Weblog Commenting by HaloScan.com


Site Meter
Gunnhildur í Odense!
The WeatherPixie

oktober 22, 2006
 
Ekki alveg hætt enn!

Ég er ekki alveg hætt að blogga, þó að ég sé orðin ansi léleg í því! Málið er bara að það er svo rosalega mikið að gera núna eftir að ég byrjaði á mastersverkefninu mínu að ég hef bara ekki tíma í margt annað. Þennan litla frítíma sem ég hef nota ég nú helst til að vera með honum Baldri mínum, en annars er ég nú yfirleitt gjörsamlega rotuð á kvöldin. Ég mæti alla virka daga fyrir átta á rannsóknastofuna og er yfirleitt ekki komin heim fyrr en milli sex og átta á kvöldin. Svo kemur stundum fyrir að ég skreppi á kvöldin og um helgar fer ég alltaf annan daginn og oft báða dagana. En ég kvarta ekki, því þetta er svo rosalega spennandi vinna og alveg frábært verkefni sem ég er að vinna að. Ég er sannfærð um að við eigum eftir að fá góðar niðurstöður úr þessu verkefni og að það muni koma nokkrar vísindagreinar frá okkur í kjölfarið á því.

Íbúðin okkar Baldurs er annars alltaf að verða meira og meira kósí. Í dag settum við loksins upp gardínur, svo núna þarf maður ekki að vera hræddur um að nágrannarnir sjái mann þegar maður skreppur á klósettið á nærbuxunum á næturna.

Jæja, ég nenni ekki að eyða öllu kvöldinu við tölvuna. Á morgun byrjar ný vinnuvika...

...úff, áður en maður veit af verða bara komin jól !!!

oktober 07, 2006
 
Allt gott að frétta!

Usss, þetta hefur nú verið ansi löng bloggpása hjá mér, farið að nálgast heilan mánuð!!!

Af okkur skötuhjúunum er sem sagt allt gott að frétta, bara brjálað að gera alla daga. Við erum núna búin að koma okkur vel fyrir í nýju íbúðinni, sem orðin voða kósí og fín. Það eina mikilvæga sem vantar eru gardínur, en annars erum við orðin nokkuð sátt. Auðvitað vantar ennþá ýmislegt smotterí svo sem að setja upp fleiri myndir og kannski eitthvað af hillum, en það liggur ekkert svo á því. Elli bróðir kom um síðustu helgi og var ekki lengi að setja upp ljósin fyrir okkur og svo boraði hann líka fyrir nokkrum myndum og vínrekkanum, sem ég gaf Baldri í afmælisgjöf í fyrra. Hann kom svo aftur í heimsókn til okkar í dag og hafði þá með sér dimmera fyrir ljósin í stofunni og borðstofunni. Mange tak fyrir það stóri bró !

Það hefur verið svo mikið að gera síðan ég byrjaði á mastersverkefninu mínu að tíminn hefur bara flogið áfram og ég trúi því varla að það sé komið fram í október. Það lítur ekkert út fyrir að það verði eitthvað minna að gera hjá mér á næstunni, eiginlega þvert á móti, því ég er að fara að byrja á nokkrum stórum verkefnum sem ég hef verið að undirbúa að undanförnu. Leiðbeinandinn minn kynnti verkefnið okkar á ráðstefnu í Bandaríkjunum um daginn og sagði að það hefði verið mikill áhugi fyrir því á meðal hinna vísindamannanna. Er því beðið eftir niðurstöðum frá okkur og þess vegna mikilvægt að við komum með eitthvað fljótlega.

Við Baldur vorum að kaupa okkur flugmiða til Íslands um jólin. Þetta verður stutt stopp þetta árið en við komum þann 22. desember og förum aftur 1. janúar. Eða eins og pabbi orðaði það þá komum við mátulega í skötuna og förum aftur rétt eftir flugeldana.