Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

marts 27, 2006
 
Hitt og þetta

Um helgina breyttum við yfir í sumartíma og birtir því seinna á morgnana og dimmir seinna á kvöldin. Ekki slæmt það!

Nú eru bara tæpar tvær vikur í að við Baldur komum á Klakann og því nóg að gera við að lesa og klára verkefni. Ég fór að hugsa um það um daginn hvað það væri hrikalegt ef tölvunni minni yrði stolið núna, ekki af því að hún sé svo mikils virði, nei, aðallega af því að það sem er í henni er mér svo mikils virði. Ég skrifa nefnilega allar glósur og auðvitað öll verkefni á tölvuna. Ég er að tala um fleiri hundruð blaðsíður af glósum sem ég þarf að nota þegar ég fer að lesa á fullu fyrir prófin tvö, farmakologi og patofysiologi, í sumar. Þetta eru glósur sem ég er búin að vera að gera með lestrinum í allan vetur. Alveg ómetanlegar fyrir mig! Ég er auðvitað dugleg við að taka afrit aðallega á utanáliggjandi harða diskinn minn, en ef honum yrði líka stolið væri ég svolítið illa sett. Ég brenni líka reglulega á geisladisk, en það bætist bara stöðugt heilmikið við og nú er orðið svolítið síðan ég brenndi síðast á disk. Æ, ég þarf að fara að gera það aftur.

Ég þekki stelpu sem er að gera mastersverkefni í biomedicin, en er að fara að taka prófið í farmakologi með mér núna í sumar. Hún átti að taka það í fyrrasumar, en eins og ég gerði hún glósur á fartölvuna sína, sem síðan var stolið rétt fyrir próf. Afréð hún því að sleppa því að fara í prófið, enda ekki gaman þegar glósurnar hverfa svona rétt fyrir próf. Við erum að tala um mjög stóran kúrs í farmakologi, sem er yfir heilt ár og lýkur með munnlegu prófi. Það er því alveg nauðsynlegt að eiga góðar glósur.

Dönsk vinkona mín sem er að læra með mér var að segja mér frá einni stelpu sem var að hjóla heim úr skólanum með töskuna sína í körfunni aftan á hjólinu. Þetta var nokkrum dögum áður en hún átti að fara í próf í eðlisefnafræði og var hún því með bókina sína og allar glósur í töskunni. Þegar hún hjólaði í gegnum skóginn við skólann mætti hún allt í einu hóp af innflytjendum. Þetta voru einhverjir algjörir gaurar, sem tóku töskuna hennar úr körfunni. Hún þorði ekkert að gera og hjólaði bara í burtu. Það var hrikalegt fyrir hana að missa það sem var í töskunni, þar sem maður má hafa bókina og glósur með sér í prófið í eðlisefnafræði. Hún var nú samt svo heppin að taskan hennar fannst nokkrum dögum síðar, þ.e.a.s. daginn fyrir próf og gat hún því farið í prófið.

Ég held að ég fari að binda töskuna mína fasta við körfuna þegar ég er að hjóla, sérstaklega þegar ég er með tölvuna mína í henni!

marts 20, 2006
 
Brandari

Tveir íslendingar eru úti í sveit að aka og sjá bíl fastan úti í kanti. Þeir ákveða að hjálpa og fara út úr bílnum. Þetta eru útlendingar og kunna íslendingarnir lítið í ensku en tekst að spyrja: "Dú jú vant help?"
Útlendingarnir svara " no no this is ok"
Íslendingarnir vilja endilega hjálpa og gefa sig ekki og segja: "Jes ví help jú".
Útlendingarnir: "No no this is ok".
Íslendingarnir: "Jes jes nó vesen - ví help jú". Þeir ná í reipi í bílinn sinn til að freista þess að draga bílinn - í versta falli að ýta honum upp á vegkanntinn aftur.
Útlendingarnir: "What are you gonna do"?
Íslendingarnir: "First ví reip jú - Þen ví ít jú".

Hahaha, gaman að þessu! Þetta minnir mig nú á gullmolana sem maður hefur heyrt að Íslendingar í Danmörku hafi látið út úr sér. T.d. einn sem fór til aunglæknis og sagðist vera "fjernsyn" og annar sem sagði við stelpu sem honum fannst alltof ráðrík "Du er så fræk".

marts 17, 2006
 
Sumar og sól...


...tja, ekki hér í Mörkinni og þess vegna lætur maður sig dreyma um að vera kominn til Egyptalands þar sem þessar myndir voru teknar. Það á að vísu að vera ágætis veður yfir helgina, hmm, þó ekki nema rétt yfir frostmarki en það er gott miðað við hvað það hefur verið rosalega kalt alveg rosalega lengi hérna. Í næstu viku kemur svo annað kuldakast þar sem hitastigið fer vel undir frostmarkið aftur. Fólk hér í Mörkinni er farið að lengja allsvakalega eftir vorinu og allir eru komnir með upp í kok af kuldanum og vetrinum sem hefur verið alltof langur. Ég er alveg viss um að vorið kemur í lok næstu viku og var ég rétt í þessu að heyra að veðurfræðingarnir á TV2 eru sammála mér :-) Eigum við ekki bara að vona það. Það er líka tími kominn til þar sem þá um helgina verður breytt yfir í sumartíma!!!

marts 14, 2006
 
Heimsókn

Hmm, mikið er orðið langt síðan ég skrifaði síðast! Kannski bara allir séu búnir að gefast upp á mér? Nei, annars þá hefur bara verið nóg að gera og enginn tími gefist til að blogga. Hún Júlía, hin hressa og káta mamma hans Baldurs, kom í heimsókn til okkar í fyrradag og er að fara í dag. Þó að tíminn hafi verið stuttur erum við búin að bralla ýmislegt saman, ég, hún og Baldur, og það hefur verið fín tilbreyting fyrir okkur námsmennina í Odense að fá svona góðan gest.

Annars er búið að vera voða kalt hér í Mörkinni undanfarið og fólk farið að bíða eftir vorinu. Það á að hlýna pínulítið um næstu helgi og ég spái því að þegar við breytum yfir í sumartíma um þarnæstu helgi, þá verður byrjað að vora.

marts 05, 2006
 
Hláturinn lengir lífið!

Ég mæli með að þið kíkið hér og athugið sérstaklega með myndbandið "talandi kettir". Ég náði varla andanum fyrir hlátri. Það er líka ýmislegt fleira skemmtilegt þarna!

marts 02, 2006
 
Ertu íslensk?...

Ég hringdi í Launaskrifstofu Háskólans núna í morgun af því að ég undraði mig á því að hafa ekki fengið launin mín fyrir kennsluna núna um mánaðarmótin. Ég skrifaði undir samninginn fyrir vorönnina fyrr í mánuðinum og sendi til þeirra í pósti, en þar sem engin komu launin í gær var ég hrædd um að samningurinn gæti hafa týnst í póstinum. Það reyndist sem betur fer ekki vera svo slæmt þar ástæðan fyrir launaleysinu var að samningurinn barst aðeins of seint til að ég gæti fengið laun um mánaðarmótin og fæ ég þau í staðinn um miðjan mánuðinn.
Nú, en þegar ég var komin í samband við launaskrifstofuna talaði ég heillengi við einhverja stelpu sem var að tékka á þessu fyrir mig, á dönsku auðvitað. Hún bað um cpr. númerið mitt, fann mig í tölvunni og spurði svo "Gunnhildur Traustadóttir" með svona frekar ódönskum framburði. Ég sagði bara, "ja" og hugsaði að hún hlyti að vera færeysk fyrst hún gat borið nafnið mitt svona vel fram. Svo spurði hún; "Er du islænding?" og ég svaraði; "Ja, kunne du se det på mit navn?". En þá kom frá henni; "Já, ég er líka íslensk". "Hmmm, eigum við þá að tala saman á íslensku, eða hvað?" svaraði ég, og í framhaldinu töluðum við svo íslensku. Híhí, gaman að þessu!