Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

september 18, 2006
 
Flutt!

Jæja, þá erum við flutt. Nýja heimilisfangið er Rosenbæk Torv 19 3,8 og póstnúmerið er enn það sama, 5000 Odense C (ef einhvern langar að senda okkur póstkort). Við vorum á fullu alla helgina, pökkuðum langt fram á kvöld á föstudag, fluttum allan laugardaginn og þrifum svo gömlu íbúðirnar fram á kvöld í gær, sunnudag. Núna eigum við bara eftir að koma okkur fyrir í nýju íbúðinni, en það mun gerast smám saman næstu vikurnar. Þó að það hafi verið heilmikið streð að flytja verð ég að segja að ég skemmti mér mjög vel á meðan við vorum að því á laugardaginn. Við fengum ómetanlega hjálp frá Þór og Davíð, sem eiga miklar þakkir skilið. Davíð var frábær í að bera kassa og Þór var snillingur í að raða á kerruna og í bílinn. Reyndar var hann svo frábær að raða að við þurftum ekki að fara nema tvær ferðir, og alltaf þegar við héldum að nú væri komið nóg, sagði hann okkur bara að koma með meira, það væri nóg pláss.

Þegar við vorum að fara síðustu ferðina bættist hann Siggi vinur Baldurs í hópinn og hjálpaði okkur með það síðasta og svo fórum við út að borða á Eydes kælder. Strákarnir enduðu svo kvöldið á að fara í bæinn, en ég var alveg búin og ákvað að vera bara heima, enda þurfti ég að fara á rannsóknastofuna á sunnudaginn áður en við fórum að þrífa.

En núna erum við loksins flutt og nýja íbúðin er yndisleg. Það verður samt gaman að losna við kassana úr stofunni!

september 14, 2006
 
Afmælisbarn dagsins í dag...

...er hann Baldur!

Til hamingju með 26 ára afmælið elsku Baldur minn!

Hin stóra frétt dagsins er að ég var einmitt rétt í þessu að sækja lyklana að nýju íbúðinni okkar. Ég kíkti aðeins inn og sá að það er búið að mála og pússa gólfin, og svo var einmitt verið að þrífa. Nú eru bara tveir dagar þar til að við flytjum og ég er farin að hlakka mikið til.

september 13, 2006
 
Afmælisbarn dagsins í dag...

...er enginn annar en ég sjálf!

Klukkan 16.20 í dag verða komin heil 26 ár síðan ég ákvað að nú væri kominn tími til að drífa sig í heiminn. 13. september varð sem sagt fyrir valinu þrátt fyrir að það væri tveimur vikum fyrir settan tíma. En þar með tókst mér að verða á undan Baldri sem einmitt á 26 ára afmæli á morgun.

september 10, 2006
 
Kassar og fleiri kassar

Nú er búslóðin öll að verða komin í kassa, enda orðið stutt í flutninga. Ég hef verið dugleg að pakka um helgina og er nokkurn veginn búin að pakka öllu nema fötunum mínum, svolitlu úr eldhúsinu og baðherberginu og svo tölvunni. Því sem eftir er verður pakkað á föstudagskvöldið og svo kemur Þór, vinur okkar Baldurs frá Århus, á laugardaginn og hjálpar okkur að flytja búslóðina yfir í nýju íbúðina okkar. Já, hann Þór ætlar að koma á sendibíl og sparar okkur þar með að þurfa að panta flutningabíl og svo sparar hann okkur líka mikið stress, því við sleppum við að þurfa að rumpa þessu af í einum grænum því flutningabílstjórarnir eru jú alltaf á tímakaupi. Það er sko gott að eiga góða að!!!

Annars er veðrið alveg yndislegt í Mörkinni í dag. Við hér á Pjentedam nýttum okkur það til að tæma og ganga frá sundlauginni okkar og sólbekkjunum, en þar með finnst mér sumarið endanlega vera liðið og haustið tekið við (þó veðrið sé óneitanlega afar sumarlegt ákkurat núna).

Þetta góða veður um helgina hefur aldeilis ekki verið amalegt fyrir íslensku strákana sem þessa helgina eru samankomnir á Klakamótinu í Køben. En fyrir þá sem ekki vita er Klakamótið knattspyrnukeppni milli Íslendingafélaganna í Danmörku og er Odense alltaf með lið og yfirleitt fleiri en eitt, enda mikið af íslenskum námsmönnu hér í bænum.

september 05, 2006
 
Haust

Eruði nokkuð hætt að lesa? Ég verð nú að byrja á því að biðja ykkur afsökunar á bloggletinni í mér undanfarið, en miðað við heimsóknirnar á síðuna virðast ennþá vera einhverjar hræður sem ekki hafa gefist upp á mér.

Já, nú er bara allt í einu komið haust og maður finnur vel hvað er farið að kólna úti á morgnana. Kannski er ástæðan bara að ég er farin af stað miklu fyrr en ég gerði í sumarfríinu. En allavegana þá er farið að vera svolítið haustlegt úti og svo er nú líka komið fram í september.
En ég kláraði tilraunadýrakúrsinn síðasta föstudag og er núna komin á rannóknastofuna þar sem ég er búin að koma mér vel fyrir. Ég er bara búin að vera hérna í tvo daga en er samt búin að læra heilmikið en mér er nánast bara kastað beint út í þetta allt saman og þarf ég því að vera fljót að læra hlutina. En það er bara í fínasta lagi því maður má svo sem engan tíma missa, enda ætla ég ekki að vera mikið lengur en rétt rúmlega ár með verkefnið mitt á meðan flestir hér í DK eru tvö ár eða lengur að þessu.

Annars er það helst að frétta að vinkona mín eignaðist son aðfararnótt sunnudags og heimsótti ég hana á "vuggen" á sjúkrahúsinu hér í Odense í gær. Sá litli, sem var auðvitað alveg yndislegur, svaf allan tímann meðan ég var þarna hjá þeim, en hann hafði víst látið hafa svolítið fyrir sér nóttina á undan og var því bara voða þreyttur.