Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

april 28, 2006
 
Óvænt ánægja

Þegar ég kom heim í gær kom það mér mikið á óvart að sjá að pósturinn hafði komið við og var búinn að setja tilkynningu í póstkassann um að ég ætti pakka á pósthúsinu, sem ég gæti sótt í dag. Það eina sem stóð um hver hefði sent pakkann var "Island". Ég átti alls ekki von á pakka frá neinum á Íslandi og hringdi í mömmu og pabba til að athuga hvort þau væru að senda mér eitthvað, en mamma var ekki heima og pabbi vissi ekki til þess að mamma hefði verið að senda mér neitt.

Hmmm, nú fór ég að spekúlera og gruna suma meira en aðra, hehehe. Ákvað ég að hætta bara að pæla í því hvað þetta væri og frá hverjum og láta það koma mér á óvart í dag þegar ég gæti sótt pakkann á pósthúsið. Ég minntist á þennan "mystery" pakka við Baldur í gærkvöldi og hann hjálpaði mér að leysa ráðgátuna...

Pakkinn var sem sagt frá Júlíu, hinni eldhressu mömmu hans Baldurs (tengdó!). Og hvað haldiði að hafi verið í pakkanum...?



Ekki einu sinni skráma á því, þrátt fyrir langt ferðalag.

Já, hún Júlía er dyggur lesandi þessarar síðu og tók eftir því að ég hafði ekki fengið neinn málshátt um páskana, af því að ég ákvað að mig langaði ekkert í páskaegg (ekki af því að enginn vildi gefa mér, ég var bara búin að borða yfir mig af nammi fyrir páska!). En, þó að mig hafi ekkert langað í páskaegg á páskadag, fæ ég aldeilis vatn í muninn af því að sjá þetta girnilega páskaegg á eldhúsborðinu mínu. Svo bragðast líka íslenska nammið miklu betur þegar maður er fjarri Íslandi.

Og málshátturinn er...

"Einhvern tíma brennir sá sig sem öll soð vill smakka"

Takk, Júlía mín !

P.s. talandi um íslenskt nammi, þá verð ég að segja ykkur að Danir kunna ekki gott að meta! Þegar ég kom til Odense eftir páskana var ég með fullt af íslensku nammi með mér af því að ég ætlaði að leyfa dönsku vinkonum mínum að smakka virkilega gott nammi. Ég fór með tromp og djúpur til þeirra, og varð aldeilis fyrir vonbrigðum, þar sem þeim (öllum nema einni) fannst þetta vont. Þær kunna ekki gott að meta!

april 24, 2006
 
Flugvöllur á Lönguskerjum?

Sjá myndband hér
Já, nú ætlar B listinn að beita sér fyrir gerð Öskjuhlíðarganga og að efnið úr þeim verði notað í uppfyllingu á Lönguskerjum, þangað sem flugvöllurinn gæti verið fluttur. Mér finnst Öskjuhlíðargöng ekkert fráleit hugmynd og ég væri mikið til í að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni (gæti vel hugsað mér að búa þar sjálf einhvern tímann í framtíðinni), en mér líst ekkert á að setja flugvöllinn út á Löngusker. Það er ekki ósjaldan brim í Skerjafirðinum og þá gæti sjórinn skvettst langt inn á flugbrautina og ef það er líka mikið frost... Tja, allavegana myndi ég ekkert vera hrifin af því að þurfa að lenda þarna.

Að öðru
Ég var að fá "godkendt" ritgerðina mína um sykursýki í "Human Patofysiologi" áfanganum, sem er annar af þessum stóru áföngum sem ég er að fara í próf í núna í maí/júní. Það er gott að það sé komið á hreint, þar sem maður fær ekki að fara í próf nema að vera kominn með "godkendelse" fyrir ritgerðinni.

Þessa vikuna er ég svo í áfanga sem heitir "Lægemiddeludvikling" og þar er fólk, aðallega frá Novo Nordisk, að kenna okkur allt í kringum uppgötvun, þróun og markaðssetningu á nýjum lyfjum. Mjög spennandi og gagnlegur áfangi fyrir mig.

Og, svo er vorið loksins komið!!! 15°C í dag og enn hlýrra á morgun ;þ Í gær náði ég í borðið mitt og stólana og setti út á svalir, svo núna get ég farið að sitja á svölunum og notið sólarinnar með hvítvínsglas í hönd :þ

april 19, 2006
 
Páskafríið

Nú erum við Baldur nú aftur komin heim til Odense, þar sem alvaran er tekin við. Það er nóg að gera í skólanum enda orðið stutt í að kennslunni ljúki og próflesturinn taki við. Þarna á milli er ég samt búin að lofa mig í einnar viku kennslu hjá 4. annar læknanemum (í sama áfanga og ég kenndi í á síðustu önn).

Páskafríið var frábært og leið alltof hratt. Mér fannst ég samt ná að gera ótrúlega margt á þessum stutta tíma og má þar nefna vinkonuhitting, matarboð hjá tengdó í Garðabænum, bíóferð, Kringluráp og að sjálfsögðu samveru með gömlu hjónunum í Vesturbænum.

Í fyrsta sinn í mínu lífi fékk ég ekkert páskaegg! Að vísu hef ég einu sinni áður ekki fengið íslenskt páskaegg, þar sem ég lét mér bara duga Austurrískt páskaegg árið sem ég bjó þar. Þegar ég hef hins vegar verið í Danmörku um páskana hefur mamma alltaf sent mér og brósa í Esbjerg Nóa egg (aðallega af því að hann heimtaði það!), sem við höfum borðað á föstudaginn langa af því að ég hef yfirleitt verið farin til Odense á páskadag. Þetta árið fékk ég sem sagt ekkert páskaegg, ekki af því að enginn vildi gefa mér, heldur af því að mig langaði hreinlega ekkert í. Það eina sem mig langaði í var málsháttur og var ég jafnvel að hugsa um að kaupa eitt pínulítið egg til þess að fá málshátt, en það varð ekkert úr því. Já, þar hafiði það, mig langaði bara ekkert í súkkúlaðiegg! Ok, það eru örugglega margir sem halda að ég sé orðin eitthvað skrýtin að langa ekki í súkkulaði, en ég er nú ekki eins skrýtin og þið haldið. Málið er að ég kom í gengnum fríhöfnina viku fyrir páska og eins og er venjan með Íslendinga sem fara þar í gegn, þá eru keyptar sígarettur, áfengi og nammi (hvort sem maður hefur eitthvað að gera við það eða ekki). Ég sem sagt keypti fullt af góðu nammi, sem komst aldrei lengra en upp á stofuborð hjá mömmu og pabba og maður var svo að narta í þetta fram að páskum. Fór því svo að ég fékk alveg nóg af sælgæti og langaði barasta ekkert í páskaegg ;þ

april 12, 2006
 
Á Íslandi

Jæja, þá er maður kominn heim til gömlu hjónanna í stutt stopp yfir páskana. Það er nóg að gera eins og alltaf þegar maður kemur hingað og reynir maður því að nýta tímann vel...

...skrifa meira þegar ég verð aftur komin heim til Odense eftir helgi!

april 07, 2006
 
Nýbökuð rúnstykki

Hann Baldur minn, sem var á næturvakt á sjúkrahúsinu í nótt, kom heim um hálfáttaleytið þegar ég var að vakna og var svo sætur að koma með nýbökuð rúnstykki úr bakaríinu handa mér :þ Algjör engill!

En það er brjálað að gera hjá okkur báðum í dag, þar sem við erum að klára að lesa og gera það sem gera þarf fyrir Íslandsferðina á morgun.

april 04, 2006
 
KR og nektardansinn

Ég var aðeins að fylgjast með umræðunni um þetta mál á KR spjallinu, löngu áður en það kom í kvöldfréttum RÚV, og ég verð að segja að mér finnst hlægilegt hvað búið er að blása þetta upp. Í fyrsta lagi var nú ekki um nektardans að ræða og allt tal um kvenfyrirlitningu finnst mér ansi langsótt. Þarna var aðeins um að ræða stelpur sem hafa það að atvinnu að dansa um á súlu og fengu þarna borgað fyrir að bera treyjur sem boðnar voru upp þannig að þær þurftu að ganga út berbrjósta eftir að hafa afhent kaupandanum treyjuna. Ok, þó að þetta hafi verið Herrakvöld, þá verð ég samt að viðurkenna að þetta var kannski frekar óheppilegt atriði á samkomu á vegum íþróttafélags, en það er ofar mínum skilningi að þetta geti verið efni í kvöldfréttir Ríkisútvarpsins. Einhvers staðar las ég að á síðasta ári hafi komið strippari á konukvöld Létt 96,7. Nú, svo voru víst Víkingur og ÍBV með sams konar atriði og KR á sameiginlegu Herrakvöldi, en ekki komst það í fréttir RÚV!
En allavegana þá skil ég vel að fólk sé með ýmsar skoðanir á þessu máli og allt í lagi að þær skoðanir komi fram, t.d. á KR spjallinu. En þetta á engan veginn heima í kvöldfréttum RÚV!

Mikið er þetta nú rétt!

Það er alveg ótrúlegt hvað ég er týpísk meyja! Og hann Ellert bróðir þreytist ekki á að minna mig á það. Hann sendi mér eftirfarandi lýsingu og þó að ég sé oft búin að sjá þetta áður og viti vel hversu týpísk meyja ég er þá gat ég ekki annað en hlegið að því hvað þetta er lýsandi fyrir mig.

Meyjan - Jarðbundin og nákvæm

Meyjan er að grunni til jarðbundin, nákvæm og sjálfsgagnrýnin. Hún er athafnamaður sem þarf að hafa nóg fyrir stafni. Fyrir vikið kann hún ekki að sitja lengi kyrr. Hún hefur tilhneigingu til að vera hógvær og lítillát, jafnvel þó að hún hafi unnið afrek. Ein ástæða fyrir því er sú að hún er alltaf að reyna að betrumbæta hluti og finnst því oftast að betur megi gera. Tala má um fullkomnunarþörf í þessu sambandi.

Þörf hennar fyrir að betrumbæta og fullkomna hluti er oft styrkur, en getur auðveldlega orðið henni til trafala. Ástæðan er sú að hún á þá til að vera of hörð í eigin garð og í kjölfarið taka að efast um sjálfa sig og hæfileika sína. Ef þetta gengur of langt, þá getur hún farið að forðast athafnir og verkefni sem hún er fullfær um að leysa af hendi.

Meyjan hefur viðkvæmt taugakerfi. Þetta er eiginleiki sem skapar visst eirðarleysi og í kjölfarið athafnasemi. Það þarf þó að huga að því að næmt taugakerfi, getur, undir vissum kringustæðum, leitt til streitu, áhyggna, ofnæmis og meltingartruflana.

Helsti styrkur Meyjunnar er sá að hún er jarðbundin og skynsöm. Hún er athugul og skörp, sér smáatriðin í umhverfi sínu, og á auðvelt með að koma hugmyndum sínum í verk. Hún er samviskusöm og hefur sterka ábyrgðarkennd og líkar það vel að vinna mikið og vera almennt athafnasöm. Hún hefur sterka þjónustulund og viðskiptavit. Því er líklegt að henni gangi vel í skóla og að hún hjálpi foreldrum sínum á heimilinu, eftir aldri og getu hverju sinni.

april 01, 2006
 
Danir kunna ekki að stafa!

Kvöldfréttatíminn á TV2 hefur undanfarna daga beint athyglinni að því hve mikið er um að Danir kunna ekki að stafa. Það hefur m.a. komið í ljós að undir helmingurinn af Dönum kann að stafa orðin ærgerlig, diskussion og medlemskab. Ég hef vitað lengi að Danir kunna ekki að stafa og síðan ég byrjaði í Háskólanum hér í Odense hef ég oft séð réttritunarvillur hjá kennurum og öðrum nemendum. Þó að ég sé ekki dönsk, þá hef ég alveg frá því á fyrstu önn oft verið að leiðrétta stafsetninguna hjá dönskum félögum mínum þegar við höfum skrifað skýrslur eða önnnur hópverkefni. Það hefur nú yfirleitt verið þannig að ég hef setið við tölvuna þegar við höfum unnið verkefni, enda yfirleitt mikið betri í danskri stafsetningu en dönsku félagar mínir. Og dönskum félögum mínum hefur fundist þetta hið besta mál, enda hafa þeir aldrei litið á mig sem útlending, heldur bara sem Dana. Þar fyrir utan eru flestir Danir vel vitandi um að þeir kunna ekki að stafa og reyna að kenna því um að danska sé svo erfitt tungumál.

Í sambandi við það að margir Danir halda að ég sé dönsk, þá langar mig að segja ykkur frá svolitlu sem kom fyrir mig um daginn. Þannig er að ég var að klæða mig eftir æfingu, þegar Baldur hringdi í mig. Ég svaraði auðvitað og spjallaði við hann í smá stund. Þegar ég var búin að leggja á var ein sem ég er að æfa með og spjalla oft við eftir æfingu, að undra sig á því hvaða tungumál þetta hafi verið. Eftir að hún komst að því að þetta var íslenska og ég á íslenskan kærasta, var hún að spá í hvort það hefði verið erfitt að læra málið. Hun hefur sem sagt lengi haldið að ég sé dönsk og nú hélt hún að ég væri búin að læra íslensku þar sem ég á íslenskan kærasta. Hehehe!

Fyrsti apríl

Ég var að fatta að það er hinn alræmdi 1. apríl í dag og enginn búinn að plata mig ennþá. Ég horfði ekki á fréttirnar á TV2 nema með öðru auganu og svo er ég bara rétt búin að renna yfir íslensku netmiðlana. Ætli það sé ekki bara aprílgabb að það sé opið í Bláfjöllum í dag?