november 26, 2006
Halló Halló !!!
Fyrirsögnin á síðasta bloggi var "Ekki alveg hætt enn" og svo hef ég bara ekkert skrifað í rúman mánuð. Hmm, ekki nógu gott það! Merkilegt að það skuli ennþá vera einhverjir sem nenna að kíkja á þessa síðu. En núna ætla ég aðeins að bæta úr þessu og reyna að renna yfir það sem hefur staðið upp úr síðasta mánuðinn.
Ég hef komist að því að það er ekki tekið út með sældinni að vera vísindamaður. Það er bara vinna og meiri vinna. Ég er alltaf á rannsóknastofunni 10-12 tíma alla virka daga og svo þarf ég yfirleitt að skreppa í 2-3 tíma báða dagana um helgar. Aumingja Baldur minn, hann sér mig ekkert nema á kvöldin og þá er ég yfirleitt gjörsamlega útkeyrð, enda er ég ekkert að slappa af þegar ég er í vinnunni, heldur á fullu allan tímann. Verkefnið mitt gengur samt mjög vel og ég hef verið að fá ágætis niðurstöður, þannig að þetta er allt saman mjög jákvætt.
Það helsta sem hefur gerst síðasta mánuðinn er að við Baldur fengum heimsókn af fjórum hressum og kátum íslenskum karlmönnum. Þetta voru sem sagt Ingi bróðir Baldurs, Gunni og Bjarni vinir Baldurs frá Íslandi og svo Þór vinur okkar frá Århus. Strákarnir komu daginn sem jólabjórinn kom (J-dag) og var því að sjálfsögðu farið í bæinn og bjórinn teigaður. Fyrst fórum við í örstutta lestarferð á göngugötunni með Tuborg-lestinni og svo fórum við inn á skemmtistað þar sem við fengum Albani jólahúfur og jólamerki og fullt, fullt af bjór. Ég setti nokkrar myndir af skemmtilegheitunum hér fyrir neðan.
Nú, svo eru fleiri gestir að koma til okkar og næst í röðinni eru þau Júlía og Markús (tengdó), sem koma á næsta miðvikudag. Af því tilefni tók ég mig til í gær og setti upp jólaskraut ;-)
En talandi um jólin þá lítur út fyrir að þær jólagjafir sem ég kaupi þetta árið verði bara úr fríhöfninni, þar sem ég sé ekki alveg fram á að hafa tíma til að komast í búðir og versla. Nema reyndar í dag! Aldrei þessu vant þarf ég ekki að skreppa á rannsóknastofuna og ætla ég því að nota daginn og kíkja í búðirnar og reyna að kaupa eitthvað af jólagjöfum.