir þegar vel gengur. Ég var auðvitað búin að vonast til þess að við ynnum Norðmenn og svo reiknaði ég með að Rússarnir myndi vinna Danina. Þannig hefðum við spilað um 5. sætið og Danirnir orðið númer 7. En, neinei, nú eru þeir komnir í undanúrslit og Ísland endaði í 7. sæti. Ég var ekki sátt! En pæliði, ef við hefðum bara unnið Danina þarna um daginn í staðinn fyrir að missa leikinn niður í lokin og ná aðeins jafntefli, þá værum við í undanúrslitum og þeir væru að fara að spila um 5. sætið á meðan Rússar væru í 7. sæti. OOOOoooo það hefði verið miklu, miklu betra !!!

Ég minntist eitthvað á EM í handbolta við Ninu vinkonu mína, sem er dönsk, og hún hafði tekið eftir að Ísland og Danmörk voru að spila um daginn. Lék henni því forvitni að vita hvort ég héldi eiginlega með Danmörku eða Íslandi. Af viðbrögðum mínum að dæma varð henni strax ljóst að það væri engin spurning að ég héldi með Íslandi, en ég varð bara svo hissa á spurningunni og skellti uppúr. Já, það er alveg á hreinu að danskir vinir mínir líta ekki á mig sem útlending heldur meira sem eina að þeim, þ.e.a.s. sem Dana, þegar þeir eru farnir að spyrja svona.

februar 02, 2006
 
Áfram Ísland !

Nú þurfum við bara að vinna Norðmennina stórt og þá erum við örugg um að fá að spila um 5. sætið og jafnvel komin í undanúrslit (ef Danir vinna Rússa með minni mun en við vinnum Noreg). Ég reikna ekki með að Danir vinni Rússana stórt, ef þeir þá geta unnið þá. Ég þori allavegana ekki að treysta á að þeir vinni þá með minni mun en við vinnum Noreg, en best væri að þeir gerðu jafntefli og við vinnum Noreg. Jæja, ég ætla að fara að horfa á umfjöllun fyrir leikinn og svo leikinn sjálfan á norska TV2...

...ÁFRAM ÍSLAND

februar 01, 2006
 
Við gerum okkar besta...

...og aðeins betur ef það er það sem þarf! Já, strákarnir okkar eru sannarlega að gera sitt besta á EM í Sviss. Ég hlustaði á leikinn í gær í gegnum útsendingu Rásar 2 á netinu og ég var alveg að farast þarna í lokin þegar munurinn var ekki nema 1 mark. Ég var skíthrædd um að Rússarnir ætluðu að stela sigrinum í leik sem við vorum búin að eiga alveg frá því í stöðunni 1-4. En strákarnir börðust alveg þar til flautað var af og náðu glæsilegum sigri á rússneska Birninum. Ég horfði síðan á Danina tapa með einu marki fyrir Króötunum, en ég var eiginlega að vonast eftir jafntefli í þeim leik. Danirnir voru nú svekktir enda voða sigurvissir fyrir leikinn, Boldsen sagði víst að líkurnar væru 70:30 Dönum í hag, (hehehe alltaf jafnmontnir þessir Danir!). Eftir leikinn fara Danir alltaf í að kryfja hann til mergjar, ég meina í þeirra augum eru bara tvö lið á EM; Danir og mótherjinn! Ef þú fylgist með EM hér í danska sjónvarpinu, þá er þetta nákvæmlega svona. Þeir hafa líka alltaf svo litla trú á Íslendingum og stundum getur það hreinlega orðið of mikið fyrir mig. Eins og í gær þá var einn úr danska liðinu að spjalla við fréttakonuna og hann segir að þetta sé nú ekki búið ennþá þó að þeir hafi tapað fyrir Króötum. Nú þurfi þeir bara að vinna Norðmenn og Rússa og þá þurfi mikið að fara úrskeiðis svo að þeir endi ekki í öðru sætinu á eftir Króötum. HALLÓ!!! Hvar er íslenska liðið í þessari pælingu. Ég meina þó að Danir vinni Rússa og Norðmenn (sem ég tel afar ólíklegt), þurfum við ekki nema að vinna Norðmenn og þá erum við með jafnmörg stig og Danir! Mér fannst þetta fyrir neðan allar hellur að hann gerir ráð fyrir að þeir geti unni Rússa af því að litla Ísland gat það og svo er alveg á hreinu að við töðum fyrir Króötum fyrst þeir gerðu það. Svo gerir hann líklega ráð fyrir að við töpum fyrir Noregi. Ég vona svo sannarlega að strákarnir okkar vinni Króatana í dag og sýni þar með Dönunum hverjir eru bestir og að það þýði ekkert að traðka á íslenskum víkingum!