Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

august 26, 2006
 
10 ár

Í dag, 26. ágúst, eru nákvæmlega 10 ár síðan ég fór sem skiptinemi til Austurríkis og var þar í eitt ár. Ég var ekki nema tæplega 16 ára, en ég man að mér fannst ég samt vera svo fullorðin að vera að fara svona alein út í heim. Við vorum fjögur sem fórum til Austurríkis þetta árið, þ.e. ég og þrír strákar, einn jafngamall mér og tveir tveimur árum eldri. Þennan dag fyrir nákvæmlega 10 árum flugum við fjögur til Wien með millilendingu í Kaupmannahöfn. Við lentum um kvöldið í Wien og þegar við komum út um hliðið á flugvellinum sáum við mann sem þar stóð með skilti með nöfnunum okkar á. Hann keyrði okkur svo á gistiheimili þar sem fleiri skiptinemar frá öðrum löndum voru samankomnir. Ég man að við skrúfuðum niður rúðurnar í bílnum á leiðinni því okkur fannst svo heitt og svo keyrðum við m.a. fram hjá Hundertwasser húsinu (sem við Baldur einmitt kíktum á í sumar þegar við vorum í Wien). Við vorum nokkra daga í Wien ásamt öllum hinnum skiptinemunum, en svo skildu leiðir og við fórum hvert og eitt með lest til þess bæjar sem við bjuggum í næsta árið. Við skiptinemarnir sem vorum í sama fylki áttum samt eftir að hittast oft yfir árið og fá tækifæri til að kynnast betur.

Þetta ár í Austurríki, sem hófst fyrir nákvæmlega 10 árum síðan hefur haft mikil áhrif á mig og ég mun búa að því alla tíð. Það var auðvitað ekki eingöngu dans á rósum, en þó leið mér aldrei illa eða langaði heim. Ég eignaðist fullt af vinum og svo auðvitað æðislegu fjölskylduna mína í Braunau, sem ég er enn í góðu sambandi við. Þegar við Baldur vorum þar í sumar, gerðist það að einn fjölskylduvinur spurði hvernig ég og fjölskyldan hefðum getað haldið svona góðu sambandi í öll þessi ár og þau voru sammála um að það væri einfaldlega þannig að í hvert sinn sem ég kæmi til þeirra félli ég svo vel inn í hópinn að það væri eins og ég hefði bara aldrei farið.

august 24, 2006
 
Af músum og og rottum...

Jæja, þá er þetta sumar liðið! Það finnst mér að minnsta kosti þar sem ég er komin í skólann og einnig af því að það er bara orðið frekar kalt hér í DK (ekki nema 20°C og lítið sem ekkert sólskin).

Núna er ég í tveggja vikna áfanga um tilraunadýr, þar sem ég er í fyrirlestrum á morgnana og verklegum æfingum á daginn. Í verklegu æfingunum er ég t.d. búin að prófa að sprauta mýs intraperitonalt og bæði mýs og rottur subcutant og svo er ég búin að læra að sauma, þ.e.a.s loka eftir aðgerð, en það þurfum við einmitt að gera þegar við í næstu viku framkvæmum aðgerð á músum.

Annars er heldur betur farið að styttast í að ég byrji á mastersverkefninu mínu hjá stofnfrumuhópnum í Medicinsk Bioteknologisk Center á sjúkrahúsinu hér í Odense, ekki nema rúm vika. Þar mun ég standa fyrir rannsóknum á frumum og vefjum frá transgenum músum, en þessar transgenu mýs er þannig gerðar að genið sem sett hefur verið í þær er aðallega tjáð í beinunum og hefur áhrif á sérhæfingu beinfruma frá beinmergsstofnfrumum og hafa þessar mýs minni beinamassa en venjulegar mýs af sama stofni. Ég er fyrst og fremst að fara að rækta og rannsaka beinfrumurnar frá músunum og skoða áhrif þessa gens á beinfrumurnar, en ég mun líka aðeins skoða hvaða áhrif það hefur á aðra vefi. Þetta á eftir að verða mjög spennandi og fjölbreytilegt verkefni, þar sem ég fæ tækifæri til að prófa ýmsar rannsóknaaðferðir. Vá, ég get varla beðið eftir að byrja !!! Ég hitti einmitt leiðbeinandnann minn í fyrradag og hann sagði mér að verkefnið hreinlega biði eftir mér (einhverjir vefir eru sem sagt tilbúnir fyrir mig), þannig að það verður nóg að gera hjá mér frá fyrsta degi. Fyrst þarf ég samt að klára tilraunadýraáfangann, en honum lýkur á föstudaginn í næstu viku.

august 15, 2006
 
Síðustu dagar sumarfrísins

Ég hef lítið nennt að blogga undanfarið, enda ekki frá miklu að segja þar sem ég er bara að njóta síðustu daga sumarfrísins. Baldur er farinn til Íslands og ég er því bara ein hér heima að hangsa og hafa það huggulegt. Það er um að gera að leyfa sér að vera latur núna og gera sem minnst, þar sem engin leið er að vita hvenær maður getur gert það aftur af því að þegar ég verð byrjuð á mastersverkefninu verður ekkert sem heitir reglubundið frí lengur. Nei, nei það mun algjörlega stjónast af gengi verkefnisins hvenær ég get leyft mér að slappa aðeins af og jafnvel halda frí. Ég er nú ekkert að gera mér upp of miklar vonir samt þar sem ég er að fara að vinna að stóru verkefni og ég ætla mér að klára það næsta haust (en ekki vera 2 ár að því eins og flestir hér í DK).

Annars þá skrapp ég til Esbjerg um helgina þar sem vinkona mín, sem vann með mér í Svømmestadion Danmark, hélt grillpartý fyrir alla ættingja og kunningja. Það var rosalega mikið af mat, við erum að tala um grillaðan humar, allskyns kjöt og fisk, ásamt salati og kók og bjór eins og maður gat í sig látið. Þar á eftir var svo borið fram kaffi og kökur, og í lokin snakk og nammi og alls kyns áfengi. Að auki var þarna írskur vinur þeirra sem spilaði og söng og því mikið fjör. Já, svaka veisla og þetta er í þriðja sinn sem þau gera þetta, þ.e. þriðja sumarið í röð.

Þar fyrir utan hef ég lítið gert annað en að lesa. Ég hef fengið nokkrar vísindagreinar frá leiðbeinandanum mínum sem ég hef verið að lesa og svo hef ég mest verið að lesa skáldsögurnar sem ég átti eftir frá því um jólin (sökum mikilla anna allt vorið).

august 11, 2006
 
Brjálæði!

Ég rakst á eftirfarandi á visir.is og segi nú bara...

...Gott að ég bý ekki í Reykjavík!

"Biðlistar eru langir eftir leiguhúsnæði og eftirpsurnin meiri en framboðið. Meðalleiguverð tveggja herbergja íbúða á Reykjavíkursvæðinu er nú um 70-80.00 þúsund krónur á mánuði en í fyrra var meðalverðið 50.000-60.000 kónur.

"Á heimasíðu Stúdentamiðlunar er 76 fermetra húsnæði auglýst á 95.000 kr. á mánuði. 60 fermetra íbúð er auglyst á 85.000 krónur á mánuði og 16 fm herbergi auglyst á 35.000 krónur á mánuði."
Sjá grein hér

Við Baldur erum að fara að borga 4.000 dkr á mánuði fyrir 60 fm íbúð og er hiti og vatn innifalið í því verði. Sem sagt um 44.000 ikr í staðinn fyrir 85.000 í Reykjavík. Íbúðin sem við erum að fara að leigja er samt í miðbæ Odense og húsnæðið er glænýtt, byggt árið 2004 minnir mig. Hér í Danmörku er kerfið reyndar þannig að leigan á kollegíum niðurgreidd af ríkinu og þess vegna eingöngu námsmenn sem geta leigt þar.

Já, það er nú aldeilis gott að vera námsmaður í Danmörku. Maður leigir ódýrt og það er heldur engin pressa að eiga bíl, enda eru allir aðrir á hjóli og alsælir með það. Og það er meira að segja ósköp venjulegt að koma bara á hjólinu á djammið.

august 05, 2006
 
Íbúð

Við Baldur vorum að fá tilboð um tveggja herbergja íbúð á Bikuben kollegíinu (sjá mynd) sem við erum staðráðin í að taka. Við munum þá flytja saman þann 15. september næstkomandi og má því kalla það afmælisgjöfina okkar beggja í ár (þar sem við eigum afmæli 13. og 14. september). Ég er farin að hlakka heilmikið til og er þegar byrjuð að raða húsgögnunum í huganum. En ég á samt eftir að sakna Pjentedam og þá sérstaklega garðsins þar sem við höfum grillað heilmikið og ég hef séð um blómin og sundlaugina í sumar.

Það verður nóg að gera þann 15. september að flytja búslóðirnar okkar beggja og allir velkomnir sem vilja hjálpa. Við munum örugglega panta pizzu og jafnvel opna hvítvíns- og/eða rauðvínsflösku um kvöldið. Þar sem ég fer í tveggja vikna sumarkúrs þann 21. ágúst og byrja á mastersverkefninu mínnu strax að honum loknum verður nóg að gera hjá mér og því stefni ég á að byrja smám saman að pakka niður á næstunni.

Annars þá hlakka ég mjög mikið til að byrja á mastersverkefninu mínu sem stefnir í að verði rosalega spennandi. Mér líst allavegana mjög vel á það sem mér hefur verið falið að gera!