oktober 19, 2007
Barnaland
jæja, núna er komin síða inn á barnaland :-)
Endilega kíkiði á hana!
Sendið mér svo mail og ég mun senda ykkur lykilorðið.
oktober 08, 2007
Halló Halló !!!
Jæja, svo gafst ég bara hreinlega upp á þessu blogg veseni. Hef ekkert bloggað síðan í desember á síðasta ári. Ja hérna hér!
Mér datt í hug að skrifa nokkrar línur hér inn til að úrskurða þetta blogg endanlega dáið og til að láta vita af því að fljótlega munum við skötuhjúin opna síðu á barnalandi fyrir litla krílið okkar. Ég reikna með að síðan verði tilbúin í síðasta lagi í lok þessa árs, þ.e.a.s. tímanlega fyrir komu litla krílisins í heiminn í febrúar. Þá ættu allir vinir okkar og vandamenn á Íslandi sem og annars staðar í heiminum að geta fylgst með prinsinum/prinsessunni frá fyrsta degi :-) En fyrir þá sem ekki vita og fyrir algjöra slysni hafa dottið inn á þessa síðu þá er ég ófrísk og núna komin 20 vikur á leið. Við Baldur erum auðvitað í skýjunum yfir þessu og getum ekki beðið eftir að fá krílið okkar í heiminn :-)
Þegar barnalandssíðan er tilbúin mun ég setja link hér inn á þessa síðu
Kveðja Gunnhildur, Baldur og litla kríli
december 20, 2006
Allt að gerast!!!
Það er bara allt að gerast þessa dagana og góðar fréttir hreinlega streyma inn. Í gær komst ég að því að ég hef hlotið styrk frá Novo Nordisk fyrir árið 2007. Þessir styrkir eru árlega veittir sérlega duglegum nemum í vísindanámi sem eru að gera mastersverkefni við danskan Háskóla eða Háskólann í Lundi og það eru rosalega margir umsækjendur. Styrkurinn er uppá 6000 danskar krónur á mánuði í heilt ár sem eru auðvitað heilmiklir peningar, en þar fyrir utan er rosalega flott bara að fá styrkinn og hafa þetta í ferilskránni sinni. Og svo er ekki verra að vera kominn aðeins inn fyrir hjá Novo Nordisk sem er jú stærsta líftæknifyrirtækið á Norðurlöndum. Þann 25. janúar fer ég með leiðbeinandanum mínum til Novo þar sem ég hitti hina sem fengu líka styrk fyrir árið 2007.
Hinar góðu fréttirnar eru að mín fyrsta vísindagrein kom út online í Journal of Biological Chemistry í dag. Hægt er að finna hana hér með því að skrifa "Traustadottir" í author, en hún mun koma út á prenti í mars/apríl útgáfu blaðsins. Vá, núna er maður bara orðinn alvöru vísindamaður (og þetta var bara B.Sc. verkefnið mitt sem er í þessari grein)!!!
Annars gengur mastersverkefnið mitt rosalega vel og það munu sko koma nokkrar vísindagreinar út úr því.
Jæja, bara tveir dagar þangað til við Baldur komum á Klakann í jólafrí :-)
november 26, 2006
Halló Halló !!!
Fyrirsögnin á síðasta bloggi var "Ekki alveg hætt enn" og svo hef ég bara ekkert skrifað í rúman mánuð. Hmm, ekki nógu gott það! Merkilegt að það skuli ennþá vera einhverjir sem nenna að kíkja á þessa síðu. En núna ætla ég aðeins að bæta úr þessu og reyna að renna yfir það sem hefur staðið upp úr síðasta mánuðinn.
Ég hef komist að því að það er ekki tekið út með sældinni að vera vísindamaður. Það er bara vinna og meiri vinna. Ég er alltaf á rannsóknastofunni 10-12 tíma alla virka daga og svo þarf ég yfirleitt að skreppa í 2-3 tíma báða dagana um helgar. Aumingja Baldur minn, hann sér mig ekkert nema á kvöldin og þá er ég yfirleitt gjörsamlega útkeyrð, enda er ég ekkert að slappa af þegar ég er í vinnunni, heldur á fullu allan tímann. Verkefnið mitt gengur samt mjög vel og ég hef verið að fá ágætis niðurstöður, þannig að þetta er allt saman mjög jákvætt.
Það helsta sem hefur gerst síðasta mánuðinn er að við Baldur fengum heimsókn af fjórum hressum og kátum íslenskum karlmönnum. Þetta voru sem sagt Ingi bróðir Baldurs, Gunni og Bjarni vinir Baldurs frá Íslandi og svo Þór vinur okkar frá Århus. Strákarnir komu daginn sem jólabjórinn kom (J-dag) og var því að sjálfsögðu farið í bæinn og bjórinn teigaður. Fyrst fórum við í örstutta lestarferð á göngugötunni með Tuborg-lestinni og svo fórum við inn á skemmtistað þar sem við fengum Albani jólahúfur og jólamerki og fullt, fullt af bjór. Ég setti nokkrar myndir af skemmtilegheitunum hér fyrir neðan.
Nú, svo eru fleiri gestir að koma til okkar og næst í röðinni eru þau Júlía og Markús (tengdó), sem koma á næsta miðvikudag. Af því tilefni tók ég mig til í gær og setti upp jólaskraut ;-)
En talandi um jólin þá lítur út fyrir að þær jólagjafir sem ég kaupi þetta árið verði bara úr fríhöfninni, þar sem ég sé ekki alveg fram á að hafa tíma til að komast í búðir og versla. Nema reyndar í dag! Aldrei þessu vant þarf ég ekki að skreppa á rannsóknastofuna og ætla ég því að nota daginn og kíkja í búðirnar og reyna að kaupa eitthvað af jólagjöfum.
oktober 22, 2006
Ekki alveg hætt enn!
Ég er ekki alveg hætt að blogga, þó að ég sé orðin ansi léleg í því! Málið er bara að það er svo rosalega mikið að gera núna eftir að ég byrjaði á mastersverkefninu mínu að ég hef bara ekki tíma í margt annað. Þennan litla frítíma sem ég hef nota ég nú helst til að vera með honum Baldri mínum, en annars er ég nú yfirleitt gjörsamlega rotuð á kvöldin. Ég mæti alla virka daga fyrir átta á rannsóknastofuna og er yfirleitt ekki komin heim fyrr en milli sex og átta á kvöldin. Svo kemur stundum fyrir að ég skreppi á kvöldin og um helgar fer ég alltaf annan daginn og oft báða dagana. En ég kvarta ekki, því þetta er svo rosalega spennandi vinna og alveg frábært verkefni sem ég er að vinna að. Ég er sannfærð um að við eigum eftir að fá góðar niðurstöður úr þessu verkefni og að það muni koma nokkrar vísindagreinar frá okkur í kjölfarið á því.
Íbúðin okkar Baldurs er annars alltaf að verða meira og meira kósí. Í dag settum við loksins upp gardínur, svo núna þarf maður ekki að vera hræddur um að nágrannarnir sjái mann þegar maður skreppur á klósettið á nærbuxunum á næturna.
Jæja, ég nenni ekki að eyða öllu kvöldinu við tölvuna. Á morgun byrjar ný vinnuvika...
...úff, áður en maður veit af verða bara komin jól !!!
oktober 07, 2006
Allt gott að frétta!
Usss, þetta hefur nú verið ansi löng bloggpása hjá mér, farið að nálgast heilan mánuð!!!
Af okkur skötuhjúunum er sem sagt allt gott að frétta, bara brjálað að gera alla daga. Við erum núna búin að koma okkur vel fyrir í nýju íbúðinni, sem orðin voða kósí og fín. Það eina mikilvæga sem vantar eru gardínur, en annars erum við orðin nokkuð sátt. Auðvitað vantar ennþá ýmislegt smotterí svo sem að setja upp fleiri myndir og kannski eitthvað af hillum, en það liggur ekkert svo á því. Elli bróðir kom um síðustu helgi og var ekki lengi að setja upp ljósin fyrir okkur og svo boraði hann líka fyrir nokkrum myndum og vínrekkanum, sem ég gaf Baldri í afmælisgjöf í fyrra. Hann kom svo aftur í heimsókn til okkar í dag og hafði þá með sér dimmera fyrir ljósin í stofunni og borðstofunni. Mange tak fyrir það stóri bró !
Það hefur verið svo mikið að gera síðan ég byrjaði á mastersverkefninu mínu að tíminn hefur bara flogið áfram og ég trúi því varla að það sé komið fram í október. Það lítur ekkert út fyrir að það verði eitthvað minna að gera hjá mér á næstunni, eiginlega þvert á móti, því ég er að fara að byrja á nokkrum stórum verkefnum sem ég hef verið að undirbúa að undanförnu. Leiðbeinandinn minn kynnti verkefnið okkar á ráðstefnu í Bandaríkjunum um daginn og sagði að það hefði verið mikill áhugi fyrir því á meðal hinna vísindamannanna. Er því beðið eftir niðurstöðum frá okkur og þess vegna mikilvægt að við komum með eitthvað fljótlega.
Við Baldur vorum að kaupa okkur flugmiða til Íslands um jólin. Þetta verður stutt stopp þetta árið en við komum þann 22. desember og förum aftur 1. janúar. Eða eins og pabbi orðaði það þá komum við mátulega í skötuna og förum aftur rétt eftir flugeldana.
september 18, 2006
Flutt!
Jæja, þá erum við flutt. Nýja heimilisfangið er Rosenbæk Torv 19 3,8 og póstnúmerið er enn það sama, 5000 Odense C (ef einhvern langar að senda okkur póstkort). Við vorum á fullu alla helgina, pökkuðum langt fram á kvöld á föstudag, fluttum allan laugardaginn og þrifum svo gömlu íbúðirnar fram á kvöld í gær, sunnudag. Núna eigum við bara eftir að koma okkur fyrir í nýju íbúðinni, en það mun gerast smám saman næstu vikurnar. Þó að það hafi verið heilmikið streð að flytja verð ég að segja að ég skemmti mér mjög vel á meðan við vorum að því á laugardaginn. Við fengum ómetanlega hjálp frá Þór og Davíð, sem eiga miklar þakkir skilið. Davíð var frábær í að bera kassa og Þór var snillingur í að raða á kerruna og í bílinn. Reyndar var hann svo frábær að raða að við þurftum ekki að fara nema tvær ferðir, og alltaf þegar við héldum að nú væri komið nóg, sagði hann okkur bara að koma með meira, það væri nóg pláss.
Þegar við vorum að fara síðustu ferðina bættist hann Siggi vinur Baldurs í hópinn og hjálpaði okkur með það síðasta og svo fórum við út að borða á Eydes kælder. Strákarnir enduðu svo kvöldið á að fara í bæinn, en ég var alveg búin og ákvað að vera bara heima, enda þurfti ég að fara á rannsóknastofuna á sunnudaginn áður en við fórum að þrífa.
En núna erum við loksins flutt og nýja íbúðin er yndisleg. Það verður samt gaman að losna við kassana úr stofunni!