Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

juni 28, 2006
 
Google Earth

Myndin hér að neðan er fengin frá Google Earth og er tekin af kafarabúðunum, Marsa Shagra, í Egyptalandi þar sem ég hef verið síðustu þrjú sumur. Skrítið að sjá þetta svona ofan frá, sérstaklega rifið þar sem maður hefur verið að kafa svo mikið. Þarna niðri eru allir litlu Nemóarnir, vinir mínir, og svo auðvitað allir hinir flottu fiskarnir og hákarlarnir. Og það var þarna í víkinni sem ég í fyrrasumar synti alein með stórum höfrungahóp, sem var svo mögnuð upplifun að ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa því. Vá, mig langar aftur til Egyptalands að kafa !!!


juni 27, 2006
 
Sumarfrí !!!

Var í síðasta prófinu í dag og gekk rosalega vel, fékk 11 :-) þannig að núna er ég komin í sumarfrí. Ég verð í fríi alveg þar til um miðjan ágúst og ætla aldeilis að njóta þess.

Jæja, nenni ekki að hanga lengur í tölvunni ...

...sumarkveðja frá Odense


juni 25, 2006
 
Lokaspretturinn!

Það er aaaaaaaalveg að koma sumarfrí og ég er núna að lesa það síðasta fyrir prófið sem ég fer í á þriðjudaginn. Svo er bara að duga eða drepast í sjálfu prófinu og vonandi verð ég heppin og dreg eitthvað sem ég kann vel. Ég verð annars prófuð fyrst af öllum og vona því að prófdómararnir séu morgunhressir eða amk búnir að fá sér morgunkaffið sitt. Æ, ég get ekki lýst því hvað ég hlakka mikið til að klára þetta próf og komast í langþráð sumarfrí, það verður svo gaman...

...en meira um það seinna! Ég ætla að halda áfram að læra núna því það verður nóg annað að gera á morgun og svo er bara komið að prófinu. En á morgun er ég að fara að hlusta á vinkonu mína úr stofnfrumurannsóknahópnum verja mastersverkefnið sitt og svo kemur Elli bróðir við hér hjá mér og skilur bílinn sinn eftir á meðan hann fer til Íslands í tvær vikur.

juni 18, 2006
 
Grýlan en dauð!

Svíagrýlan var endanlega drepin í gær þegar "strákarnir okkar" tryggðu sér farseðilinn á HM í Þýskalandi í janúar og skildu Svía eftir með sárt ennið. Ég sat hér heima ásamt Baldri og Vigdísi og horfði á leikinn beint á ruv.is. Við vorum alveg að missa okkur sérstaklega þegar aðeins þrír Íslendingar voru á vellinum ásamt markmanni. En það var ljúft þegar leikurinn var flautaður af og Íslendingarnir gátu fagnað. Reyndar varð mikið spennufall hér hjá okkur því útsendingin á netinu var stoppuð svo snögglega þegar leikurinn kláraðist og allt í einu sátum við þrjú og leið undarlega því allt var svo hljótt.

juni 17, 2006
 
Gleðilegan 17. júní

Ég vona að allir Íslendingar eigi góðan dag, hvar svo sem þeir eru staddir í heiminum. Fyrir mitt leyti verður dagurinn samt ekkert öðruvísi en aðrir dagar síðasta mánuðinn eða svo, því ég er jú enn í próflestri og mun ég því nota daginn til að lesa um hina ýmsu nýrnasjúkdóma. Kannski ég slái á þráðinn til hennar múttu, ef hún er heima.



Í kvöld ætlum við Baldur svo að fylgjast með íslensku strákunum í handboltalandsliðinu slá Svíagrýluna sundur og saman, svo þeir komist á HM í janúar.

juni 16, 2006
 
Kisan

Á morgun er 17. júní, sjálfur þjóðhátíðardagurinn. En á morgun er líka liðið eitt ár síðan yndislega kisan mín dó. Það var bakkað á hana á planinu hjá mömmu og pabba í Sörlaskjólinu, þegar hún lá þar og svaf. Hún var að bíða eftir að mamma og pabbi kæmu heim, en þau höfðu skroppið eitthvað niður í bæ á bílnum og kisa sat á planinu þegar þau fóru. Ég trúi því fastlega að hún hafi dáið samstundis og jafnvel ekkert vaknað þegar keyrt var á höfuðið á henni.

Kisa fékk aldrei neitt nafn, hún hét bara kisa. Hjá okkur var hún alltaf kölluð kisan, því hún var kisan og engri lík, ótrúlegur karakter. Ég man þegar kisa fæddist, 3. mars 1992 (á afmælisdaginn hennar Ástu ömmu, sem reyndar var dáin þá), í þvottahúsinu heima hjá okkur í Kambahrauninu. Mamma tók á móti henni og fjórum systkinum hennar. Þegar við fluttum í bæinn árið 1999 var aldrei ætlunin að leggja það á kisu að flytja með, en við gátum bara ekki látið svæfa hana og var hún því tekin með. Fyrstu tímarnir í Sörlaskjólinu voru erfiðir, en kisa var ekki lengi að jafna sig og með tímanum var hún farin að stjórna öllu þar. Það var alveg greinilegt að aðrir kettir báru mikla virðingu fyrir henni, enda var hún orðin gömul og frek.

Það er skrítið að koma heim til mömmu og pabba í Sörlaskjólið því það vantar kisuna. Það er eitthvað svo tómlegt þar núna!

Til marks um það hvað kisa skipaði stóran sess í mínu lífi má geta þess að þegar ég varð 19 og bauð vinkonum heim voru öll afmæliskort sem ég fékk með kisumynd. Meira eða minna öll kort sem ég fæ frá mömmu, enn þann dag í dag eru líka með kisumyndum. Meira að segja þegar hún var í Róm tókst henni að finna póstkort með kisu á.

Og svo er alveg ógleymanlegt þegar Helga vinkona fór einu sinni til útlanda og vildi fá heimilisfangið mitt svo hún gæti sent mér póstkort, þá sagði hún; "Ekki fer ég að senda það á húsið við sjóinn, þar sem kötturinn á heima?".
Pabbi var alveg viss um að pósturinn hefði fundið húsið, því þó að það séu margir kettir í húsunum við sjóinn, þá var hún kisa sko kötturinn

juni 11, 2006
 
Pjentedamgades Friluftsbad

Það er nú meira sumarveðrið hér í Mörkinni þessa dagana og erfitt fyrir stúdentana að halda sig innandyra við próflestur, úff (bara rétt rúmar tvær vikur enn)! Hér á Pjentedam er svo huggulegt úti í garði að margir velja að lesa þar, eins og sést á myndinni hér til hliðar, sem er einmitt tekin í dag á svölunum fyrir utan hjá mér. Ég hef nú ekki verið neitt sérstaklega dugleg við að lesa um helgina, en er búin að vera heilmikið í sólbaði úti í garði og er líka orðin alveg þokkalega brún. Frá og með morgundeginum verður próflesturinn samt aftur í fyrirrúmi og minna um sólböð. Á þriðjudaginn er ég samt búin að plana að skella mér í laugina, enda möguleiki á að hún verði orðin nógu volg þá, en við létum renna í hana í gær og í morgun þannig að hún er ennþá ansi köld.

juni 07, 2006
 
Sumar og sól

Já, nú er sko sumarið komið hér í Mörkinni. Næstu dagana mun hitastigið smám saman stíga og ná 25°C á sunnudaginn, en það á jafnframt að vera glampandi sól alla næstu daga. Ég vildi að ég gæti flýtt tímanum um svona 3 vikur, en þá verð ég búin í prófinu og get lagst út í garð með góðri samvisku og lesið allar skemmtilegu bækurnar sem ég fékk í jólagjöf og hef ekki haft tíma til að lesa ennþá.

Ég nenni ekki meiri próflestri og mikið er ég fegin að þetta próf sem ég er að fara í eftir 3 vikur er síðasta stóra prófið mitt hér við SDU, fyrir utan auðvitað mastersvörnina.

Eru hortensíurnar mínar ekki fallegar (myndin hér fyrir ofan)? Þær koma mér í gott skap í hvert sinn sem ég fer út á svalir, en þær eru líka alltaf að verða fallegri og fallegri, þ.e.a.s. liturinn hefur dökknað heilmikið og svo eru sífellt að koma ný blóm. Þær þurfa reyndar mikið af vatni til að vera svona fallegar og ef þær fá aðeins of lítið vatn fara þær strax að hanga. Þegar það gerðist fyrst var ég skíthrædd um að nú yrði ekki aftur snúið, en eftir að hafa gefið þeim vatn voru þær ekki lengi að lyfta sér upp á ný.

juni 01, 2006
 
Afslöppun alla helgina!

Ég var í lyfjafræðiprófinu í dag og gekk barasta mjög vel, fékk 10 :-), þannig að núna á aldeilis að slappa af með Baldri mínum alla helgina. Oooo, ég ætla svo að njóta þess, enda á veðrið að vera þokkalegt eða um 20°C og sól. Á mánudaginn mun ég svo byrja að læra fyrir næsta próf sem verður 27./28. júní. En það verður jafnframt síðasta prófið mitt við SDU ef frá eru talin, annars vegar lítið próf sem ég fer í eftir tveggja vikna sumarvalkúrs í ágúst og svo auðvitað vörnin á mastersverkefninu mínu.

Það er ágætt að vera farinn að geta séð fyrir endann á þessu langa og stranga háskólanámi, en frá og með byrjun september mun ég vera eins og komin í vinnu þar sem ég verð eingöngu að vinna að mastersverkefninu mínu hjá stofnfrumurannsóknahópnum í Medicinsk Bioteknologisk Center. Það verður skrítið að vera ekki lengur í fyrirlestrum með vinkonum mínum, en hins vegar geggjað að geta sökkt mér ofan í ákveðið verkefni og unnið mig áfram með rannsóknum þar til ég vonandi get svarað einhverjum mikilvægum spurningum um stofnfrumurnar mínar.