Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

maj 29, 2006
 
Úps!...

Brutust inn í sumarbústað en skildu eftir myndavél

"Brotist var inn í sumarbústað í Vaðnesi um helgina. Lögreglan á Selfossi segir að þeir, sem þar voru á ferð, muni hafa hreiðrað um sig um stund en litlu stolið. Sýnilega hafði verið farið í heitan pott og fólk verið við drykkju. Hústökufólkið skildi eftir myndavél í húsinu og er lögregla að skoða myndir sem sýnilega hafa verið teknar af fólkinu þar sem það sat við drykkju í húsinu. Er verið að bera kennsl á fólkið."

maj 27, 2006
 
Ekkert í gangi...

...annað en próflestur. Nú er komið í ljós að ég fer í farmakologiprófið á fimmtudaginn kl. 8.30. Þetta er munnlegt próf og þess vegna núna fyrst búið að setja nákvæma tímasetningu hjá hverjum og einum. Ég er að búin að vera þónokkuð dugleg að læra og vil helst bara fara að komast í prófið. Svo kemur bara í ljós hvort ég verð heppin með hvað ég dreg, því maður er aldrei jafnvígur á allt námsefnið.

Veðurguðirnir hafa algjörlega verið á mínu bandi upp á síðkastið, enda hefur meira eða minna verið rigning alveg síðan ég byrjaði að læra fyrir prófið. Ég vona aldeilis að þeir standi við afganginn af samningnum sem hljóðar upp á að það verði sól og blíða í lok næstu viku og um næstu helgi, en þá ætla ég að taka mér nokkurra daga pásu áður en ég fer að lesa fyrir næsta próf.

Annars er það helst að frétta að hún mútta mín er búin að kaupa sér flugmiða hingað í Mörkina í júlí. Það verður gaman að fá hana í heimsókn, enda getum við alltaf verið að bralla eitthvað saman og það er aldrei dauður tími eina einustu mínútu þegar við erum saman. Kannski verður hún heppin og lendir í því að hjálpa okkur Baldri að flytja (ef við verðum búin að fá íbúð sem okkur líkar), en það myndi henni finnast alveg frábært því þá er nóg að gera.

maj 21, 2006
 
Hard Rock Halleluja

Frábært hjá Finnum! Þeir áttu þetta svo innilega skilið enda með langbesta lagið í ár. Þetta lag vann ekki bara af því að þetta er þungarokk og öðruvísi en allt hitt, heldur af því að þetta er virkilega gott lag. Sigurinn var öruggur sem sýnir það að fólk í Evrópu er orðið þreytt á sömu gömlu tuggunni og vill fá eitthvað nýtt í þessa keppni. Verst að við sendum ekki Botnleðju hérna um árið, hefðum örugglega komist langt! Ég var að lesa grein um allt uppistandið í Finnlandi þegar ljóst var að Lordi yrði fulltrúi þeirra í Aþenu. Var talað um að morgunmaturinn hafi staðið í mörgum Finnum morguninn eftir að Lordi vann finnsku keppnina. Voru margir á móti því að senda þá til Aþenu, hræddir um ímynd Finnlands, og var m.a. stofnuð hreyfing sem krafðist þess að forseti Finnlands bannaði þeim að fara. Hahahaha, þeir sem voru með í þessari hreyfingu láta líklega lítið fyrir sér fara þessa dagana.

Annað sem var gott í gærkvöldi var velgengni Litháen. Svolítið sami húmor og hjá okkur, bara mun einfaldari og komst vel til skila á 3 mínútum. Svo fannst mér líka fyndið að Svíar náðu bara 5. sæti og Danir 18. sæti. Danski þulurinn, Mads Vangsø, var svo viss um að Danir myndu berjast um sigurinn við Svía og kannski Rúmena og Rússa. Gerði hann bara grín að Finnlandi og hneykslaðist á Litháum. Honum fannst Lithár vægast sagt ömurlegir og lét það í óspart í ljós. Það var svo fyndið að heyra hvað honum var illt í afturendanum þegar stigin byrjuðu að skila sér og Finnar stungu af á stigatöflunni, á meðan Danir sátu eftir í neðri hlutanum. Hann bara átti ekki orð! Þakkaði hann háðslega fyrir hvert stig sem Danir fengu, og þegar Íslendingar gáfu þeim 8 stig vildi hann meina að það væri bara af því að Íslendingar ættu hvort eð er hálfa Kaupmannahöfn.

Grikkir ættu að skammast sín fyrir hegðun áhorfendanna í salnum. Þeir púuðu þegar þeim líkaði ekki lögin, þeir púuðu þegar þeim líkaði ekki stigagjöfin og svo fögnuðu þeir ekki sigurvegurunum. Það voru ekki mikil fagnaðarlæti í salnum þegar Lordi kom á sviðið (held samt að þeim hafi verið nokk sama). Það heyrðist aðeins í þessum hundruðum Finna, en annars voru flestir í fýlu. Þetta lið sem var svo heilagt þegar Silvía Nótt var að móðga það, ætti nú aðeins að líta í eigin barm.

maj 20, 2006
 
Blómin á svölunum

Ég skellti mér á markaðinn í morgun og í þetta sinn keypti ég mér blóm á svalirnar mínar, enda búin að kaupa blómapotta í gær. Já, það er aldeilis orðið sumarlegt á svölunum fyrir utan útidyrnar hjá mér. Svo er hún Vigdís, nágranni minn, líka með fullt af blómum (í vinstra horninu á myndinni), þannig að þetta er farið að minna á blómabúð hérna á annarri hæðinni.
Nú vantar bara góða veðrið!


Annars er ekkert sérstakt að frétta þar sem maður er meira og minna bara að lesa fyrir próf. Helga vinkona, er þessa helgina í Køben og var ég að spá í að skella mér og hitta hana, en mig langar samt miklu meira að fá hana hingað í sveitina til mín. Ég er að reyna að lokka hana með kaffi og kökum, sem gengur ágætlega þar sem hún er að spá í að koma á morgun.

maj 19, 2006
 
Úr leik

Evrópa var semsagt ekki að fatta Silvíu Nótt! Ég hef sjaldan beðið íslenska lagsins með jafnmikilli eftirvæntingu og í gærkvöldi, enda veit maður aldrei hvað Silvíu Nótt dettur í hug. Mér fannst sorglegt að fólk skyldi púa á hana þegar hún kom á sviðið og svo aftur þegar hún kláraði lagið. Hvaða leiðindapakk var þarna í salnum? En atriðið gekk ekki alveg upp hjá Silvíu í gær, hún virkaði stressuð og náði ekki vel í gegn til áhorfenda. Kannski ekki nema von miðað við móttökurnar sem hún fékk.

Við Íslendingar komum þó með eitthvað nýtt og spennandi í keppnina að þessu sinni og slógum þessu bara upp í kæruleysi. Fólk var bara alls ekki að fatta brandarann og ekkert við því að gera. Hún átti samt miklu frekar skilið að komast í úrslit en t.d. Tyrkland!

En ég er sátt við að finnsku rokkararnir í Lordi komust áfram, þá getur maður allavegana haldið með þeim á laugardagskvöldið.

Það verður gaman að sjá hvernig Dönunum gengur á laugardaginn, en danski þulurinn á keppninni í gærkvöldi var alveg á því að þeir taki þetta. Já,já, hann sagði að það væri auðsjánlegt að það gerðist eitthvað hjá fólkinu í salnum þegar danska stelpan, Sidsel, syngur lagið sitt á æfingum. Hann síendurtók að danska lagið væri í góðum gír og klárlega á meðal bestu laga í keppninni. Vildi hann meina að orðrómurinn á svæðinu væri á þá leið að danska lagið ætti góða sigurmöguleika, og svona hélt hann áfram... Endaði hann á að segja að gríski þulurinn gæti núna farið að læra að stafa nafnið Sidsel (af því að hún er svo örugglega að fara að vinna þetta). Danir alveg að drepast úr rembingi!

maj 18, 2006
 
Congratulations...

Jæja, haldiði að Evrópa sé að fatta brandarann? Það verður gaman að fylgjast með í kvöld. Annars er mér alveg sama, hvort við komumst áfram eða ekki (samt auðvitað meira gaman að komast áfram). Mér finnst bara málið að hafa gaman að þessu og mér finnst hún Silvía Nótt vera búin að gera það rosalega gott alla vikuna. Hefur allavegana fengið heilmikla athygli stelpan.


Ég hef verið að fylgjast með fréttunum frá Aþenu alla vikuna í Kastljósinu og finnst gaman að sjá hvað fólk hefur misjafnar skoðanir á uppátækjum Silvíu, sumir þola hana ekki á meðan öðrum finnst hún bráðfyndin. Ég skil samt ekki fólk sem segir að lagið hennar sé ekki grípandi, ég er búin að vera með það á heilanum alla vikuna og bara get ekki losnað við það.

En allavegana, áfram Silvía Nótt!

maj 13, 2006
 
Markaðurinn

Á laugardögum og miðvikudögum er ávaxta-/grænmetis- og blómamarkaður hérna handan við götuna hjá mér. Þarna er hægt að fá alls kyns grænmeti og ávexti á fínu verði og svo eru blómin þarna alveg æðisleg. Ég var rétt í þessu að koma af markaðnum og mig langaði að kaupa mér fullt, fullt af blómum, en þar sem ég á ekki neina lausa blómapotta og hef ekki pláss fyrir mikið meira af blómum, þurfti ég að stoppa mig af. En ég kaupi bara nokkra blómapotta í vikunni og fer aftur á markaðinn næsta laugardag. En þó að ég hafi ekki keypt nein blóm í þetta skiptið kom ég aldeilis eki tómhent heim, því ég keypti baunir, jarðarber, melónu, ananas og ávöxtinn á myndinni, sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku (e. lychee)

maj 12, 2006
 
Grill

MMMmmmm, við Baldur erum að fara að grilla ;þ,
enda bara frábært veður og ...


 
Kennslunni lokið og próflestur tekinn við

Kominn tími á smá blogg. Ég hef hreinlega verið svo upptekin undanfarið að ég hef ekki haft neinn tíma.

Síðustu fjóra dagana hef ég verið að kenna læknanemum (4. önn) og lauk ég því í gær. Það er ótrúlegt hvað maður verður þreyttur að standa við töfluna í tvo tíma, talandi og skrifandi á fullu. Maður þarf líka að vera vel einbeittur og passa hvað maður segir því það eru meira og minna allir að skrifa allt niður sem maður segir og skrifar. Þetta gekk annars bara rosa vel og var fólk almennt mjög ánægt með tímana mína, allavegana var mætingin mjög góð.

Núna er bara komið að próflestri! Lyfjafræðin verður lesin stíft næstu tvær og hálfa vikuna, en þá fer ég í munnlegt próf (úfff!). Æ, þetta er nú svo spennandi að mér finnst allt í lagi að lesa þetta upp. Reyndar er veðrið svo gott núna, sól og 20-25°C alla daga, að það er erfitt að sitja inni og lesa. Hef ég aðeins verið úti að lesa í stuttan tíma í einu, þó það sé erfitt, og er meira að segja orðin nokkuð brún bara eftir það.

Jæja, best að fara að kíkja á lyfjafræðina...

...bæjó

maj 07, 2006
 
Helgin

Helgin er búin að vera frábær og ekki hefur veðurblíðan spillt fyrir góða skapinu. Sumarið er bara komið hingað í Mörkina og það kom heldur betur skyndilega. Það er orðið svo hlýtt, líka á kvöldin, að ég á erfitt með að trúa því að maí sé bara rétt að byrja.

Á föstudagskvöldið fór ég með félögum mínum af rannsóknastofunni út að borða og í nokkra bjóra á eftir. Gaman að hitta þau öll þar sem ég er ekkert búin að vera á rannsóknastofunni í allan vetur, eða síðan ég kláraði B.Sc. verkefnið mitt. Í gær var svo hreingerningardagur hér á kollegíinu og vorum við hörkudugleg og tókum til í geymslukjallaranum, garðinum og þvottakjallaranum og borðuðum svo pizzu saman á eftir. Svo kom Elli bróðir í heimsókn á mótorhjólinu og var hér fram á kvöld. Við Elli fórum út að borða og sátum svo ásamt Baldri að spjalla á svölunum hjá mér alveg til kl. 23. Það var svo hlýtt og notalegt að sitja úti!

Í fyrramálið er ég svo að fara að kenna og í dag hef ég í dag setið úti í garði og á svölunum að kíkja yfir efnið. Ég þarf að kenna næstu 4 daga og svo ætla ég alveg að hella mér í próflestur, enda prófin að nálgast alltof hratt. En ég hlakka mikið til að klára prófin og komast í sumarfrí. Maður kemst líka í svo mikið sumarskap þegar veðrið er svona gott og langar bara að rölta um bæinn og fá sér ís, í staðinn fyrir að vera að læra fyrir próf. Svo er Baldur í fríi næstu tvær vikurnar, sem gerir þetta ekki auðveldara hjá mér. En hann ætlar að vera duglegur að trufla mig ekki, nema þegar ég þarf á bæjarrölts- og íspásu að halda.

En að öðru...

...hvað er maðurinn að spá?

maj 03, 2006
 
Í sól og sumaryl...



Frábært veður í dag og engin breyting næstu daga! Já, sumarið er alveg að skella á, allt er farið að blómstra og fólk er farið að brosa. Önnin er að klárast í þessari viku, ég þarf svo að kenna 12 tíma í næstu viku og svo verður bara lesið fyrir próf og farið í próf næsta einn og hálfan mánuðinn þar á eftir. Fyrra prófið er 31. maí/1. júní og það seinna 27. júní/28. júní. Úff, þetta verða svakaleg próf, allt sem við erum búin að læra í farmakologi og human patofysiologi þetta árið, semsagt á haust- og vorönn. Og svo eru þau bæði munnleg, þannig að það þýðir ekkert að kunna eitthvað verr en annað, því þá dregur maður pottþétt það.
En ég get glaðst yfir því að þetta eru seinustu prófin mín, því eftir þessi próf á ég bara eftir einn valkúrs í ágúst og svo mastersverkefnið mitt næsta árið eða svo, sem verður reyndar bara eins og að vera í vinnu.

En, jæja, ég ætla að fara að læra og drífa mig svo út í sólina!

maj 01, 2006
 
Systkini mín í Austurríki

Í haust eru 10 ár frá því að ég fór sem skiptinemi til Austurríkis, tæplega 16 ára. Ji, hvað tíminn hefur liðið hratt, mér finnst ekki svo langt síðan. Ég á ennþá yndislega fjölskyldu í Braunau í Austurríki, sem ég er í góðu sambandi við og heimsæki öðru hvoru. Myndin hér til hliðar var tekin af systkinum mínum og mömmu þeirra núna um páskana og finnst mér gaman að sjá hvað krakkarnir eru orðnir stórir. Það eru núna komin rúm tvö ár síðan ég sá þau síðast og er ég að vona að við Baldur finnum tíma í sumar til að kíkja við hjá þeim. Það er svo auðvelt að fara með næturlest frá Odense og alla leið til München og þaðan er örstutt til Braunau.

Þegar ég var í Austurríki voru litlu systkini mín bara 4 og 5 ára og þau voru alltaf að segja öllum að þau ættu stóra systir frá Íslandi. Það er gaman að segja frá því að ég er alls ekkert svo ólík hjónunum sem ég bjó hjá og þegar við ferðuðumst saman hélt fólk bara að ég væri elsta dóttirin og svo væru hin tvö litlu bara svona mikið yngri. Reyndar voru hjónin ekki nema rétt rúmlega þrítug þá og hefðu því þurft að eiga mig snemma, en þó var aldursmunurinn á okkur samt alveg nógu mikill til að þau gætu verið foreldrar mínir.

Núna eru litlu systkini mín orðin unglingar, 13 og 15 (hún á afmæli í mars og er því nýorðin 15 ára). Maður sér það best á þeim hvað er orðið langt um liðið. Tja, ætli maður sjái það ekki líka aðeins á mér (hmmm).

Þessar myndir voru teknar þegar ég bjó í Austurríki. Til vinstri er mynd af krökkunum og mömmu þeirra og til hægri af mér, litlu systkinum mínum og vinum þeirra í Jarðaberjalandi...